Flokkunarleiðbeiningar fyrir verkstað

Aðgerð 4.3. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030 snýr að kynningarátaki um nýjar flokkunarkröfur á bygginar- og niðurrifsúrgangi hjá rekstraraðilum. Markmið aðgerðarinnar er að styðja við árangursríka innleiðingu á nýjum flokkunarkröfum byggingar- og niðurrifsúrgangs, ásamt því að stuðla að betri flokkun og öflugra hringrásarhagkerfi.

Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs ber að flokka byggingar – og niðurrifsúrgang í amk. 7 flokka, þ.e. spilliefni, timbur, steinefni, málma, gler, plast, pappa og gifs.

Til að kortleggja stöðu flokkunar á byggingar- og niðurrifsúrgangi hjá rekstraraðilum sendi Umhverfis- og orkustofnun út könnun þess efnis á yfir 40 rekstraraðila í þessum geira. Spurt var um gæði flokkunar, helstu hindranir og tækifæri auk þess hvort þörf væri á frekari leiðbeiningum fyrir flokkun á verkstað.

Niðurstöður spurningakönnunarinnar voru skýrar, meirihlutinn kallaði eftir frekari leiðbeiningum. Þar kom sérstaklega fram að mikilvægt væri að hafa leiðbeiningarnar á allavega þremur tungumálum og helst myndrænar.

Í kjölfarið voru útbúnar myndrænar leiðbeiningar fyrir flokkun á verkstað, á þremur tungumálum (íslensku, ensku og pólsku) og innihalda helstu leiðbeiningar fyrir hvern úrgangsflokk. Notast er við samræmdu flokkunarmerkingarnar ásamt myndum og textalýsingum. Leiðbeiningarnar hafa verið rýndar og samþykktar af nokkrum stærstu úrgangsmeðhöndlunaraðilum á Íslandi.

Leiðbeiningarnar eru sérstaklega hannaðar fyrir byggingarsvæði og mælt er með að staðsetja þær við gáma og á kaffistofum til að tryggja betri flokkun.

Hér má nálgast prentvænar leiðbeiningar fyrir flokkun á bygginga- og niðurrifsúrgangi.