Staðan júní 2024
Aðgerð lokið.
LOKI er nýr kolefnisreiknir fyrir innviði sem Vegagerðin hefur látið þróa. Með reikninum er hægt að meta kolefnisspor framkvæmda með samræmdum og einföldum hætti. Hann er fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og því er um nokkur tímamót að ræða.
LOKI er skammstöfun fyrir; „lífsferilsgreining og kolefnisspor innviða“ en reiknirinn metur kolefnisspor innviðaframkvæmda á hönnunarstigi með lífsferilsgreiningu, eða kolefnisspor yfir líftíma mannvirkisins.
Kolefnisreiknirinn er þróaður af verkfræðistofunni EFLU fyrir Vegagerðina, í samstarfi við fleiri aðila, en hann er að norskri og danskri fyrirmynd. LOKI mun gera Vegagerðinni kleift að samræma gerð lífsferilsgreininga fyrir innviði og opnar fyrir þann möguleika að nýta kolefnisspor inn í valkostagreiningu. Hann mun einnig auðvelda val á efni og hönnun með tilliti til þess að draga úr kolefnisspori mannvirkisins.
LOKI er byggður upp í töflureikni. Þar eru magntölur úr hönnun settar upp í takt við verkþáttaskrá Vegagerðarinnar. Í reikninum eru losunarstuðlar sem endurspegla íslenskar aðstæður. Hægt er að aðlaga reikninn að viðfangsefninu og eftir því hvaða efni á að nota í framkvæmdirnar. Nákvæmni útreikninganna eykst eftir því sem nær dregur framkvæmd.
Fyrsta útgáfa LOKA nær yfir framleiðslu hráefna og flutning á verkstað, framkvæmdina sjálfa og stærra viðhald á líftíma mannvirkisins. LOKI mun svo á næstu árum þróast áfram til að ná yfir fleiri þætti og í takt við breytingar í stuðlum, orkugjöfum og hráefnum.
LOKI verður notaður fyrir verk á vegum Vegagerðarinnar en er jafnframt aðgengilegur öllum sem hann vilja nota. Það er von Vegagerðarinnar að hann nýtist öðrum framkvæmdaraðilum og verði þeim innblástur að sinni nálgun.
Þann 4. júní 2024 var haldinn hádegisfundur um nýja kolefnisreikninn.
Að lokum má geta þess að Vegagerðin mun taka þátt í nýju samnorrænu verkefni systurstofnana sinna á Norðurlöndum og Hollandi um hvernig kolefnishlutleysis markmiðum á framkvæmdasvæðum verði náð. Upphafsfundur verkefnis var í apríl 2023.
Lokaafurð aðgerðar
Losun framkvæmda Vegagerðarinnar verður metin með kolefnisreikni, LOKI.
Annað tengt efni
Linkur á frétt Vegagerðarinnar.
Heimasíða Vegagerðarinnar, umhverfismál.
Heimasíða Vegagerðarinnar, rannsóknir og þróun.
Tengiliður
Páll Valdimar Kolka Jónsson, verkefnastjóri, Vegagerðin, pall.v.k.jonsson@vegagerdin.is