5.2.4. Greina hvernig unnt sé að fjölga umhverfisvottuðum mannvirkjaframkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar

Aðgerðir um vistvæn mannvirki í loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025 og í Græna planinu gera ráð fyrir auknum kröfum um umhverfisvottaðar nýbyggingar í eigu borgarinnar og viðhaldi þeirra. Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verður falið að skoða hvernig fjölga megi umhverfisvottuðum mannvirkjaframkvæmdum á vegum borgarinnar, í samstarfi við Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Markmið: Að fjölga umhverfisvottuðum nýbyggingum og viðhaldsframkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg.

Tími: 2022-2023.

5.2.3. Umhverfisvottaðar byggingar skráðar í Mannvirkjaskrá HMS

Í uppbyggingu Mannvirkjaskrár HMS verður gert ráð fyrir því að skráð verði sérstaklega ef bygging er umhverfisvottuð og hvers konar vottun um er að ræða.

Markmið:Að fá yfirsýn yfir hvaða byggingar eru umhverfisvottaðar, fjölda þeirra á hverjum tíma og hvernig þróuninni er háttað.

Ábyrgð: HMS.

Tími: 2022-2023.

5.2.2. Gera leiðbeiningar um Svansvottunarviðmið fyrir nýbyggingar og endurbætur bygginga

Gerðar leiðbeiningar þar sem helstu atriði sem snúa að vottuninni verða tekin saman. Farið verður m.a. yfir kröfur viðmiðanna, hvernig skila á af sér gögnum, hvaða sérfræðiþekking þarf að vera til staðar til að fara í gegnum viðmiðin, efnissamþykktir, muninn á vottuðum byggingarvörum og samþykktum byggingarvörum, hlutverk ábyrgðaraðila, verktaka, hönnuða o.s.frv.

Markmið: Að aðstoða aðila við að fara í gegnum Svansvottunarferlið og veita innsýn og ákveðna grunnþekkingu inn í ferlið.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun.

Tími: 2022.

5.2.1. Greina ávinning og kostnað umhverfisvottana: Reynsla hagsmunaaðila á vistvottunarkerfum og samanburður á losun vottaðra og óvottaðra mannvirkja

Horft til árangurs á Íslandi til þessa, BREEAM, Svaninn og CEEQUAL og annarra kerfa. Greina ávinning við að nota kerfin, bæði hvað varðar kostnað, gæði og betri vinnubrögð og einnig mælanlegan samanburð t.d. í orkunotkun eða kolefnislosun til að tengja vottunarkerfin betur saman við losunarmarkmið. Greina hvaða hvatar eru til staðar sem hvetja til vottunar og hvaða hvötum þörf er á.

Markmið: Að kortleggja árangur og kostnað við vottunarkerfi. Að auka þekkingu á kostum og göllum kerfanna.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2021-2022.

5.1.12. Uppfæra og lækka gunnviðmið fyrir kolefnisspor allra verkefna

Reikna út og uppfæra grunnviðmið fyrir kolefnisspor ólíkra mannvirkjaflokka og verkefna; bæði fyrir opinber verkefni og á almennum markaði. Byggt meðal annars á gagnagreiningu frá aðgerðum 5.1.10. og 5.1.11.

Markmið: Að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að mannvirkjageirinn taki virkan þátt í samdrætti á losun. Að auka aðhald varðandi losun. Að losunarviðmið haldist í hendur við framfarir og aðgengi á almennum markaði varðandi loftslagsvænar lausnir.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2030.

5.1.11. Krafa gerð um að kolefnisspor almennra verkefna sé 30% lægra en grunnviðmið

Aðgerðin byggir á að innleiða kröfu um að útreiknuð losun skv. lífsferilsgreiningu, í skilgreindum mannvirkjaflokkum/verkefnum á almennum markaði, verði 30% lægri en grunnviðmið skilgreind í aðgerð 5.1.8.

Markmið: Að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að mannvirkjageirinn taki virkan þátt í samdrætti á losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2028.

5.1.10. Krafa gerð um að kolefnisspor opinberra verkefna sé 30% lægra en grunnviðmið

Aðgerðin byggir á að innleiða kröfu um að útreiknuð losun skv. lífsferilsgreiningu, í skilgreindum mannvirkjaflokkum/verkefnum hjá hinu opinbera, verði 30% lægri en grunnviðmið skilgreind í aðgerð 5.1.8.

Markmið: Að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að mannvirkjageirinn taki virkan þátt í samdrætti á losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2027.

5.1.9. Innleiða skilyrði fyrir útreikninga á kolefnisspori mannvirkja á almennum markaði

Innleitt verði ákvæði í byggingarlöggjöf sem setur skilyrði um útreikninga á kolefnislosun með lífsferilsgreiningu, í tilteknum mannvirkjaflokkum/verkefnum á almennum markaði.
Greinargerð með útreikningum um fyrirhugað kolefnisspor fylgi aðaluppdráttum við umsókn byggingarleyfa og uppfærð greining við lokaúttekt.

Markmið: Að auka þekkingu á losun frá mannvirkjaframkvæmdum. Að auka almennt aðhald varðandi losun og auðvelda markmiðasetningu varðandi samdrátt í losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2025.

5.1.8. Uppfæra grunnviðmið fyrir kolefnisspor mismunandi mannvirkjaflokka

Viðmiðin verði byggð á uppfærðri gagnagreiningu frá aðgerðum 5.1.5. og 5.1.6. og öðrum aðgengilegum lífsferilsgreiningum á mannvirkjum á Íslandi.

Markmið: Að auðvelda markmiðasetningu um samdrátt í losun og innleiðingu á kröfum um markvissan samdrátt í losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2025.

5.1.7. Skilgreina kolefnishlutlausa byggingu fyrir íslenskar aðstæður

Skilgreining á kolefnishlutlausri byggingu (e. zero emission building) ætti að byggjast á aðlögun á erlendum skilgreiningum fyrir íslenskar aðstæður, lífsferilsgreiningum og stöðluðum aðferðum til kolefnisjöfnunar.

Markmið: Að aðlaga erlendar skilgreiningar að íslenskum aðstæðum. Að setja fram hvetjandi leið fyrir vistvæna mannvirkjagerð.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2023.