5.2.6. Fræðsla til sveitarfélaga um vottanir

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Upplýsingaátak til sveitarfélaga með fyrirlestrum og upplýsingaefni um vottanir og niðurstöður á rannsóknum um þær, sem hægt er að horfa til í framkvæmdum og við val á byggingarefnum.

Markmið: Að sveitarfélög þekki kosti vottanakerfa og hvar þau geta nýst í rekstri sveitarfélaga.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.

Staðan október 2024

Aðgerð lokið.

Um þessar mundir eru ráðandi vottunarkerfi í byggingariðnaðinum vistvottunarkerfið BREEAM og norræna umhverfismerkið Svanurinn, en einnig hefur borið á bandaríska vottunarkerfinu LEED. BREEAM er eitt elsta og þekktasta vistvottunarkerfið fyrir byggingar. BREEAM vottunarkerfið nær yfir árangursmat á hönnun, verktíma og rekstrartíma bygginga þar sem tekið er tillit til fjölmargra umhverfis-þátta, allt frá vistfræði til orkunýtni. BREEAM byggir á einkunnarskala þar sem gefnar eru frá einni upp í fimm stjörnur.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem var komið á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum, en viðmið Svansins fyrir nýbyggingar og endurbætur hefur verið þróaður fyrir íslenskar aðstæður. Til þess að vara eða þjónusta geti hlotið Svansvottun verður norræni Svanurinn að hafa mótað kröfur fyrir viðkomandi vöru- eða þjónustuflokk. Svanurinn er umhverfismerki af Týpu 1 samkvæmt ISO 14024 umhverfisvottunarstaðlinum og er einn af stofnmeðlimum Global Ecolabelling Network.

Undanfarin ár hefur Svanurinn haft reglulega samband við sveitarfélög landsins með mismiklum árangri. Árið 2019 voru átta sveitarfélög sem þáðu boð um kynningu og var aftur sent út boð til sveitarfélaga árið 2023 þar sem fleiri sveitarfélög bættust við og þáðu boðið og haldin voru námskeið fyrir stærri sveitarfélögin.

Ákveðið var að standa fyrir opnum fundi fyrir öll sveitarfélög landsins þann 1. október 2024 sem var tekinn upp og er aðgengilegur hér.
 
Í skipulagsferli viðburðarins var ákveðið að kynna einnig græna hvata sem í boði eru á landinu, sem er önnur aðgerð sem Samband íslenskra sveitarfélaga ber ábyrgð á, aðgerð 6.2 Efla umræður og fræðslu á samstarfsvettvangi sveitarfélaga um græna fjármögnunarmöguleika sveitarfélaga og hagræna hvata sem þau geta boðið upp á fyrir vistvæna mannvirkjagerð.
Á fundinn, sem haldinn var á teams, mættu tæplega 40 aðilar. Sendur var póstur á yfir 400 aðila frá öllum sveitarfélögum landsins en einnig fór auglýsing út í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á fundinum voru alls sjö erindi og var Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins fundarstjóri. Dagskrá fundarins var eftirfarandi: 
Opnun fundar: Fundarstjóri og Elín Þórólfsdóttir verkefnastjóri hjá HMS
Sveitarfélög og lofslagsmál: Arnar Þór Sævarsson framkvæmdarstjóri sambandsins
Svansvottaðar byggingar: Bergþóra Góa Kvaran sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
Hvernig hefur Reykjavíkurborg stuðlað að vistvænni mannvirkjagerð: Hulda Hallgrímsdóttir og Sólveig Björk Ingimarsdóttir, verkefnastjórar hjá Reykjavíkurborg
Grænar lánveitngar til fyrirtækja hjá Byggðastofnun: Hrund Pétursdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá Byggðastofnun
Grænar lánveitngar hjá Íslandsbanka: Rúnar Jónsson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka
Græn lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga: Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga.

Lokaafurð aðgerðar

Opinn fundur fyrir sveitarfélög um vottanir bygginga og græna hvata,  sem var haldinn 1. október 2024 var tekinn upp og sendur á öll sem fengu upphaflegan póst um viðburðinn ásamt því að upptakan er birt inni á www.svanurinn.is og aðgengilegur á vef Byggjum Grænni Framtíðar. Linkur á fundinn:  Opinn fundur fyrir sveitarfélög um vottanir bygginga og græna hvata (youtube.com)

Annað tengt efni

Frétt um afslætti á lóðaverði í Hafnarfirði ef umhverfisvottuð bygging er byggð.

Tengiliður

Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins, g.lilja.kristinsdottir@umhverfisstofnun.is