5.2.1. Greina ávinning og kostnað umhverfisvottana: Reynsla hagsmunaaðila á vistvottunarkerfum og samanburður á losun vottaðra og óvottaðra mannvirkja

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Horft til árangurs á Íslandi til þessa, BREEAM, Svaninn og CEEQUAL og annarra kerfa. Greina ávinning við að nota kerfin, bæði hvað varðar kostnað, gæði og betri vinnubrögð og einnig mælanlegan samanburð t.d. í orkunotkun eða kolefnislosun til að tengja vottunarkerfin betur saman við losunarmarkmið. Greina hvaða hvatar eru til staðar sem hvetja til vottunar og hvaða hvötum þörf er á.

Markmið: Að kortleggja árangur og kostnað við vottunarkerfi. Að auka þekkingu á kostum og göllum kerfanna.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2021-2022.

Staðan ágúst 2023

Aðgerð í lokið. 

Verkefnið fékk styrk frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu í gegnum HMS og var unnið í breiðu samstarfi Grænni byggðar, HÍ, Eflu og Verkís.

Niðurstöður gefa til kynna að BREEAM vottun dregur ekki sjálfkrafa úr kolefnisspori bygginga; huga þarf sérstaklega að efnisvali með hliðsjón af umhverfisyfirlýsingum byggingarefna. Í vottunarkerfinu eru hins vegar mörg tól sem geta auðveldað verkkaupum að taka upplýstar ákvarðanir um hönnun og framkvæmd bygginga til að stuðla að minni losun.

Hagaðilar upplifa vistvottunarferlið almennt jákvætt, þeim þykir hlutverk þeirra mikilvægt út frá umhverfissjónarmiðum, að vottunin sé ákveðin
sjálfbærniumgjörð um vinnustað þeirra og að það stuðli að öguðum vinnubrögðum sem skili sér í betri byggingum. Hins vegar upplifa hagaðilar sig oft eina og tvístígandi í ferlinu og finnst að vinnan sé mikil og íþyngjandi. BREEAM-vottunin hlaut meiri gagnrýni en Svanurinn, og telja hagaðilar að handbókin sé löng og flókin. Ennfremur glíma margir hagaðilar við skort á góðu upplýsingaflæði og á stöðluðum aðferðum við gagnaskil.
 Þá töluðu verktakar um að í BREEAM verkefnum spöruðu þeir kostnað vegna orku- og vatnsnotkunar á framkvæmdastað og áttu von á að gæðastimpill BREEAM myndi væntanlega endurspeglast í endursöluverði. 

Nánari upplýsingar um niðurstöðurnar má sjá hér undir liðnum ,,Lokaafurð aðgerðar”.

Lokaafurð aðgerðar

Grænni byggð gaf út eftirfarandi skýrslur sem eru aðgengilegar á heimasíðu samtakanna:

1) Áhrif byggingarefna og orkunýtingar á kolefnisspor bygginga – Samanburður á kolefnisspori byggingarefna og orkunotkunar í BREEAM vottaðri og óvottaðri byggingu.

2) Reynsla hagaðila að vistvottunarkerfum – Viðtöl við byggingariðnaðinn.

Þá vinna Grænni byggð og Verkís að því að taka saman gögn úr líftímakostnaðargreiningum, og verða þær niðurstöður einnig aðgengilegar á
þessari sömu slóð.

Helstu niðurstöður verkefnanna tveggja voru eftirfarandi:

1) Samanburður á kolefnisspori byggingarefna og orkunotkunar í BREEAM vottaðri og óvottaðri byggingu:
Greiningin fólst í því að:
a) Skoða hvaða BREEAM kröfur geta mögulega lækkað kolefnisspor bygginga, 
b) bera kolefnisspor byggingar sem uppfyllir kröfur byggingareglugerðar saman við BREEAM byggingu (samkvæmt kröfum Ene 01 og Mat 01), og
c) bera byggingarefni með umhverfisyfirlýsingar saman við meðaltalstölur úr lífsferilsgreiningagögnum.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að bygging sem hefur orkunýtna upphitun með hliðsjón af BREEAM kröfu Ene01 dregur einungis lítillega úr kolefnisspori. Það stafar af því að losun vegna orkunotkunar er lág í íslensku samhengi og á móti kemur kolefnisspor vegna framleiðslu loftræstikerfis og viðhalds á því. Forsendurnar þar að baki gera ráð fyrir 25% lægri U-gildi þaks, veggja og botnplötu og 60% nýtni varmaskiptis.

Þær umhverfisyfirlýsingar sem valdar voru af handahófi með hliðsjón af BREEAM kröfu Mat 01 (skilyrði 5) lækkuðu lítillega kolefnisspor vegna byggingarefna en samanburðurinn á byggingarvörum með umhverfisyfirlýsingar sýnir að mikill munur er á losun frá mismunandi framleiðendum. 

Á heildina litið mætti ætla að aukin orkunýtni byggingar og val umhverfisyfirlýsingar af handahófi hafi ekki marktæk áhrif á kolefnisspor byggingar nema að hugað sé sérstaklega að losunarþættinum í efnisvali. 

Hafa skal í huga að tilgangur greiningarinnar var að meta losun gróðurhúsalofttegunda en önnur umhverfisáhrif fylgja einnig orkunotkun, til dæmis tap á líffræðilegum fjölbreytileika og landnotkun. Einnig skal hafa í huga að BREEAM vistvottunarkerfið fyrir nýbyggingar nær til margra ólíkra þátta sem geta aukið gæði bygginga á ýmsa vegu; lækkun kolefnisspors er ekki endilega það sem flestir verkkaupar hafa í forgangi þegar
þeir sækjast eftir vottun. Í BREEAM eru einnig mörg tól sem geta auðveldað verkkaupum að taka upplýstar ákvarðanir um hönnun og framkvæmd bygginga til að stuðla að minni losun.

2) Reynsla hagaðila að vistvonarkerfum

Vottunarferli BREEAM og Svansins voru greind út frá upplifun hagsmunaaðila og komu fjögur þemu í ljós: a) Þátttaka, b) Tími og samskipti, c) Gagnsæi og d) Gæðastimpill. 

Hagaðilar upplifa vistvottunarferlið almennt jákvætt að því leyti að þeim þykir hlutverk þeirra mikilvægt út frá umhverfissjónarmiði og að vottunin sé ákveðin sjálfbærniumgjörð um vinnustað þeirra. Vottunarkröfurnar stuðli einnig að öguðum vinnubrögðum sem skili sér í betri byggingum.

Hins vegar upplifa hagaðilar sig oft eina og tvístígandi í ferlinu og finnst að vinnan við vottunina sé hrein viðbót við byggingarframkvæmdina sjálfa. Þetta getur oft á tíðum verið íþyngjandi. 

BREEAM-vottunin hlaut mesta gagnrýni hjá hagaðilum og telja þeir að helsta áskorunin sé að komast í gegnum hundruðir blaðsíðna af flóknum tæknilegum hugtökum í handbókinni. Ennfremur glíma margir hagaðilar við skort á góðu upplýsingaflæði og á stöðluðum aðferðum við gagnaskil. 

Niðurstöður rannsóknarinnar undirstrika mikilvægi þess að efla sjálfbærnifræðslu meðal fagfólks í byggingariðnaði, koma á skýrum samskiptaleiðum fyrir hagsmunaaðila, staðla aðferðir við gagnaskil og þróa notendavænar handbækur.

Annað tengt efni

Tengiliður

Áróra Árnadóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar, arora@graennibyggd.is