Staðan desember 2024
Aðgerð lokið.
Í byrjun árs 2023 hófu HMS og Steinsteypufélag Íslands samstarf um gerð fræðsluefnis sem styðja hönnuði, verktaka, fasteignaþróunarfélög og steypuframleiðendur til að notast við vistvænni steypu. Fóðri í þá vinnu var m.a. safnað í sérstökum umræðutíma á Steinsteypudeginum sem haldinn var 10. febrúar 2023. Í ágúst 2023 hóf sérfræðingur í fræðslu og miðlun störf á sviði mannvirkja og sjálfbærni hjá HMS, en eitt af verkefnum hans er að taka þátt í þróun og gerð fræðsluefnisins.
Þá hefur Askur – mannvirkjarannsóknarsjóður styrkt fjölda verkefna þar sem vistvæn steypa er til rannsóknar, bæði í úthlutunum 2021 og 2022 (sjá nánar hér fyrir neðan). HMS og Samtök iðnaðarins undirbúa viðburð sem halda á haustið 2023 þar sem verkefnin verða kynnt nánar.
Verkefni sem tengjast vistvænni steypu og hafa verið styrkt af Aski 2021 og 2022:
#1 NÝIR ÍSLENSKIR SEMENTSÍAUKAR
Sunna Ólafsdóttir Wallevik / Gerosion ehf.
Markmið verkefnisins er að nota upplýsingar um íslensk steinefni sem hafa áður verið kortlögð sem mögulegir íaukar til að framleiða umhverfisvænar forsteyptar einingar. Í einingunum verður hámarks hlutfall af sementi skipt út fyrir íauka.
#2 HÁMÖRKUN STEINEFNA TIL AÐ LÆKKA KOLEFNISSPOR VENJULEGRAR OG VISTVÆNNI STEYPU
Ólafur Haralds Wallevik / Háskólinn í Reykjavík
Markmið verkefnisins er að hanna og þróa bæði venjulega (C25/30 FX2) og sér í lagi umhverfisvænni steinsteypu þar sem kolefnissporið er lækkað verulega með breytingum á kröfum til steinefna, m.a. til að lágmarka innihald þeirra og breytileika í fríu vatni en minnka sementsinnihald steypunnar að sama skapi og þar með kolefnisspor hennar.
Hér má sjá erindi Ólafs Wallevik, prófessors í Iðn og tæknifræðideild Háskólans í Reykavík, um verkefnið: Hámörkun steinefna sem íblöndunraefni í vistvænni steypu. Kynningin var haldin á viðburðinum Nýsköpun í mannvirkjagerð þann 23. maí 2023, sem skipulagður var af HMS og Verkís í tengslum við Nýsköpunarvikuna.
#3 ALSIMENT UMHVERFISVÆNT SEMENTSLAUST STEINLÍM
Kristján Friðrik Alexandersson / Gerosion ehf.
Markmið verkefnisins er að fullþróa og koma á markað umhverfisvænu, sementslausu íslensku AlSiment steinlími sem þjónar sama tilgangi og sement. AlSiment er ólífrænt bindiefni byggt á geopolymeter tækni en umhverfisáhrifs þess eru um 70% lægri en sements.
#4 BÆTT VISTVÆNI STEINSTEYPU MEÐ MINNA SEMENTI
Gísli Guðmundsson / Háskólinn í Reykjavík
Nýnæmi verkefnisins er að draga verulega úr sementsnotkun, umfram það sem þekkist hér á landi án þess að hafa áhrif á framleiðslu, gæði og endingu. Markmiðið er að rannsaka endingu C25/C30 steypu með allt að helmingi minna sementi en hefur verið notað í C25/C30 steypu. Faglegur bakgrunnur er tryggður með þátttöku helstu steypusérfræðinga Íslands. Leiðbeiningablað verður hluti af niðurstöðum.
#5 SAMANTEKT LEIÐBEININGA VIÐ VERKLAG YTRA EFTIRLITS MEÐ STEYPUSTÖÐVUM
Guðni Jónsson / Efla
Verkefninu er ætlað að taka saman leiðbeiningar um hvernig beri að túlka ýmis ákvæði í staðlinum ÍST EN 206 varðandi úttektir á steypuframleiðslu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Steinsteypufélagið.
Lokaafurð aðgerðar
Lokaafurð aðgerðar felst í aukinni notkun á vistvænni steypu, sem endurspeglast meðal annars í sölutölum steypuframleiðenda.
BM Vallá
BM Vallá hefur lagt áherslu á að þróa loflagsvænni steypu í takt við vinsælustu steypugerðirnar á markaðnum. Þær eru C25/30 og C30/37. Samanlagt mynda þær um 70% af daglegri sölu.
Berglind, vistvænni steypa frá BM Vallá, er hönnuð með 20% lægra kolefnisspori en hefðbundin steypa. Steypan hentar vel fyrir flesta byggingarhluta og áreitisflokka.
Berglind Svan er steypugerð sem samþykkt er fyrir Svansvottaðar byggingar og er með allt að 45% lægra kolefnisspor en hefðbundin steypa. Lækkunin næst með því að skipta hluta af sementi út fyrir kísilryk. Um er að ræða vel rannsakað possólana-efni sem hefur verið blandað með sementi á Íslandi í áratugi.
Frá janúar til loka nóvember 2024 var hlutdeild Berglindar og Berglindar Svan eftirfarandi:
- Í söluhæstu steypugerðum C25/30 og C30/37: 93%
- Í allri steypuframleiðslu BM Vallá: 70%
Steypustöðin
Lykillinn að þróun vistvænnar steypu hjá Steypustöðinni felst í notkun sements, flugösku og kísilryks. Steypustöðin flytur inn og notar sement frá Norcem og Aalborg-Portland. Þar að auki selur Elkem Ísland kísilryk sem er notað sem íauki í steypu.
Í dag býður Steypustöðin ehf. upp á steypu með flugöskusementi á öllum sínum stöðvum. Á markaðnum eru tvær tegundir sements:
- CEM II 42.5 Standard FA frá Norcem, sem hefur minni styrk og harðnar hægar.
- CEM II 52.5 Rapid FA frá Aalborg Portland, sem harðnar hraðar og hefur hærri styrk.
Vegna hægara hörðnunarferlis Standard FA sementis var það minna notað á vetrartíma. Hins vegar hefur Rapid FA sement gert Steypustöðinni kleift að nota flugöskusement við lægri hita. Þar með hefur hlutfall flugöskusementis aukist, og í dag er það notað í nærri 50% af allri steypu sem Steypustöðin framleiðir.
Þetta hefur leitt til þess að kolefnisspor steypunnar hefur lækkað um 8%, án þess að gæði eða styrkur hennar skerðist.
Auk þess er:
Innan BM Vallá er rekin rannsóknarstofa sem starfar samkvæmt vottuðu gæðakerfi (ISO 9001 frá árinu 1996). Virkt gæðaeftirlit er mikilvægur þáttur í að tryggja viðskiptavinum hágæðavörur sem uppfylla kröfur samtímans. Sem dæmi má nefna að umhverfisvottun Norræna Svansins er vinsæll valkostur hjá fasteignaþróunarfélögum, verktökum og öðrum viðskiptavinum sem leggja áherslu á að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum vegna byggingarframkvæmda. Steypugerðin Berglind Svan er viðurkennd til notkunar í Svansvottuðum byggingum.
Steypustöðin hefur innleitt kerfi byggt á sama gagnagrunni og EPD-yfirlýsingar, sem reiknar kolefnisspor (A1 til A4) fyrir hverja afhendingu. Með þessu geta viðskiptavinir fengið skýrslu um kolefnisspor steypunnar fyrir hvert verkefni.
Auk þess hóf Steypustöðin rafvæðingu steypuflotans árið 2023. Nú eru sex rafmagnssteypubílar og einn rafmagnsdráttarbíll í notkun hjá fyrirtækinu. Árið 2024 flutti Steypustöðin 20% af allri steypu á höfuðborgarsvæðinu með rafmagnsbílum á verkstað.
Annað tengt efni
Heimasíða Steinsteypufélags Íslands.
Tengiliður
Elín Þórólfsdóttir, HMS, elin.thorolfsdottir@hms.is