- Árleg losun íslenskra bygginga er um 360 þúsund tonn CO2íg.
- 45% af kolefnissporinu stafa frá byggingarefnum, einkum steypu.
- 30% af kolefnissporinu myndast vegna rafmagns og kyndingar á notkunartíma bygginganna.
- Innbyggt kolefni heildarbyggingarmassans á Íslandi er um 12.700.000 tonn CO2íg.
Þetta eru helstu niðurstöður hóps 6 í Byggjum grænni framtíð, sem mat losun íslenskra bygginga á viðmiðunarári. Niðurstöðurnar hafa nú verið birtar í sérstakri skýrslu sem kom út í dag; Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030. I. hluti: Mat á kolefnislosun frá íslenskum byggingariðnaði.
Almennt er miðað við að mannvirkjageirinn beri ábyrgð á um 30-40% af losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Upplýsingar um losun íslenska mannvirkjageirans hafa hins vegar verið takmarkaðar hingað til. Nánast eini þátturinn í íslenskri mannvirkjagerð sem fellur undir beinar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum er losun frá vinnuvélum á byggingarsvæðum. Árið 2014 var miðað við að sú losun væri um 3% af heildarlosun Íslands. Ljóst er að það er þó aðeins lítill hluti af þeirri heildarlosun sem stafar frá íslenskum byggingum; losun á sér ekki síður stað á öðrum lífsskeiðum þeirra.
Við hið nýja losunarmat íslenskra bygginga var þvi m.a. tekið tillit til losunar frá erlendri framleiðslu byggingarefna, losunar frá vinnuvélum byggingarsvæðum og losunar vegna rafmagns og kyndingar á notkunartíma bygginga.
Er þetta í fyrsta sinn sem árleg losun íslenskra bygginga er metin með heildrænum hætti og óháð því hvar hún á sér stað. Eins og sjá má á myndinni bera byggingarefnin (einkum steypa) ábyrgð á 45% af kolefnisspori íslenskra bygginga, 13% af heildarlosuninni koma frá flutningi byggingarefna á verkstað og vinnuvélum á verkstað, 12% stafa frá viðhaldi og loks 30% frá orkunotkun í rekstri bygginga, sem jafnan er stærsti losunarvaldurinn víða erlendis.
Innbyggt kolefni heildarbyggingarmassans á Íslandi var einnig áætlað og er það u.þ.b. 12.700.000 tonn CO2íg. Til samanburðar þá var heildarlosun Íslands árið 2019 með landnotkun og skógrækt um 13.800.000 tonn CO2íg. Hið mikla magn innbyggðs kolefnis í íslenskum byggingum undirstrikar til hve mikils er að vinna með því að innleiða hringrásarhagkerfið og draga úr auðlindanotkun og úrgangsmyndun með aukinni áherslu á endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu.
Mat á kolefnislosun íslenskra bygginga er liður í samstarfsverkefninu Byggjum grænni framtíð. Á grundvelli þessara niðurstaðna geta mannvirkjageirinn og stjórnvöld sett sameiginleg markmið um samdrátt í losun frá íslenskum mannvirkjum og skilgreint aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Vinna við það er þegar hafin og tíðinda að vænta í þeim efnum í mars 2022.