3.10. Setja kröfu í byggingarreglugerð um orkunýtni nýbygginga

Byggt verði á reynslu og þekkingu sem myndast hefur við samræmda orkuútreikninga, þau orkuviðmið sem sett hafa verið fram og rannsóknum á umræddu sviði.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með kröfu um orkunýtni nýbygginga.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2028.

3.9. Rannsaka möguleikana á að setja kröfu um uppsetningu stýrðra loftræstikerfa með varmaendurvinnslu í ákveðnum flokkum nýbygginga

Mikið orkutap á sér stað þegar ekki er til staðar stýrð loftræsting. Lagt er til að skoðað verði hvort setja eigi ákvæði í byggingarreglugerð um að loftræstikerfi í ákveðnum flokkum nýbygginga skuli hannað, gert, rekið og viðhaldið þannig að það uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur um orkunýtni og loftgæði. Ítarleg vinna við skilgreiningu á lágmarkskröfum þarf að fara fram, m.a. kostnaðar- og ábatagreining. Hægt væri að herða kröfurnar með árunum, og um leið skoða möguleika á hagrænum hvötum. Lagt er til að breytingarnar verði gerðar sem fyrst en gefinn ákveðinn tími til aðlögunar. Í framhaldinu mætti skoða möguleikana á uppsetningu stýrðra loftræstikerfa með varmaendurvinnslu í eldri byggingum.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með notkun varmaendurvinnslu í loftræstikerfum. Að draga úr áhættu á loftgæða- og rakavandamálum yfir líftíma byggingar.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2022-2024.

3.8. Samræma aðferðir við varma- og rakaflæðisútreikninga

Virkja þarf betur ákvæði 4.5.3. gr. í byggingarreglugerð og viðeigandi leiðbeiningum, um skil á greinargerð um einangrun og raka í gegnum byggingarleyfi og lokaúttekt, með því að koma á samræmdum aðferðum við varma- og rakaflæðisútreikninga. Í samstarfi viðeigandi hagaðila verði samræmd aðferðarfræði skilgreind þar sem sett verða fram viðmið bygginga fyrir íslenskar aðstæður. Lagt er til að viðmiðin verði hert jafnt og þétt til framtíðar.

Markmið: Að minnka orkusóun. Að lengja líftíma mannvirkja með því að draga úr áhættu á loftgæða- og rakavandamálum yfir líftíma þeirra.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2022-2024.

3.7. Rannsaka hvort og hvernig bæta megi orkunýtingu eldri bygginga, þannig að það leiði til umhverfislegs og jafnvel fjárhagslegs ávinnings til lengri tíma

Upplýsingar benda til að hægt sé að bæta orkunotkun eldri bygginga. Hins vegar er óljóst hvort slíkar aðgerðir borgi sig til lengri tíma í umhverfislegu tilliti.

Markmið: Að kanna hvort og hvernig unnt sé að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar í eldri byggingum.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2022-2024.

3.6. Gera leiðbeininga um hönnun hita-, kæli- og loftræstikerfa

Leiðbeiningarnar miði við að hita-, kæli- og loftræstikerfi bygginga skuli vera hönnuð og gerð með því markmiði að hámarka orkunýtni án þess að ganga á gæði innivistar. Unnið í samstarfi við viðeigandi hagaðila.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með því að hámarka orkunýtni án þess að ganga á gæði innivistar.

Ábyrgð: HMS.

Tími: 2022-2023.

3.5. Virkja kröfu í byggingarreglugerð um loftþéttleikapróf nýbygginga

Í byggingarreglugerð er gerð krafa um ákveðinn loftþéttleika bygginga. Kröfuna þarf að virkja, til dæmis með því að byggingar verði valdar handahófskennt í úttektarferli bygginga til að fara í gegnum loftþéttleikapróf. Þetta stuðlar að því að hönnuðir séu meðvitaðir um að bygging geti farið í loftþéttileikapróf. Skilgreina þarf nánar hvaða tegundir bygginga skuli fara í loftþéttleikapróf og hvenær endurgerðir og breytingar á byggingum skuli fara í slík próf.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með því að draga úr loftleka í nýbyggingum og auka orkunýtni bygginga.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2022-2023.

3.4. Fræðsla um orkusparnað í byggingum

Fræðsluátak um orkusparnað í byggingum. Gerðar verði leiðbeiningar með upplýsingum og fræðslu um orkusparandi búnað og stýringar, umgengni við hita- og rafmagnskerfi húsa, nýtingu dagsbirtu og framkvæmd viðhalds og þjónustu sem notendur, rekstraraðilar og ráðgjafar geta nýtt sér. Á endanum snýst orkunotkun á líftíma bygginga fyrst og fremst um hegðun notandans. Því er rétt að tryggja að hann hafi þær upplýsingar sem bestar eru varðandi persónulega lágmörkun á orkunotkun.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með aukinni þekkingu og bættri umgengni notenda og fagaðila.

Ábyrgð: Óljóst að svo stöddu.

Tími: 2023-2025.

3.3. Setja kröfu í byggingarreglugerð um gerð orkuútreikninga nýbygginga

Krafa um orkuútreikninga nýbygginga innleidd í byggingarreglugerð. Byggir á aðgerðum 3.1. og 3.2. Lagt er til að aðgerðin verði innleidd með þrepaskiptingu og aðlögunartíma.

Markmið: Að unnt verði að nýta niðurstöður orkuútreikninga til að aðlaga hönnunina þannig að orkunotkun bygginga minnkar og þar með losun vegna hennar.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2025.

3.2. Samræma aðferðafræði við gerð orkuútreikninga mannvirkja og gefa út viðmið fyrir orkuflokka bygginga

Skilgreind verði aðferðarfræði fyrir orkuútreikninga mannvirkja. Þar verði sett fram viðmið fyrir orkuflokka bygginga fyrir íslenskar aðstæður. Hægt væri að nota sambærilega flokkun og finna má í EPBD-tilskipun Evrópusambandsins. Lagt er til að viðmið um ásættanlega orkunotkun bygginga fari lækkandi milli ára með því markmiði að árið 2030 sé orkunotkun allra nýbygginga orðin 40% lægri en orkunotkun sambærilegra bygginga frá árinu 2020. Í viðauka verði einnig sett fram kolefnisspor ýmissa orkugjafa. Staðlaráð Íslands tekur þátt í umræðu um hvort úrlausn aðgerðarinnar passi inn í mögulega staðlagerð. Þegar þetta er ritað er verið að skoða hvort gera eigi staðla um lágorkuhús, sem nýst getur í þessu sambandi.

Markmið: Að draga úr orkunotkun og losun vegna hennar, með lækkandi viðmiðum um ásættanlega orkunotkun.

Ábyrgð: Óljóst að svo stöddu.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur á aðgerð hafinn.

Tími: 2022-2024.

3.1. Afla upplýsinga um raunnotkun hita, rafmagns og vatns á Íslandi

Safnað verði upplýsingum um hitanotkun, rafmagnsnotkun og vatnsnotkun bygginga á Íslandi og settur á fót gagnagrunnur sem er aðgengilegur einstaklingum og fagaðilum til samanburðar og fyrir útreikninga á orkunotkun og orkuviðmiði.

Markmið: Að grunnástand á Íslandi sé þekkt svo vinna megi viðmið og staðla um orkuútreikninga. Að fylgjast með þróun í orkunotkun milli ára.

Ábyrgð: Óljóst að svo stöddu.

Tími: 2022-2023.