Hvernig tókst til?
Mannvirkjagerð allt frá hugmynd til veruleika er marglaga ferli. Að ferlina koma sem dæmi verkkaupar, hönnuðir, verktakar, söluaðilar byggingarvara, iðnaðarmenn, eftirlits- og úttektaraðilar og ekki síst notendurnir sjálfir.
Þegar upp er staðið snýst mannvirkjagerð um notendur, það er þá sem að lokum búa í eða nýta mannvirkið.
Þar af leiðandi skiptir máli að hlið þeirra sem byggðu mannvirkið og þeirra sem búa í því komi fram.
Fyrsti íbúi búsetukjarnans flutti inn 1. mars 2025.
Umsagnir verktaka
Breytingum fylgir oft óvissa. Verktakar og aðrir sem koma að mannvirkjagerð byggja starfsemi sína hins vegar á vissunni, á því fyrirséða. Því meira sem er vitað, því betra. Með því er hægt að gera raunhæfar verkáætlanir, skipuleggja tíma starfsmanna, reikna út kostnað og svo framvegis.
Byggingarvörur og lausnir verða að vera tiltækar á réttum tíma
Flestir verktakanna voru almennt áhugasamir um notkun endurnýtra efna. Þeir gerðu sér grein fyrir að ferlið fól í sér nám og þannig útvíkkun á reynslu og þekkingu. Á móti kom að óvissan um hvaða byggingarefni kæmu, hvenær þau bærust á verkstað og hvernig ætti að vinna þau truflaði ferlið á köflum. Þegar unnið er með hringrásarhagkerfið eða nýjar lausnir er nauðsynlegt að búið sé að svara öllum spurningum og leysa hugsanleg vandamál áður en að verkþætti kemur.
Tryggja þarf að hráefni til mannvirkjagerðar sé tiltækt með góðum fyrirvara. Einnig þarf að liggja fyrir hvernig vinna á með það. Þetta á sérstaklega við um endurnýttar byggingarvörur. Kostnaður við starfsmenn sem skila engri framlegð getur orðið verulegur á skömmum tíma.
Ný nálgun getur þýtt aukinn kostnað á einstaka verklið en ekki endilega á heildarkostnaði
Sé farið aðrar leiðir en þær þekktu og hefðbundnu við mannvirkjagerð er skynsamlegt að gera ráð fyrir auknum framkvæmdakostnaði, þó það eigi ekki alltaf við. Sérhæfðar lausnir geta verið dýrari en stöðluðu lausnirnar. Til dæmis þurfti að hanna og sérsmíða gasbrennara fyrir utanhúsklæðninguna. Kostnaður við gerð brennarans nam um 500.000 krónum (á verðlagi ársins 2024).
Aukakostnaður getur einnig falist í aukinni vinnu við að útvega byggingarefni, bið starfsmanna eftir byggingarvörum, breytingum á fyrirliggjandi teikninum eða ófyrirséðum undirbúningi hráefnis til vinnslu.
Verkkaupi, hönnuður og verktakar þurfa að gera með sér skýrt samkomulag strax í upphafi verks varðandi hugsanlegan aukakostnað. Því fleiri atriði sem samið er um því betra.
Stærstu vandamálin sem koma upp milli til dæmis verkkaupa og verktaka snúa að vinnuaðferðum og hugsanlegum aukakostnaði vilji verkkaupi eða hönnuður fara aðrar leiðir en skilgreinar voru í upphafi. Útboð verktaka miðast við þau útborðsgögn sem lágu fyrir í upphafi.
Ný nálgun getur þýtt samstarf um lausnir og hugsanlega málamiðlun
Verkkaupi þarf að gera sér grein fyrir að markaðurinn er ekki alltaf tilbúinn að mæta öllum þörfum og óskum verkkaupa og hönnuða. Tiltekinn sveigjanleiki þarf því að vera til staðar til að verkið vinnist samvæmt verkáætlun og hugsa þarf vel fram í tímann varðandi efnisöflun og vinnubrögð.
Sem dæmi var gripið til þess að nota innflutta steinull (veggull) á útveggi búsetukjarnans í stað steinullar framleiddrar á Íslandi. Hefði sú leið ekki verið farin hefði verkið getað tafist um ófyrirséðan tíma með tilheyrandi aukakostnaði og óhagræði. Leita þurfti til annarra birgja varðandi efni í veðurkápu en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og svo framvegis. Bygging mannvirkis sem byggir á því að vinna út fyrir það þekkta krefst almennt séð tiltekinnar fyrirhyggju.