6.2. Efla umræður og fræðslu á samstarfsvettvangi sveitarfélaga um græna fjármögnunarmöguleika sveitarfélaga og hagræna hvata sem þau geta boðið upp á fyrir vistvæna mannvirkjagerð

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Sveitarfélög (sem aðilar með stjórnsýslu- og skipulagsvald og eigendur mannvirkja) hafa fjölda tækifæra til að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð með sérstökum hvötum. Flest sveitarfélaganna eru að taka sín fyrstu skref í þessu sambandi og því nauðsynlegt að skapa vettvang þar sem sveitarfélögin geta miðlað og deilt reynslu sinni og þekkingu, og um leið tekið við hugmyndum frá aðilum mannvirkjageirans.

Markmið: Að styrkja sveitarfélögin í uppbyggingu hvata fyrir vistvæna mannvirkjagerð með samtali.

Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga og SI.

Tími: 2022 og áfram.

Staðan ágúst 2023

Aðgerð lokið.

Samtök iðnaðarins hafa sent fjórum stærstu sveitarfélögum landsins minnisblöð með tillögum að úrbótum en þar eru þau m.a. hvött til að innleiða hagræna hvata fyrir vistvæna mannvirkjagerð, til dæmis með afslætti af lóðarverði. 

Haldinn var opinn fundur fyrir öll sveitarfélög landsins þann 1. október 2024 sem var tekinn upp og er aðgengilegur hér. Áherslur fundarins voru fræðsla til sveitarfélaga um vottanir bygginga og efla umræður og fræðslu á samstarfsvettvangi sveitarfélaga um græna fjármögnunarmöguleika sveitarfélaga og hagræna hvata sem þau geta boið upp á fyrir vistvæna mannvirkjagerð.

Á fundinn, sem haldinn var á teams, mættu tæplega 40 aðilar. Sendur var póstur á yfir 400 aðila frá öllum sveitarfélögum landsins en einnig fór auglýsing út í fréttabréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á fundinum voru alls sjö erindi og var Guðrún Lilja Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins fundarstjóri. Dagskrá fundarins var eftirfarandi: 
Opnun fundar: Fundarstjóri og Elín Þórólfsdóttir teymisstjóri hjá HMS
Sveitarfélög og lofslagsmál: Arnar Þór Sævarsson framkvæmdarstjóri sambandsins
Svansvottaðar byggingar: Bergþóra Góa Kvaran sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun
Hvernig hefur Reykjavíkurborg stuðlað að vistvænni mannvirkjagerð: Hulda Hallgrímsdóttir og Sólveig Björk Ingimarsdóttir, verkefnastjórar hjá Reykjavíkurborg
Grænar lánveitngar til fyrirtækja hjá Byggðastofnun: Hrund Pétursdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá Byggðastofnun
Grænar lánveitngar hjá Íslandsbanka: Rúnar Jónsson, viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka
Græn lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga: Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga.

Lokaafurð aðgerðar

Opinn fundur fyrir sveitarfélög um vottanir bygginga og græna hvata,  sem var haldinn 1. október 2024 var tekinn upp og sendur á öll sem fengu upphaflegan póst um viðburðinn ásamt því að upptakan er birt inni á www.svanurinn.is og aðgengilegur á vef Byggjum Grænni Framtíðar. Linkur á fundinn:  Opinn fundur fyrir sveitarfélög um vottanir bygginga og græna hvata (youtube.com)

Annað tengt efni

Á síðu Hafnarfjarðabæjar þar sem gjaldskrá bæjarins er birt segir: 

“Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á fundi sínum þann 29. maí 2019, að innleiða hvata til að hvetja framkvæmdaraðila til þess að fá Svansvottun, Breeam vottun eða sambærilegt á nýbyggingar, meðal annars í formi afsláttar af lóðarverði. Bæjarstjórn samþykkir að afsláttur af lóðarverði vegna Svansvottaðs húss verði 20%. Einnig er lagt til að byggingar með Breeam einkunn „Very good“ 55% fái 20% afslátt af lóðarverði og við Breeam einkunn „Excellent“ 70% verði afsláttur af lóðarverði 30%.

  • Við úthlutun lóðar greiðir lóðarhafi fullt lóðarverð
  • Hafi byggingaraðili fengið vottun um að mannvirkið fullbúið uppfylli skilyrði Svansvottunar, BREEAM einkunn „Very good“ 55% (final), BREEAM einkunn „Excellent“ 70% (final) eða sambærilegt, afhendir hann sveitarfélaginu vottun um slíkt frá viðurkenndum vottunaraðila.
  • Þegar lokaúttektarvottorð er gefið út fær lóðarhafi endurgreitt 20% eða 30% af lóðarverði samanber samþykkt bæjarstjórnar frá 29. maí 2019 á þeirri vísitölu er gildir við útgáfu lokaúttektarvottorðs.”

Tengiliðir

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, johanna@si.is
Gyða Einarsdóttir, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, gyda.einarsdottir@samband.is