2.8. Kanna hvort og hvenær eigi að hætta nýskráningum vinnuvéla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti

Um leið verði kannaðir möguleikar á undanþágum í sérstökum tilfellum. Hægt væri að byrja á smærri vinnuvélum, sem eru komnar lengra í orkuskiptum en þær stærri.

Markmið: Að mikilvæg varða í orkuskiptum vinnuvéla verði skoðuð og mögulega skilgreind og gerð sýnileg með góðum fyrirvara, til upplýsingar og hvatningar fyrir alla hagaðila.

Ábyrgð: Lagt er til að það verði viðeigandi stjórnvöld þegar þar að kemur.

Tími: Fyrir 2027.

2.7. Finna fordæmisgefandi verkefni á Íslandi þar sem komið er í veg fyrir kolefnislosun á framkvæmdasvæði og leiðbeiningar gerðar á grundvelli þess

Þetta gæti til dæmis verið verkefni á vegum ríkis, sveitarfélags eða orkufyrirtækis. Reynslan af framkvæmd verkefnisins þarf síðan að vera nýtt til að gera leiðbeiningar eða vegvísi að kolefnislausu framkvæmdasvæði, samanber norsku skýrsluna Uslippefrie byggeplasser – State of the art.

Markmið: Að sýna fram á að það er hægt að koma í veg fyrir kolefnislosun á framkvæmdasvæði á Íslandi. Við það skapast mikilvæg reynsla, aukin trú og hvatning fyrir orkuskipti á framkvæmdasvæði. Að skilgreina og deila lausnum fyrir kolefnislaus framkvæmdasvæði, sem hægt er að byggja á til framtíðar.

Ábyrgð: HMS og Grænni byggð leita eftir aðila sem er tilbúinn til að fara í slíkt verkefni.

Tími: Fyrir 2025.

2.6. Stuðla að virku samtali meðal opinberra verkkaupa, veitufyrirtækja, sveitarfélaga og byggingaraðila um hvernig hægt sé að tryggja innviði á framkvæmdasvæðum frá upphafi framkvæmda

Þannig þarf m.a. að tryggja rafmagn og vatn fyrir vinnuvélar og vinnubúðir. Þetta verður m.a. gert með viðburðum og smærri fundum. Einnig með sérstakri hvatningu til opinberra verkkaupa, veitufyrirtækja, sveitarfélaga og byggingaraðila um að þau skilgreini og innleiði sérstaka verkferla sem stuðla að þessari þróun.
Þá ætlar Reykjavíkurborg að leita samstarfs við Veitur til að tryggja aðkomu Veitna að framkvæmdasvæðum fyrr í framkvæmdaferlum og skoða veitukerfi og eftir atvikum aðra innviði (þ.m.t. afkastagetu heimtauga), með það fyrir augum að greina til hvaða aðgerða þyrfti að grípa svo gera mætti framkvæmdaaðilum kleift að fullnægja orkuþörf sinni á framkvæmdasvæðum í Reykjavík með rafmagni eingöngu.

Markmið: Að stuðla að því að nauðsynlegir innviðir séu til staðar á framkvæmdasvæðum við upphaf verkefna, sem leiða til minni losunar.

Ábyrgð: Eftir atvikum HMS, Samband íslenskra sveitarfélaga, SI, Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir, Grænni byggð, Græna orkan, Reykjavíkurborg og orkufyrirtæki.

Tími: 2022-2023.

2.5. Skilgreina lykilhugtök sem varða umhverfisáhrif frá framkvæmdasvæðum

Hvað er til dæmis átt við með „framkvæmdasvæði“, „losunarfríu framkvæmdasvæði“, „kolefnislausu framkvæmdasvæði“? Unnið í tengslum við norræna samstarfsverkefnið Nordic Sustainable Construction .

Markmið: Að ná sameiginlegum skilningi á lykilhugtökum sem varða umhverfisáhrif frá framkvæmdasvæðum mannvirkjagerðar, sem er grundvöllur fyrir frekari mælingar og þekkingaröflun í málaflokknum.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti, HMS og Grænni byggð.

Tími: 2022-2023.

2.4. Greina hvernig Reykjavíkurborg getur umbunað framkvæmdaaðilum fyrir að nýta vistvæna orkugjafa á framkvæmdasvæðum

Gerð hafa verið drög að líkani að umbun í útboðum og felst aðgerðin í því að skoða nánar hvort og hvernig megi útfæra og framkvæma slíkt úrræði. Í þessari greiningarvinnu felst einnig að kanna fýsileika þess að útfæra tilraunaverkefni um kolefnislaust framkvæmdasvæði.

Markmið: Að stuðla að minni kolefnislosun á framkvæmdasvæði í gegnum útboð.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg.

Tími: 2022-2023.

2.3. Koma á samtali milli vetnis- og rafeldsneytisframleiðenda, vinnuvélaeigenda og fleiri um orkuskipti á vinnuvélum

Skoða þarf hvort og hvernig væri unnt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis vinnuvéla í byggingariðnaði með því nýta innlenda vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu.

Markmið: Að greina tækifæri til orkuskipta á vinnuvélum í byggingariðnaði með vetnis- og rafeldsneyti.

Ábyrgð: SI.

Tími: 2022.

2.2. Afla aukinna upplýsinga um samsetningu, orkugjafa og losun vinnuvéla byggingariðnaðarins við nýskráningar á vinnuvélum, afskráningar þeirra og árlegar skoðanir

Lagt er til að við nýskráningar vinnuvéla hjá Vinnueftirlitinu verði byrjað að safna upplýsingum um orkugjafa vinnuvéla og áætlaðri eyðslu þeirra, eftir tegundum véla. Unnið verður að því að styrkja heimildir Vinnueftirlitsins til þess að kalla eftir upplýsingum, til dæmis um vinnustundir vinnuvéla. Umræddar upplýsingar verði síðan sendar reglulega til Orkustofnunar.

Markmið: Að fá yfirsýn yfir samsetningu á nýskráðum vinnuvélum m.t.t. orkugjafa og losunar á hverjum tíma og fylgjast með þeirri þróun með markvissum hætti. Að afla betri gagna sem nýtast við uppfærslu á eldsneytisspá Orkustofnunar og áætlun um orkuskipti á vinnuvélum.

Ábyrgð: Vinnueftirlitið og Orkustofnun.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur hafinn.

Tími: 2022.

2.1. Greina samsetningu vinnuvélaflota byggingariðnaðarins og uppfæra eldsneytisspá m.t.t. hennar

Lagt er til að Vinnueftirlitið geri greiningu á samsetningu vinnuvélaflotans á framkvæmdasvæðum miðað við árið 2021 m.a. með tilliti til tegunda véla, eldsneytisgerðar og aldurs. Sú greining verði síðan nýtt hjá Orkustofnun til að uppfæra eldsneytisspá og áætlun um orkuskipti á vinnuvélum.

Markmið: Að fá yfirsýn yfir samsetningu vinnuvélaflota byggingariðnaðarins m.t.t. orkugjafa og losunar á ákveðnum tíma. Að fá betri gögn fyrir eldsneytisspá og betri forsendur til að setja markmið um orkuskipti og gera þá þróun fyrirsjáanlegri.

Ábyrgð: Vinnueftirlitið og Orkustofnun.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021-2022.

1.6. Þróun á loftslagsvænni steypu

Fulltrúar atvinnulífs, rannsóknarsamfélags og stjórnvalda leiði saman hesta sína til að efla rannsóknir, þróun og þekkingu á loftslagsvænni steypu, ræða nauðsynlegar breytingar á regluverki, auka endurmenntun o.þ.h.

Markmið: Að örva þróun og auka notkun á loftslagsvænni steypulausnum.

Ábyrgð: Steinsteypufélag Íslands, HMS, Grænni byggð og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022 og áfram.

1.5. Stuðla að auknu samtali ólíkra hagaðila um uppbyggingu á úrvinnslu skógarafurða og annarra tengdra afurða

Fulltrúar skógræktarfélaga, atvinnulífs, rannsóknarsamfélags og stjórnvalda leiði saman hesta sína til að efla rannsóknir, þróun og þekkingu á skógaafurðum, ræða nauðsynlega uppbyggingu á innviðum, tækjakosti og námi í landinu, breytingar á regluverki, viðskiptatækifæri og annað sem styður við þróun á sölu- og samkeppnishæfum skógarafurðum. Fylgja þarf eftir niðurstöðum skýrslunnar Horft fram á við í afurða- og markaðsmálum skóga, þar sem fjallað er um afurða- og markaðsmál í skógrækt.

Markmið: Að efla nytjaskógrækt og sambærilega ræktun á Íslandi. Að örva þróun og útbreiðslu á viðarvinnslu. Að gera skógargeirann og tengdar greinar samkeppnishæfari og sýnilegri.

Ábyrgð: Skógræktin, Bændasamtök Íslands, HMS, Trétækniráðgjöf, Límtré Vírnet og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022 og áfram.