Félagsbústaðir
Árið 2021 auglýstu Félagsbústaðir, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, eftir arkitektum til að hanna um 500 fermetra búsetukjarna á þremur hæðum. Hlutverk Félagsbústaða er meðal annars að leigja út íbúðir til einstaklinga og fjölskyldna sem úthlutað hefur verið félagslegu leiguhúsnæði af velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið hlutafélag, alfarið í eigu Reykjavíkurborgar.
Háteigsvegur 59
Búsetukjarninn átti að vera staðsettur að Háteigsvegi 59, 105 Reykjavík. Gert var ráð fyrir að í húsinu væru sjö íbúðir fyrir fatlað fólk, auk starfsmannaaðstöðu. Hver íbúð var ætluð 45 til 60 fermetrar að stærð auk geymslu.
Fyrir valinu varð tillaga Arnhildar Pálmadóttur arkitekts hjá s.ap arkitektum.
Hugmyndafræði tillögunnar snerist um þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við sem þjóð höfum sett okkur um losun kolefnis út í andrúmsloftið, mikilvægi þess að skoða hvaða breytingar við getum gert í mannvirkjagerð og hvernig við getum nýtt betur efni og byggingar sem eru til.
Verkefnið að Háteigsvegi 59 er dæmi um þess háttar skoðun. Meginmarkmið við hönnun Háteigsvegar var að hanna áhugaverðar, fallegar og bjartar íbúðir samhliða því að draga úr losun CO2 og gera það innan sama kostnaðarramma og sambærileg verkefni. Ekki var notast við sérstakar vottanir en unnið var í samræmi við fyrirhugaðar breytingar á byggingarreglugerð um lífsferilsgreiningu samhliða hönnun auk þess sem gerðar voru kröfur til heilnæmis þeirra efna sem notuð voru í verkefninu. Einnig var ákveðið að taka áskoruninni sem kemur fram í Byggjum grænni framtíð um lækkun á kolefnisspori í mannvirkjagerð á Íslandi um að minnsta kosti 30% miðað við viðmiðunarhús. En það markmið var sett fyrir árið 2030. Árangursríkasta aðferðin til að gera það er að nota eins lítið efni og hægt er og efni sem hefur nú þegar losað kolefni þar sem 45% af losun frá íslenskri mannvirkjagerð er vegna byggingarefna.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
Í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030, sem er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð, er kveðið á um fjölda atriða sem tóna vel við þær áherslur sem lágu til grundvallar byggingu búsetukjarnans Háteigsvegi 59. Þar af leiðandi var stuðningur HMS við verkefnið auðsóttur.
Stuðningur HMS fólst meðal annars í að fylgjast með ferlinu, skrásetja það og birta á vef Byggjum grænni framtíð.
Arkitektinn
Arkitekt, húsameistari eða hússkáld, er einstaklingur sem hefur hlotið viðurkennda menntun í byggingarlist. Byggingarlist eða arkitektúr felst í hönnun bygginga og ýmissa annarra mannvirkja.
Arkitektar leika lykilhlutverki á tímum loftslagsbreytinga. Mannvirkjagerð fylgir hátt kolefnisspor á heimsvísu. Þar af leiðandi er mikilvægt að arkitektar fylgist vel með þróun í mannvirkjagerð og fari vandaðar og umhverfisvænar leiðir í hönnun þegar kostur gefst.
Arkitektar þurfa meðal annars að huga að:
- Staðsetningu mannvirkis, samgöngumöguleikum og þjónustu í nærumhverfi
- Stærð mannvirkis
- Endurnýtingu hráefna
- Kolefnisspori steypu og annarra byggingarefna
- CE-merkingum og upprunavottorðum byggingarefna
- Algildri hönnun og aðgengi fyrir alla
- Einangrun
- Flæði ljóss
- Líftíma mannvirkis
- Gróðri á lóð eða í kringum mannvirki
- Raski á lóð
Arnhildur Pálmadóttir
Arkitekt búsetukjarnans var Arnhildur Pálmadóttir. Arnhildur útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006 með BA-gráðu í arkitektúr. Áður hafði hún unnið á verkfræði- og arkitektastofum á Íslandi og í Noregi, meðal annars við þrívíddarvinnslu og hönnun. Eftir BA námið hóf hún nám við Barcelona School of Architecture – ETSAB en lauk síðar meistaragráðu frá Institute for Advanced Architecture of Catalonia.
Arnhildur Pálmadóttir á og rekur bæði arkitektastofuna sap arkitektar og íslenska útibú arkitekta og nýsköpunarstofunar Lendager. Arkitekta verkefni hennar snúast að miklu leyti um að nýta endurunnin og endurnýtt efni, minnkaða orku- og efnisnotkun, kolefnishlutlausar lausnir auk þess að efla lífríki og sjálfbæran lífstíl. Arnhildur og sap arkitektar vinna um þessar mundir rannsóknarverkefni um nýtingu hraunrennslis sem byggingarefni en Arnhildur er fulltrú Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025, fyrst Íslendinga.
Arnhildi voru veitt Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs í nóvember 2024 en þau eru veitt fyrirtæki eða samtökum á Norðurlöndum, sem hafa samþætt náttúru- og umhverfisvitund starfi sínu, eða einstaklingi sem hefur unnið mikilsvert starf í þágu náttúru og umhverfis.
Forsendur fyrir hönnun Háteigsvegar 59
Háteigsvegur 59 er um 500 fermetra búsetukjarni/fjölbýli með átta íbúðum auk geymslu á þremur hæðum (hver íbúð auk geymslu var áætluð 45-60 fermetrar). Þar af er ein fyrir starfsfólk. Íbúðunum var ætlað að vera framtíðarheimili fólksins sem þar býr. Áhersla var lögð á að heimilin væru notaleg, veitti íbúum vellíðan og mætti þörfum þeirra á heildstæðan hátt. Búsetukjarninn þurfti að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um húsnæði fyrir fatlað fólk.
Grunnkröfur
- Hver íbúð átti að vera með sér bað- og eldhúsaðstöðu.
- Gert var ráð fyrir að búsetukjarninn væri með að minnsta kosti 10,5 stöðugildi.
- Skrifstofa þurfti að vera til staðar fyrir forstöðumann.
- Vinnurými þurfti að vera til staðar fyrir starfsfólk.
- Setustofa þurfti að vera til staðar fyrir starfsfólk, þar sem einnig var hægt að halda fundi.
- Sér eldhús þurfti að vera til staðar fyrir starfsfólk.
- Mikilvægt var að húsnæðið væri bjart, að hljóðvist væri góð, og að á því væri heimilisbragur.
- Kostnaður við byggingu húsnæðisins þurfti að taka mið af lögum um almennar íbúðir og reglugerð um stofnframlög.
- Garðurinn átti að vera viðhaldsléttur.
Kolefnisspor og hringrásarhagkerfið
Eitt af meginmarkmiðunum sem lágu til grundvallar byggingu búsetukjarnans var að heildarkolefnisspor hans yrði 30% lægra en hjá sambærilegum mannvirkjum.
Lækkun kolefnisspors snýst um að velta öllum steinum og skoða með gagnrýnum augum hvaðan byggingarvara til mannvirkjagerðar kemur, hvernig hún er framleidd, hvernig er hún flutt á verkstað og hvað þarf til að nýta hana.
„Að lækka kolefnisspor mannvirkis snýst allt um að skoða hvað er í byggingarefnunum. Eða hversu margar kaloríur þau hafa. Þetta er eins að versla í matinn. Þú lítur á kaloríurnar og verðið. Varan verður að hafa góð gæði en hún má ekki vera of dýr“ (Lone Feifer, forstöðumaður sjálfbærra bygginga – Velux Group).
Til að ná markmiðum um lægra kolefnisspor þurfti til dæmis að vinna með steypuframleiðandanum til að framleiða steypu með lægra kolefnisspor en gerð var krafa um í byggingarreglugerð. Stefnt var að því að endurnýta hráefni úr öðrum byggingum og nýta átti umhverfisvænni orkugjafa við byggingarframkvæmdirnar og svo framvegis.
Einnig átti að framkvæma lífsferils- (e. LCA) og lífskostnaðargreiningu (e. LCC).
Heildarkostnaður við byggingu fjölbýlisins átti ekki að vera meiri heldur en við að fara hefðbundnari byggingarleiðir.
Garðurinn
Stefnt var að því að garðurinn við Háteigsveg 59 yrði eins viðhaldsfrír og kostur var, það er að hann yrði eins upprunalegur og hægt væri. Grjót og tré voru færð til en ekki keyrð í burtu, sem þýddi að sú fjölbreytta flóra sem einkenndi staðinn fékk að halda sér. Byggt var á holti þar sem finna mátti stórgrýti, um 1-2 metra há birkitré, berjalyng og fleira sem vert var að varðveita.
Gætt var að því að umhverfi fjölbýlisins væri nærandi og í samræmi við sögu staðarins. Önnur hæð hússins var hönnuð stærri að flatarmáli en sú fyrsta sem þýddi minna jarðrask..
Bílastæði og almennt aðgengi
Búsetukjarninn var staðsettur í grónu hverfi. Þar af leiðandi opnuðust ýmsir möguleikar varðandi aðkomu og aðgengi. Sem dæmi var ekki gert ráð fyrir bílastæðum, hvorki í bílakjallara né á lóð búsetukjarnans. Fjöldi bílastæða var nærri búsetukjarnanum, það er hjá Tækniskólanum Háteigsveg 35-39 (105 Reykjavík). Stutt var í fjölbreytta þjónustu líkt og leik- og grunnskóla. Innan hverfisins voru einnig matvöruverslanir, bakarí og fleira. Almenningssamgöngur voru góðar og auðvelt var að nota annan samgöngumáta, líkt og reiðhjól, rafmagnshjólastóla og rafskutlur.
Gerð bílastæða, þá sérstaklega bílakjallara, eykur kolefnisspor bygginga til muna. Losunin eykst vegna orkunotkunar, jarðvegsflutninga, aukins magns af steypu og svo framvegis.
Aðgengi fyrir alla og algild hönnun
Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda. Fólk á að geta komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, til dæmis í eldsvoða. Sjónarmið algildrar hönnunar eiga að vera höfð að leiðarljósi við hönnun mannvirkja og umhverfis.
Algild hönnun er ferli sem virkjar og styrkir íbúa samfélagsins með því að bæta mannlegan árangur, heilsu, vellíðan og félagslega þátttöku. Algild hönnun gerir lífið auðveldara, heilsusamlegra og vingjarnlegra fyrir alla.
Háteigsvegur 59
Sjónarmið aðgengis fyrir alla og algildrar hönnunar voru höfð að leiðarljósi við hönnun búsetukjarnans og garðsins. Meðal annars var lyfta sett í húsið til að veita íbúum, starfsmönnum og gestum gott aðgengi að öllum hæðum. Engir þröskuldar voru í húsinu og gætt var vel að birtu og flæði ljóss um vistarverur og íbúðir.
Kröfur til verktaka
Þar sem lækka átti kolefnisspor mannvirkisins eins mikið og hægt var í samanburði við viðmiðunarbyggingar var ljóst að verkið hafði nokkra sérstöðu. Í því ljósi þurfti að skilgreina umhverfis- og samfélagslega ábyrgð verktaka.
Ábyrgð verktaka var lýst í útboðsgögnum. Verktaka bar að móta umhverfis-, öryggis- og innkaupastefnu fyrir vinnusvæðið og fylgja þeim kröfum sem komu fram í verklýsingu varðandi umhverfismál fyrir ákveðna hluta verkefnisins og tryggja að allir (bæði starfsmenn og gestir) þekktu og fylgdu henni. Verktaka bar að sýna fram á virka umhverfisstefnu með mælanlegum markmiðum. Honum bar að leggja fram gögn því til staðfestingar.
Verktaka bar að útbúa og skila umhverfisáætlun til verkefnisstjóra frá upphafi verks til rýni og samþykktar.
Aðrar kröfur
- Halda átti úrgangi sem féll til á verkstað inni í hringrásarnýtingu efna, annað hvort á verkstað eða til að endurnýta í önnur verkefni.
- Mæla og takmarka átti notkun á raforku og vatni og sýna fram á mælanleg markmið.
- Halda átti umhverfisbókhald fyrir verkefnið og útbúa skýrslu í lok þess.
- Koma átti á verklagi til að draga úr hávaðamengun, titringi, loft- og rykmengun.
- Koma átti á verklagi til að koma í veg fyrir mengun vatns- og jarðvegs.
- Gæta þurfti að greftri út fyrir skilgreind graftarmörk. Gæta þurfti að því að annað umhverfisrask ætti sér ekki stað.
- Útvega þurfti fullnægjandi gáma fyrir eldneytisbirgðir og tímabundna geymslu vökva á byggingarsvæðinu.
- Losun á olíu- og olíusamböndum í vatn, grunnvatn og jarðveg var bönnuð.
- Gæta þurfti ýtrustu varúðar við meðferð olíu og við olíuáfyllingar. Þjálfa þurfti sérstaka starfsmenn til að hafa umsjón með meðhöndlun og flutningi eldsneytis og hvernig átti að bregðast við leka/tjóni.
- Ef mengun barst í jarðveg átti tafarlaust að hreinsa hann upp og skila til viðurkennds mótttökuaðila. Meðhöndla átti jarðveginn í samræmi við leiðbeiningar frá heilbrigðiseftirliti.
- Á vinnusvæðinu átti að vera tiltækur búnaður til að hreinsa upp olíumengun.
- Óheimilt var að losa eiturefni og hættuleg efni í niðurföll.
- Ef eiturefni eða önnur hættuleg efni helltust niður átti umsvifalaust að hindra að þau bærust í fráveitur.
- Ekki var heimilt að hafa olíutank á svæðinu nema með leyfi byggingarfulltrúa.
- Tæki og vélar áttu að vera flutt af svæðinu til viðgerða á olíuverki eða þegar hætta var á mengun samfara viðgerðum.
- Fylgjast átti vel með öllum vélum og sjá til þess að gott viðhald væri á þeim.
- Ekki var heimilt að losa steypuafganga úr steypubílum á svæðinu.
- Verktaki átti að skilgreina ábyrgðarmann úrgangsstjórnunar sem sá um innleiðingu, eftirfylgni, vöktun og skráningar. Verktaki skuldbatt sig til að draga úr myndun úrgangs eins og kostur var og hámarka flokkun úrgangs til endurnotkunar og endurvinnslu í samræmi við sett markmið. Magn úrgangs var vaktað og markmið endurskoðuð reglulega.
- Verktaki skuldbatt sig til að flokka úrgang og spilliefni samkvæmt flokkunarreglum viðeigandi flokkunaraðila þar sem úrgangi var skilað.
Til framtíðar
Með byggingu búsetukjarnans að Háteigsvegi 59 var tekin meðvituð ákvörðun um að fara aðrar leiðir en þær sem voru þekktar og töldust hefðbundnar varðandi mannvirkjagerð á Íslandi. Markmiðið var að sýna fram á að endurnýting og lækkun kolefnisspors væru raunhæfir valkostir.
Bygging búsetukjarnans að Háteigsvegi 59 átti að vera kröftugt innlegg í átt til sjálfbærari mannvirkjagerðar á Íslandi.