2.6. Stuðla að virku samtali meðal opinberra verkkaupa, veitufyrirtækja, sveitarfélaga og byggingaraðila um hvernig hægt sé að tryggja innviði á framkvæmdasvæðum frá upphafi framkvæmda

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Þannig þarf m.a. að tryggja rafmagn og vatn fyrir vinnuvélar og vinnubúðir. Þetta verður m.a. gert með viðburðum og smærri fundum. Einnig með sérstakri hvatningu til opinberra verkkaupa, veitufyrirtækja, sveitarfélaga og byggingaraðila um að þau skilgreini og innleiði sérstaka verkferla sem stuðla að þessari þróun. Þá ætlar Reykjavíkurborg að leita samstarfs við Veitur til að tryggja aðkomu Veitna að framkvæmdasvæðum fyrr í framkvæmdaferlum og skoða veitukerfi og eftir atvikum aðra innviði (þ.m.t. afkastagetu heimtauga), með það fyrir augum að greina til hvaða aðgerða þyrfti að grípa svo gera mætti framkvæmdaaðilum kleift að fullnægja orkuþörf sinni á framkvæmdasvæðum í Reykjavík með rafmagni eingöngu.

Markmið: Að stuðla að því að nauðsynlegir innviðir séu til staðar á framkvæmdasvæðum við upphaf verkefna, sem leiða til minni losunar.

Ábyrgð: Eftir atvikum HMS, Samband íslenskra sveitarfélaga, SI, Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir, Grænni byggð, Græna orkan, Reykjavíkurborg og orkufyrirtæki.

Tími: 2022-2023.

Staðan júní 2024

Aðgerð lokið.

Á árinu 2023 var sérstök orkuskiptanefnd fyrir vinnuvélar í byggingariðnaði mynduð innan Samtaka iðnaðarins, til að halda samtalinu gangandi og fylgjast með þróun mála.

Fundur var haldinn hjá Samtökum iðnaðarins þann 17. maí 2023 þar sem aðilar frá ábyrgðarstofnunum mættu og ræddu meðal annars verkferla, hvað þarf til og næstu skref.

FSRE hefur hafið samtal við hagaðila hjá veitufélögum og sveitarfélögum, í tengslum við þær áætlanir FSRE að takmarka losun á verkstöðum. Í þeim samtölum hefur komið fram að skortur er á innviðum fyrir rafdreifingu umfram afhendingu á rafmagni í gegnum núverandi dreifikerfi. Í smærri framkvæmdum má mögulega bregðast við þessari tímabundnu þörf með því að gera breytingar á búnaði í spennistöðvum en í stærri framkvæmdum með mikla aflþörf þyrfti að bregðast við með sérstakri uppbyggingu til að tryggja orkuöryggi. Skipuleggja þyrfti betur hvar þörfin á sérstakri uppbyggingu innviða væri mest á höfuðborgarsvæðinu. Undirbúningur og framkvæmd slíkrar uppbyggingar tekur það langan tíma að ekki er unnt að verða við einstaka óskum um aðgang að raforku. 

Unnið er að innviðaáætlun Reykjavíkurborgar. Þar er markmiðið er að stilla saman áætlanir borgarinnar við áætlanir lykilsamstarfsaðila á borð við Veitur, OR, Landsnet, Landsvirkjun, Faxaflóahafnir, Vegagerðina o.fl. til að tryggja samræmi og fyrirsjáanleika. Kortlagning og fundir með helstu hagaðilum innviðaáætlunar er í gangi. Unnið er að því að skilgreina hvaða breytur á þróunarsvæðum muni hafa áhrif á forgangsröðun og tímalínu. Til skoðunar er að innviðaáætlunin verði hluti af gagnvirku uppbyggingarkorti Reykjavíkurborgar.

Starfshópur um hröð orkuskipti í Reykjavík sem samanstendur af aðilum frá Reykjavík og b-hlutafyrirtækjum vinnur auk þess að skýrslu sem tekur stöðu á aðgerðum til að hraða orkuskiptum og kemur auk þess með tillögur að nýjum aðgerðum. Í skýrslunni er m.a. settur fókus á orkuskipti á stærri byggingarsvæðum. Skýrslan og aðgerðir hennar verða lagðar fyrir borgarráð í lok árs 2024.

Þann 15. Desember 2022 hélt Grænni Byggð morgunfund til að kynna verkefnið Nordic Sustainable Construction með áherslu á vinnupakka 4, Losunarlausir Verkstaðir. Í framhaldi af kynningunni hófust líflegar umræður þar sem sérstaklega var rætt þörf á tryggingu innviða á framkvæmdasvæðum frá upphafi framkvæmda. Þar kom m.a. fram að forsendan fyrir því að hægt sé að fara í orkuskipti á verkstað sé að rafmagns tenging sé til staðar á réttum tíma.

Uppfærð aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur nú verið kynnt til samráðs á Samráðsgátt. Aðgerðaáætlunin er uppfærsla eldri aðgerðaáætlunar sem fyrst var gefin út árið 2018 og síðan uppfærð árið 2020. Hún inniheldur 150 loftslagsaðgerðir og loftslagsverkefni sem endurspegla lausnir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinnar bindingar kolefnis. Af þeim tengjast sjö aðgerðir mannvirkjagerð en þær heyra allar undir flokkinn „S.2. Smærri iðnaður“ í aðgerðum sem beinast að samfélagslosun á beinni ábyrgð (ESR).

Meðal þessara sjö aðgerða er aðgerð S.2.A3 Kröfur og ábyrgð hleðsluinnviða á framkvæmdasvæðum í þéttbýli. Í lýsingu við aðgerðina segir að skýra þurfi ferla og auðvelda uppsetningu hleðsluinnviða á framkvæmdastað til að auðvelda orkuskipti. Markmið aðgerðarinnar er að greiða leið að orkuskiptum á framkvæmdasvæðum og er innviðaráðuneytið ábyrgðaraðili hennar.

Þess má geta að hinar sex aðgerðirnar sem tengjast mannvirkjagerð eru:

      • S.2.A1 Reynsluverkefni um losunarfría framkvæmd hjá Vegagerðinni

      • S.2.A2 Reynsluverkefni um losunarfría framkvæmd hjá FSRE

      • S.2.A4 Innleiðing innra kolefnisverðs opinberra framkvæmda

      • S.2.A5 Styðja við innleiðingu aðgerða í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030

      • S.2.B1 Ítarlegri skráning um orkugjafa og losun vinnuvéla

      • S.2.B2 Orkuskipti hreyfanlegra véla og tækjabúnaða

    Að lokum er vert að nefna Landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028, sem Alþingi samþykkti vorið 2024.

    Í aðgerðaáætluninni er að finna aðgerð 7 – Samspil skipulagsáætlana og orkuskipta, sem ætlað er að stuðla að hröðun orkuskipta. Þar er gengið út frá að „skipulagsáætlanir taki mið af innviðaáætlun um endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum sem unnin verði samhliða endurnýjun á aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Horft verði m.a. til gagnagrunna og kortasjár í umsjá Orkustofnunar sem hefur heildstætt yfirlit yfir stöðu hverju sinni og framtíðaráforma sem hafa umtalsverð áhrif á orkuskipti og orkuöryggi.“ Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fer með ábyrgð á aðgerðinni.

    Lokaafurð aðgerðar

    Lokaafurð aðgerðarinnar felst í virkara samtali meðal opinberra verkkaupa, veitufyrirtækja, sveitarfélaga og byggingaraðila um hvernig hægt sé að tryggja innviði á framkvæmdasvæðum frá upphafi framkvæmda. Það samtal endurspeglast í umfjölluninni hér að framan.

    Við endurmat á aðgerðum vegvísisins á árinu 2024 þarf að fylgja þessari aðgerð eftir, samhliða aðgerð S.2.A3 uppfærðri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og aðgerð 7 í aðgerðaáætlun með Landsskipulagsstefnu.

    Annað tengt efni

    Morgunfundur Grænni byggðar – losunarlausir verkstaðir

    Tengiliður

    Ástrós Steingrímsdóttir, astros@graennibyggd.is

    Sólveig Björk Ingimarsdóttir, solveig.bjork.ingimarsdottir@reykjavik.is

    Hulda Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og borgarþróunar, Reykjavíkurborg, hulda.hallgrimsdottir@reykjavik.is