5.3.7 Líffræðilegur fjölbreytileiki í hinu byggða umhverfi

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í maí 2025:

Aðgerðin miðar að því að auka skilning á mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika í hinu byggða umhverfi. Í því felst fræðsla um hvernig kolefni er bundið, hvernig ýtt er undir líffræðilegan fjölbreytileika og hvernig vistkerfi geta stutt umhverfið. Mikil áhersla er lögð á vistkerfi sem styðja við umhverfið, mótvægisaðgerðir gegn röskun og endurheimt raskaðs lands. Auk þess verður fjallað um ofanvatnslausnir sem hluta af vistvænni uppbyggingu og sett skýr viðmið og leiðbeiningar um hlutfall náttúrulegrar jarðvegsþekju, plöntuvistkerfa og vistkerfislausna í byggingarframkvæmdum.

Einnig verður hugað að hlutverki sveitarfélaga í þessu samhengi, með áherslu á umbætur sem auka getu þeirra til eftirlits með landnotkun, verndun og endurheimt vistkerfa. Þannig verður skoðað hvernig þessar aðgerðir og leiðbeiningar geta stutt sveitarfélög við að framfylgja markmiðum um líffræðilegan fjölbreytileika í byggðum.

Markmið: Að stuðla að mælanlegum auknum líffræðilegum fjölbreytileika í byggðu umhverfi og draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda með markvissum, framkvæmalegum aðgerðum. Lögð verður áhersla á tengsl fræðslu, leiðbeininga og hagnýtra viðmiða við aðgerðir sem styðja við þetta markmið.

Ábyrgð: UOS, URN, Sambandið, HMS

Tími: 2025-2028

Lokaafurð: Aðgengilegar upplýsingar og fræðsluefni um líffræðilegan fjölbreytileika, kolefnisbindingu og áhrif jarðvegs á losun gróðurhúsalofttegunda, ásamt hagnýtum tillögum til framkvæmda og skipulags.

Leiðbeiningar og viðmið með áherslu á mælanlegt hlutfall náttúrulegrar jarðvegsþekju, gróður og vistkerfislausna sem hluta byggingarframkvæmda. Greining á áhrifum jarðvegs á kolefnislosun og -bindingu til að styðja við sjálfbært skipulag og framkvæmdir.

 Tengiliður:

Elín Þórólfsdóttir, HMS, elin.thorolfsdottir@hms.is