Staðan nóvember 2024
Aðgerð lokið.
Frá árinu 2022 til 2024 vann hópur sérfræðinga að því að safna upplýsingum um raunnotkun hita, rafmagns og vatns í byggingum á Íslandi. Verkefnið var leitt af Birni Marteinssyni og Ágústi Pálssyni (HMS) í samstarfi við Orkustofnun og hafði það að markmiði að sannreyna reiknilíkan sem er lykilatriði í aðgerð 3.2. Samræma aðferðafræði við gerð orkuútreikninga mannvirkja og gefa út viðmið fyrir orkuflokka bygginga – Byggjum Grænni Framtíð.
Til að staðfesta áreiðanleika líkansins þurfti fyrst að safna raunnotkunargögnum frá fjölbreyttu íbúðarhúsnæði og bera þau saman við útreikninga reiknilíkansins. Íbúðarhúsnæði var skoðað á þessu stigi; frekari greiningar á atvinnuhúsnæði eru fyrirhugaðar síðar. Þar sem aðgengi að raunnotkunargögnum er oft takmarkað vegna persónuverndarsjónarmiða, var í mörgum tilfellum stuðst við gögn frá hópmeðlimum, fjölskyldum þeirra eða vinum.
Orkunotkun í íslenskum húsum hefur sýnt að ekki öll orka heita vatnsins nýtist. Í mörgum tilfellum er hitastig bakrásar hærra en þörf er á, sem þýðir að hitamunurinn á inn- og útstreymisvatni er ekki fullnýttur. Af þessum sökum hófst verkefnið á að skoða íbúðarhúsnæði með rafmagnskyndingu, þar sem minni orkusóun á sér stað og samanburður á reiknuðu og raunverulegu gildi verður einfaldari.
Fyrsta skrefið – Samanburður á Austurlandi
Til að hefja sannprófun reiknilíkansins var valið íbúðarhúsnæði á Austurlandi þar sem bæði húshitun og heitt neysluvatn eru rafhituð, sem gerir þessa byggingu sérstaklega hentuga til samanburðar. Reiknilíkanið, hannað af Birni, gaf niðurstöður sem voru mjög nálægt raunnotkun hússins á Austurlandi, sem staðfesti að líkanið gæti verið áreiðanlegt til að reikna orkunotkun með nægilegri nákvæmni fyrir viðmið.
Næsta skref – Úttekt á fjölbreyttari byggingum
Eftir þessa fyrstu jákvæðu niðurstöðu var næsta skref að útvíkka rannsóknina með úttekt á fleiri byggingum. Hópurinn safnaði raunnotkunargögnum frá fleiri íbúðarhúsum þar sem hópmeðlimir eða foreldrar þeirra búa. Þessir hópmeðlimir reiknuðu orkunotkun þessara bygginga með líkaninu, sem gaf hópnum tækifæri til að prófa áreiðanleika líkansins á fjölbreyttari byggingum.
Niðurstöður
Niðurstöður verkefnisins sýndu að reiknilíkanið stenst samanburð við raunnotkun ólíkra bygginga með ásættanlegum mismun og er því áreiðanlegt fyrir orkuútreikninga. Tekið skal fram að raunnotkun og reiknuð notkun munu aldrei vera nákvæmlega eins, þar sem ómögulegt er að taka allar forsendur með í reiknilíkan nema þar sem einhver sem þekkir allar forsendur býr í húsinu. Niðurstöðurnar staðfesta gildi líkansins sem trausts verkfæris fyrir orkuútreikninga og grundvöll fyrir aðgerð 3.2.
Styrkir og útgáfur
Í úthlutun Asks – mannvirkjarannsóknarsjóðs á árinu 2021 fékk Efla styrk fyrir verkefnið Orkunýting: Samanburður á hönnunarforsendum og mældri notkun. Niðurstöður þess verkefnis voru birtar í skýrslunni Orkunotkun í byggingum – Gögn um raunnotkun,, sem kom út í apríl 2023. Árið 2022 fékk Háskólinn í Reykjavík styrk úr Aski til verkefnisins Orkunotkun bygginga: Hönnuð nýtni og raunmælingar. Niðurstöður þess voru birtar í lokaverkefni Egils Kára, Greining á varmaorkunotkun bygginga á höfuðborgarsvæðinu, sem kom út í júní 2024.
Framhaldsverkefni – Aðgerð 3.2
Framhaldsverkefnið, 3.2. Samræma aðferðafræði við gerð orkuútreikninga mannvirkja og gefa út viðmið fyrir orkuflokka bygginga – Byggjum Grænni Framtíð, mun byggja á þessum gögnum og líkansniðurstöðum, ásamt gögnum frá báðum Asks-verkefnunum. Markmiðið er að dýpka þekkingu á orkunotkun í ólíkum byggingum og bæta yfirsýn yfir orkunotkun eftir byggingartegundum.
Meðlimir verkefnahópsins
- Björn Marteinsson
- Ágúst Pálsson, HMS
- Nanna Karólína Pétursdóttir, Verkís
- Alma Dagbjört Ívarsdóttir, Verkvist
- Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, HR
- Högni Hróarsson, Ferill
- Matthías Ásgeirsson, VSÓ
Fyrirtækið Eignaumsjón tekur þátt með því að leggja fram gögn og vinnu til verkefnisins.
Lokaafurð aðgerðar
Reiknilíkanið sem þróað var hefur sýnt nákvæmni í samanburði við raunnotkun íbúðarhúsnæðis. Þetta gerir það að áreiðanlegu verkfæri fyrir orkuútreikninga og staðfestir gildi þess fyrir næstu skref í þróun orkuútreikninga fyrir byggingar.
Gögn og niðurstöður þessa verkefnis verða nýttar í framhaldsverkefnið 3.2. Samræma aðferðafræði við gerð orkuútreikninga mannvirkja og gefa út viðmið fyrir orkuflokka bygginga – Byggjum Grænni Framtíð.
Annað tengt efni
Skýrsla Grænni byggðar frá 2019; Yfirlit yfir orkunotkun, orkuverð og orkukröfur til upphitunar í íslenskum byggingum.
Heimasíða Asks – mannvirkjarannsóknarsjóðs.
Heimasíða Orkuseturs.
Tengiliður
Elín Þórólfsdóttir, HMS, elin.thorolfsdottir@hms.is
Ágúst Pálsson, HMS, Agust.Palsson@hms.is