5.2.8. Aðlaga vottunarkerfi að íslenskum aðstæðum

Gerðar verði rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að gera opinberan íslenskan viðauka við BREEAM og til að hægt sé að setja fram séríslenskar kröfur í viðmiðum Svansins.

Markmið: Að vottunarkerfi séu meira aðlaðandi fyrir íslenska framkvæmdaraðila og að þau gefi raunverulegan umhverfisávinning hérlendis.

Ábyrgð: Grænni byggð og Umhverfisstofnun.

Tími: 2023.

5.2.7. Fræðsla til birgja um mismunandi vottanir, ávinning þeirra og rétta markaðssetningu á vottuðum vörum

Upplýsingaátak meðal birgja sem selja byggingarvörur til að auka þekkingu á mismunandi merkjum og þýðingu þeirra.

Markmið: Að birgjar geti stutt betur við sína viðskiptavini og gefið haldbærar upplýsingar um vottanir.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.

5.2.6. Fræðsla til sveitarfélaga um vottanir

Upplýsingaátak til sveitarfélaga með fyrirlestrum og upplýsingaefni um vottanir og niðurstöður á rannsóknum um þær, sem hægt er að horfa til í framkvæmdum og við val á byggingarefnum.

Markmið: Að sveitarfélög þekki kosti vottanakerfa og hvar þau geta nýst í rekstri sveitarfélaga.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.

5.2.5. Regluleg námskeið fyrir fagaðila um vottunarkerfi

Haldin verði regluleg námskeið í samstarfi við menntastofnanir um vottunarkerfi, ávinning af þeim og niðurstöður rannsókna á þeim. Námskeiðin verði miðuð að verktökum, ráðgjöfum og framkvæmdaraðilum.

Markmið: Að auka þekkingu á vottunum.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.

5.2.4. Greina hvernig unnt sé að fjölga umhverfisvottuðum mannvirkjaframkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar

Aðgerðir um vistvæn mannvirki í loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025 og í Græna planinu gera ráð fyrir auknum kröfum um umhverfisvottaðar nýbyggingar í eigu borgarinnar og viðhaldi þeirra. Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verður falið að skoða hvernig fjölga megi umhverfisvottuðum mannvirkjaframkvæmdum á vegum borgarinnar, í samstarfi við Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Markmið: Að fjölga umhverfisvottuðum nýbyggingum og viðhaldsframkvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg.

Tími: 2022-2023.

5.2.3. Umhverfisvottaðar byggingar skráðar í Mannvirkjaskrá HMS

Í uppbyggingu Mannvirkjaskrár HMS verður gert ráð fyrir því að skráð verði sérstaklega ef bygging er umhverfisvottuð og hvers konar vottun um er að ræða.

Markmið:Að fá yfirsýn yfir hvaða byggingar eru umhverfisvottaðar, fjölda þeirra á hverjum tíma og hvernig þróuninni er háttað.

Ábyrgð: HMS.

Tími: 2022-2023.

5.2.2. Gera leiðbeiningar um Svansvottunarviðmið fyrir nýbyggingar og endurbætur bygginga

Gerðar leiðbeiningar þar sem helstu atriði sem snúa að vottuninni verða tekin saman. Farið verður m.a. yfir kröfur viðmiðanna, hvernig skila á af sér gögnum, hvaða sérfræðiþekking þarf að vera til staðar til að fara í gegnum viðmiðin, efnissamþykktir, muninn á vottuðum byggingarvörum og samþykktum byggingarvörum, hlutverk ábyrgðaraðila, verktaka, hönnuða o.s.frv.

Markmið: Að aðstoða aðila við að fara í gegnum Svansvottunarferlið og veita innsýn og ákveðna grunnþekkingu inn í ferlið.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun.

Tími: 2022.

5.2.1. Greina ávinning og kostnað umhverfisvottana: Reynsla hagsmunaaðila á vistvottunarkerfum og samanburður á losun vottaðra og óvottaðra mannvirkja

Horft til árangurs á Íslandi til þessa, BREEAM, Svaninn og CEEQUAL og annarra kerfa. Greina ávinning við að nota kerfin, bæði hvað varðar kostnað, gæði og betri vinnubrögð og einnig mælanlegan samanburð t.d. í orkunotkun eða kolefnislosun til að tengja vottunarkerfin betur saman við losunarmarkmið. Greina hvaða hvatar eru til staðar sem hvetja til vottunar og hvaða hvötum þörf er á.

Markmið: Að kortleggja árangur og kostnað við vottunarkerfi. Að auka þekkingu á kostum og göllum kerfanna.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2021-2022.