5.2.7. Fræðsla til birgja um mismunandi vottanir, ávinning þeirra og rétta markaðssetningu á vottuðum vörum

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Upplýsingaátak meðal birgja sem selja byggingarvörur til að auka þekkingu á mismunandi merkjum og þýðingu þeirra.

Markmið: Að birgjar geti stutt betur við sína viðskiptavini og gefið haldbærar upplýsingar um vottanir.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.

Staðan nóvember 2023

Aðgerð lokið.
 
Í framkvæmd tók aðgerðin einkum til Svansins, en fræðsla fór þó einnig fram um týpu 1 umhverfismerki eins og Bláa Engilinn og Evrópublómið. Sem dæmi um önnur vottunarkerfi í byggingariðnaðinum má nefna BREEAM og LEED.
 
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem komið var á fót af Norrænu ráðherranefndinni árið 1989. Meginmarkmið Svansins er að draga úr umhverfisáhrifum af vörum eða þjónustu og auðvelda neytendum að velja umhverfisvænni kosti. Á Íslandi er Umhverfisstofnun umsjónaraðili Svansvottunarinnar og vinnur náið með skrifstofum Svansins á öllum Norðurlöndunum.
 
Áhugi á Svansvottuðum byggingum hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og fjöldi umsókna hefur fjölgað hratt. Stór hluti af vottunarferlinu er að velja inn rétt byggingarefni og er því mikilvægt að söluaðilar þekki kerfið og kunni að miðla upplýsingum rétt.
 
Einn viðamesti kafli viðmiðanna þegar byggingar eru vottaðar snýr að byggingarvöruvali en allt byggingarefni og efnavörur, með nokkrum undantekningum, sem nota á í Svansvottuð hús þarf að vera umhverfisvottað eða samþykkt af Svaninum. Það er því lykilatriði að tryggja rétta miðlun upplýsinga hjá söluaðilum og innflytjendum sem snýr að umhverfisvottunum og byggja upp þekkingu á hver sé munurinn á vottuðum og samþykktum vörum svo dæmi sé nefnt.

Lokaafurð aðgerðar

Verkefnið á sér nokkra sögu þar sem Svanurinn á Íslandi hefur reglulega tekið fundi með mismunandi birgjum (svo sem Byko, Húsasmiðjunni, Tengi, Hegas og Álfaborg) og þá sérstaklega fyrir það starfsfólk sem sér um umhverfisstarf fyrirtækjanna.

Á þeim fundum hefur m.a. verið farið yfir efnissamþykktarferlið, mismunandi kröfur sem gerðar eru til mismunandi byggingarvara.

Haustið 2023 var stærstu söluaðilum byggingarvara boðin formleg kynning fyrir söluaðila. Kynningarefnið lagði sérstaka áherslu á að útskýra muninn á umhverfisvottuðum og samþykktum vörum, hvað þýðir áreiðanleg umhverfisvottun, hvaða vörur falla undir viðmið Svansins fyrir nýbyggingar og endurbætur o.fl.

Stefnt er að áframhaldandi kynningum sem miðast bæði að söluaðilum fyrirtækja en einnig þeim sem sjá um umhverfismál viðeigandi fyrirtækja. Markvisst verður unnið að því að bjóða kynningar hjá stærstu söluaðilunum en haldið verður áfram að bjóða upp á minni fundi fyrir minni fyrirtæki.

Vert að nefna að stofnað hefur verið til tengslahóps um umhverfisvottanir mannvirkja á vegum Grænni byggðar.

Annað tengt efni

Upptaka af fyrirlestri um umhverfisvænni framkvæmdir.


Vistbók; gagnabanki fyrir umhverfisvænar byggingarvörur.

Tengiliður
Bergþóra Kvaran, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, bergthora.kvaran@umhverfisstofnun.is