5.3.1. Samnýta fyrirliggjandi innviði til að draga úr þörf á mannvirkjagerð í Reykjavík

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Það verði gert með áherslum á:
15 mínútna hverfi: Í gegnum hverfisskipulag, þéttingu byggðar, endurnýjun hverfiskjarna og fjárfestingu verði lögð áhersla á að hverfi Reykjavíkurborgar verði gönguvænni og að tryggt verði aðgengi að grænum svæðum, útivist og þjónustu í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri.
Græna borgarþróun: Þróun borgarinnar verði öll innan skilgreindra vaxtarmarka hennar og 80% uppbyggingar íbúðahúsnæðis verði innan áhrifasvæðis Borgarlínu.

Markmið: Að draga úr losun vegna mannvirkja- og innviðagerðar. Að stuðla að grænum lífsstíl borgarbúa.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021 og áfram.

Staðan ágúst 2023

Aðgerð hafin.

Í Reykjavík eru 10 borgarhlutar og 30 hverfi og er áætlað að þau fá öll sitt hverfisskipulag. 

Nú þegar hafa sex hverfi í borgarhlutunum Árbæ og Breiðholti fengið hverfisskipulag. 

Hverfisskipulag fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Seláshverfi ásamt leiðbeiningum, tók gildi í nóvember 2019 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda. 

Hverfisskipulag fyrir Neðra-Breiðholt, Seljahverfi og Efra-Breiðholt, ásamt leiðbeiningum tók gildi 4. maí 2022 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.

Vinna stendur yfir við hverfisskipulag fyrir þrjú hverfi í Hlíðum. Þessi vinna er á lokametrunum og gert ráð fyrir að endanlegar tillögur verði kynntar á haustmánuðum 2023. Þá geta íbúar og aðrir hagsmunaaðilar gert athugasemdir við tillögurnar. Stefnt er að því að hverfiskipulag fyrir Háteigshverfi, Hlíðarhverfi og Öskjuhlíðarhverfi taki gildi á vormánuðum 2024.

Vinna við gerð hverfisskipulags fyrir fjögur hverfi í Háaleiti og Bústaðir er komin vel á veg og stefnt að því að lokatillögur verði kynntar í byrjun árs 2024.

Vinna við þrjú hverfi í Laugardal hófst í ársbyrjun 2022 og eru verklok áætluð í árslok 2024.

Stefnt er að því að hefja vinnu við hverfiskipulag fyrir Grundarhverfi á Kjalarnes í lok árs 2023 og ljúka vinnu 2024.

Hverfisskipulag fyrir fjögur hverfi í Grafarvogi er á dagskrá 2024 og áætluð verklok 2026.  

Áætlað er að hefja vinnu við hverfiskipulag fyrir öll hverfi í Vesturbæ árið 2024 með verklokum 2026.

 

Ekki hefur verið ákveðið hvort og hvenær verður farið í vinnu við hverfiskipulag í Grafarvogi og Miðborginni.

Helstu markmið hverfisskipulagsins eru að gróin hverfi í borginni verði sjálfbærari og vistvænni en áður, íbúðum fjölgi og þægilegra verði fyrir húseigendur að gera breytingar á fasteignum sínum. 

Lokaafurð aðgerðar

Lokaafurðir hverfiskipulags eru samræmdar hverfisskipulagsáætlanir fyrir öll hverfi borgarinnar. Meginmarkmiðið er að allar afurðir hverfiskipulags verði aðgengilegar á stafrænu formi í gegnum nýja hverfasjá. Hluti af afurðum hverfisskipulagsins eru skilmálar með fjölda leiðbeininga sem eiga að auðvelda íbúum, fasteignaeigendum og borgaryfirvöldum að ráðast í lagfæringar og breytingar til að gera hverfin vistvænni og heilsusamlegri.

 

Í gegnum hverfisskipulag, endurnýjun hverfiskjarna og fjárfestingu í innviðum verða hverfi borgarinnar orðin vistvænni, sjálfbærari og meira heilsueflandi. Hverfin verða gönguvænni og aðgengi að grænum svæðum, útivist og þjónustu tryggt í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri. Helstu markmið hverfisskipulagsins eru að gróin hverfi í borginni verði sjálfbærari og vistvænni en áður, íbúðum fjölgi og þægilegra verði fyrir húseigendur að gera breytingar á fasteignum sínum.

Annað tengt efni

Gönguvæn borg – 15 mínútna hverfi

Tengiliður

Hulda Hallgrímsdóttir, verkefnastjóri atvinnu- og borgarþróunar, Reykjavíkurborg, hulda.hallgrimsdottir@reykjavik.is