6.10. Koma á fót átaksverkefni um vistvæn skref innan byggingariðnaðarins

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Farið verði í átaksverkefni sem hvetur og aðstoðar fyrirtæki innan mannvirkjageirans til að taka vistvæn skref. Fyrirtæki sem taka þátt setji sér markmið og skuldbindi sig til að uppfylla ákveðinn fjölda af valkvæðum kröfum (t.d. innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfi, flokkun úrgangs á verkstað skv. lögum, notkun vistvænna vinnuvéla, mælingar á losun á framkvæmdasvæði o.s.frv.). Samhliða verði keyrð öflug fræðsluáætlun og stuðningur veittur fyrir árangursríka innleiðingu. Við þróun verkefnisins er til dæmis hægt að fá andagift frá World Green Building Council (The Net Zero Carbon Buildings Commitment), Danmörku (Frivillig bæredygtihedsklasse) og verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.

Markmið: Að efla meðvitund, þekkingu, metnað og samstöðu byggingargeirans um vistvæna mannvirkjagerð og styðja við fyrirtæki innan hans til að grípa til skilvirkra aðgerða.

Ábyrgð: Óljóst.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur hafinn.

Tími: 2022.

Staðan ágúst 2023

  • Laufið er stafrænn vettvangur þar sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja geta sameinast og hagnýtt sér fjölbreytt verkfæri í vegferð að sjálfbærari fyrirtækjarekstri, samfélagslegri ábyrgð og í baráttunni við loftslagsvánna. 
  • Nú er unnið að aðlögun vettvangsins fyrir byggingariðnaðinn með það að markmiði að auðvelda öllum hagaðilum að stíga skref í átt að umhverfisvænni mannvirkjagerð. 
  • Verkefnið fékk styrk úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði við úthlutun fyrir árið 2022.

Lokaafurð aðgerðar

Verkefnið felur í sér aðlögun á Grænum skrefum atvinnulífsins fyrir byggingariðnaðinn, bæði efnislega og í hugbúnaði. Verkefnið nær til fjölbreyttra fyrirtækja í
byggingariðnaði, byggingarvöruframleiðanda, söluaðila, hönnuða, verktaka og eigendur mannvirkjaframkvæmda og mannvirkja og nær því yfir mjög breitt umfang,
breiðara en margar umhverfisvottanir gera kröfur til. Markmiðið er að auðvelda öllum aðilum í byggingariðnaði að stíga skref í átt að umhverfisvænni mannvirkjagerð en samkvæmt Vegvísi í vistvænni mannvirkjagerð er skortur á hagnýtri þekkingu í málaflokknum.

Grænu skrefin í byggingariðnaði verða aðgengileg í hugbúnaði Laufsins ásamt þeim lausnum sem hugbúnaðurinn býður nú þegar upp á. Mikilvægt er að skrefin séu aðgengileg og að auðvelt sé að stíga þau og feta þannig veginn í átt að sjálfbærri mannvirkjagerð. Reynt hefur verið eftir bestu getu að hafa skrefin fjölbreytt, á mismunandi sviðum, á mismunandi erfiðleikastigi og á mannamáli.

 Annað tengt efni

Tengiliður

Vala Smáradóttir, verkefnastjóri verkefnisins hjá Laufinu, vala@laufid.is