Staðan ágúst 2023
Aðgerð hafin.
Verið er að byggja upp mannvirkjaskrá með markvissum hætti, þannig að mögulegt verði að þróa Handbók hússins í skrána. Þar á meðal er unnið að þróun viðmóts svo unnt verði að skila inn rafrænum hönnunargögnum þegar sótt er um byggingarleyfi. Samhliða er unnið að tillögum að breytingum á viðeigandi regluverki, í tengslum við heildarendurskoðun á byggingarreglugerð.
Lokaafurð aðgerðar
Lokaafurð aðgerðar felst í að breytingar verði gerðar á kafla 16.1 í byggingarreglugerð, og afleiddum ákvæðum, ásamt uppfærslu á leiðbeiningum með 16.1.1. gr. byggingarreglugerðar, sem verði á þá leið að handbók mannvirkis (stundum líka nefnd Handbók hússins) verði virkjuð og tryggt að hún geymi upplýsingar um hönnun, útreikninga, prófanir, efnisnotkun ásamt niðurstöðum orkuútreikninga og loftþéttileikaprófs. Samhliða verði opnað fyrir tæknilega lausn svo unnt sé að nota Handbók hússins í mannvirkjaskrá.
Eigendur þurfa að hafa greiðan aðgang að handbókinni yfir allan líftíma mannvirkis í gegnum mannvirkjaskrá , og að þeim sé gert auðvelt að skrá og uppfæra framkvæmdasögu (s.s. efnisval, umfang og framkvæmdaraðila) viðkomandi mannvirkis, m.t.t. viðhalds og endurbóta. Um leið þarf að gæta að því að handbókin verði ekki of flókin eða íþyngjandi.
Annað tengt efni
Mannvirkjaskrá er ætlað að veita áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð, tegundir húsnæðis, notkunarsvið, framvindu á framkvæmdartíma og stöðuna á húsnæðismarkaði. Mannvirkjaskrá geymir gögn um byggingar á Íslandi, byggingarhluta og eiginleika þeirra, ásamt byggingarleyfismálum og úttektum tengt þeim. Mannvirkjaskrá nýtir meðal annars gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum frá sveitarfélögum um byggingaleyfismál svo sem byggingarleyfisumsóknir, útgefin byggingarleyfi og stöðu þeirra.
Til staðar er fjöldi spennandi þróunartækifæra til að efla mannvirkjaskrá og rekjanleika mannvirkjagerðar til framtíðar, til dæmis varðandi móttöku rafrænna hönnunargagna, Handbók hússins og vistun mikilvægra upplýsinga á borð við orkunýtingu, vottanir, tjón, heimild niðurrifs og fleira sem gerist á líftíma mannvirkja.
Í lok árs 2022 var mælaborð fyrir íbúðir í byggingu formlega opnað, þar sem hægt er að nálgast samantekin gögn og talningar fyrir íbúðarhúsnæði úr Mannvirkjaskrá HMS. Í mælaborðinu eru birtar upplýsingar um íbúðir í byggingu, byggingaráform og fullbúnar íbúðir, eftir tegund húsnæðis, stærðarflokkun og framvindu. Sjá nánar Mælaborð íbúða í byggingu.
Tengiliður
Elín Þórólfsdóttir, HMS, Elin.Thorolfsdottir@hms.is