3.3. Setja kröfu í byggingarreglugerð um gerð orkuútreikninga nýbygginga

Krafa um orkuútreikninga nýbygginga innleidd í byggingarreglugerð. Byggir á aðgerðum 3.1. og 3.2. Lagt er til að aðgerðin verði innleidd með þrepaskiptingu og aðlögunartíma.

Markmið: Að unnt verði að nýta niðurstöður orkuútreikninga til að aðlaga hönnunina þannig að orkunotkun bygginga minnkar og þar með losun vegna hennar.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2025.

3.2. Samræma aðferðafræði við gerð orkuútreikninga mannvirkja og gefa út viðmið fyrir orkuflokka bygginga

Skilgreind verði aðferðarfræði fyrir orkuútreikninga mannvirkja. Þar verði sett fram viðmið fyrir orkuflokka bygginga fyrir íslenskar aðstæður. Hægt væri að nota sambærilega flokkun og finna má í EPBD-tilskipun Evrópusambandsins. Lagt er til að viðmið um ásættanlega orkunotkun bygginga fari lækkandi milli ára með því markmiði að árið 2030 sé orkunotkun allra nýbygginga orðin 40% lægri en orkunotkun sambærilegra bygginga frá árinu 2020. Í viðauka verði einnig sett fram kolefnisspor ýmissa orkugjafa. Staðlaráð Íslands tekur þátt í umræðu um hvort úrlausn aðgerðarinnar passi inn í mögulega staðlagerð. Þegar þetta er ritað er verið að skoða hvort gera eigi staðla um lágorkuhús, sem nýst getur í þessu sambandi.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með lækkandi viðmiðum um ásættanlega orkunotkun.

Ábyrgð: Óljóst að svo stöddu.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur á aðgerð hafinn.

Tími: 2022-2024.

3.1. Afla upplýsinga um raunnotkun hita, rafmagns og vatns á Íslandi

Safnað verði upplýsingum um hitanotkun, rafmagnsnotkun og vatnsnotkun bygginga á Íslandi og settur á fót gagnagrunnur sem er aðgengilegur einstaklingum og fagaðilum til samanburðar og fyrir útreikninga á orkunotkun og orkuviðmiði.

Markmið: Að grunnástand á Íslandi sé þekkt svo vinna megi viðmið og staðla um orkuútreikninga. Að fylgjast með þróun í orkunotkun milli ára.

Ábyrgð: Óljóst að svo stöddu.

Tími: 2022-2023.