5.2.5. Regluleg námskeið fyrir fagaðila um vottunarkerfi

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Haldin verði regluleg námskeið í samstarfi við menntastofnanir um vottunarkerfi, ávinning af þeim og niðurstöður rannsókna á þeim. Námskeiðin verði miðuð að verktökum, ráðgjöfum og framkvæmdaraðilum.

Markmið: Að auka þekkingu á vottunum.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.

Staðan nóvember 2023

Aðgerð lokið. 

Í framkvæmd tók aðgerðin aðeins til Svansins en sem dæmi önnur vottunarkerfi í byggingariðnaðinum má nefna BREEAM og LEED.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem var komið á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að
draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili
Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum.

Fjöldi umsókna fyrir Svansvottaðar byggingar hefur aukist á síðustu árum og því tækifæri að bjóða upp á námsefni tengdu vottunarkerfinu til
að styðja við og aðstoða umsækjendur í vottunarferlinu. 

Þegar vörur eða þjónusta eru vottaðar samkvæmt Svansviðmiðunum er allur lífsferillinn skoðaður. Umsækjandi þarf að uppfylla bæði skyldukröfur og valkröfur og taka kröfurnar á mismunandi atriðum eins og:

  • skaðlegum efnum í bygginga- og efnavöru,
  • innivist,
  • orkusparnaði,
  • lækkun kolefnisspors,
  • gæðastjórnun og
  • hringrásarhagkerfinu.

Vottunarferlið er umfangsmikið og krefst þess að mismunandi aðilar vinni saman bæði á hönnunar- og framkvæmdarferli.

Svanurinn gerir kröfu um að skipaður sé ábyrgðaraðili sem heldur utan um Svansvottunarferlið og er helsti tengiliður við Svaninn á Íslandi sem sér um vottunina. Sá aðili sér um verkefnastjórn ferlisins og þarf að vera vel kunnugur kröfum Svansins.

Lokaafurð aðgerðar

Lokaafurð aðgerðarinnar felst í  því að koma í fastan farveg námskeiðum fyrir umsækjendur Svansvottaðra bygginga og endurbóta. Nánar til tekið er miðað við að eitt námskeið verði haldið á hverri önn í samstarfi við Iðuna fræðslusetur en einnig er boðið upp á að halda námskeið fyrir sveitarfélögin.

Ástæða þótti til að útfæra námskeið sem fjallar um viðmið Svansins fyrir nýbyggingar (nr. 089, útgáfa 4) og var markmið þess að taka heildrænt á viðmiðum Svansins fyrir nýbyggingar þar sem bæði kröfurnar voru kynntar en einnig var farið ítarlega í það hvernig lesa ætti úr viðmiðaskjalinu og fleira.

Fyrsta námskeiðið var haldið í samstarfi við Iðuna fræðslusetur í nóvember 2022 en síðan þá hafa fjögur námskeið verið haldin í Reykjavík, eitt á Akureyri og eitt á Selfossi en öll námskeiðin hafa verið vel sótt.

Einnig hefur verið boðið uppá námskeið fyrir sveitarfélögin sem tengist einnig annarri aðgerð í vegvísinum 5.2.6 Fræðsla til sveitarfélaga um vottanir.

Upplýsingar um námskeið sem haldið er í samstarfi við Iðuna fræðslusetur má nálgast hér

Vert að nefna að stofnað hefur verið til tengslahóps um umhverfisvottanir mannvirkja á vegum Grænni byggðar.

Annað tengt efni

Ítarefni um Svansvottaðar byggingar.

Upptökur af fyrirlestrum um umhverfisvænar framkvæmdir, á Bransadögum Iðunnar fræðsluseturs, nóvember 2022.

Upptaka af fyrirlestri um umhverfisvænni framkvæmdir.

Námskeið fyrir iðnmeistara um Svansvottun á byggingarstað, hjá Iðunni fræðslusetri.

Tengiliður

G. Lilja Kristinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, gudrun.l.kristinsdottir@umhverfisstofnun.is