Hringrásarhagkerfi

Vefsíða í vinnslu.

Hvað er hringrásahagkerfi?

Hugtakið hringrásahagkerfi stendur (samkvæmt skilgreiningu Umhverfisstofnunar) fyrir kerfi þar sem leitast er við að koma í veg fyrir að auðlindir verði að úrgangi. Áhersla er lögð á að tryggja að verðmætum auðlinda er viðhaldið eins lengi og mögulegt er.

Hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins er nokkuð margþætt og nær einnig til þess að endurmeta og endurskilgreina lífsgæði. Helstu aðgerðir sem tryggja að auðlindum sé viðhaldið í hagkerfinu eru að deila, gera við, endurnota, framleiða aftur og endurvinna.

Eitt af þeim markmiðum sem lágu til grundvallar byggingu búsetukjarnans Háteigsvegi 59 var endurnýting hráefna. Þar sem efni er einn stærsti hluti losunar í mannvirkjagerð var ákveðið að skoða möguleikann á að nota efni sem nú þegar hefur losað kolefni og flokkast sem sorp. Ætlunin var að gefa því nýtt líf og gera það þannig hluta af hringrásinni.  Þetta þýðir einnig að byggingin fær öðruvísi útilit en hefðbundnar fjöldaframleiddar byggingar, efnin hafa sögu, hvaðan þau koma, hvernig það var unnið og fleira sem er áhugavert fyrir íbúa hússins og gesti.

Um hringrásahagkerfið og byggingarúrgang

Á heimasíðu Grænni byggðar (e. Green building council Iceland) má meðal annars finna upplýsingar um hringrásahagkerfið og byggingariðnaðinn ásamt greinargóðum leiðbeiningum um nýtingarmöguleika og meðhöndlun byggingarúrgangs.

Klöpp losuð og möluð

Lóðin við Háteigsveg 59 var nokkuð þéttvaxinn af 1-2 m háum birkitrjám. Teknar voru fjórar prufuholur á lóðinni og reyndist dýpt niður á klöpp vera á bilinu 0,5-1,2 m. Jarðvegur ofan á klöppinni var grýtt mold.

Við jarðvinnu að Háteigsvegi 59 var klöpp losuð með fleygun. Efni sem féll til var malað þannig að það var nýtilegt í burðarfyllingu innan grunns og að sökkli. Með þessu var tilfallandi hráefni endurnýtt ásamt því að kolefnisspor mannvirkisins varð minna. 

Talsverð kolefnislosun getur falist í flutningi á jarðefnum til og frá verkstað.

Það efni sem fjarlægt var af lóðinni var keyrt á viðurkenndan förgunarstað.

Steinsteypa

Um eiginleika og framleiðslu steinsteypunnar giltu ákvæði byggingarreglugerðar og staðalsins ÍST EN 206:2013. Um niðurlögn  og eftirmeðhöndlun steinsteypunnar giltu ákvæði staðalsins ÍST EN 13670:2009.

Berglind

Steinsteypan kom frá BM Vallá og hét Berglind. Steinsteypa er byggingarefni sem samanstendur af vatni, steinefnum og sementi (það er blöndu af sement klinker og gifsi). Um það bil 90% af kolefnislosun vegna steinsteypuframleiðslu er vegna framleiðslu á sementi. Almennt er talið að um 8% af allri kolefnislosun heimsins sé rakin til framleiðslu sements.

Í Berglind er að finna Standardsement FA frá Heidelberg Materials Norge (StandardFA). StandardFA er CEM II sement, það er að segja sementsblanda sem inniheldur flugösku í staðinn fyrir hluta sements klinker. Flugaska er aukaafurð frá kolaorkuverum og á við öskuna sem verður til við kolabrennslu til að framleiða raforku. 

Berglind, vistvænni steypa frá BM Vallá, kemur stöðluð með 20% minna kolefnisspor en önnur hefðbundin steypa. Styrkur hennar er C25. Til viðmunar er kveðið á um í Byggingarreglugerð að kolefnisspor fyrir C25 steypu sé í kringum 298 kg CO2e/m3.

Berglind Svan er steypugerð sem er leyfð fyrir Svansvottaðar byggingar og hefur enn lægra kolefnisspor heldur en Berglind. Samkvæmt kröfum Svansins skal sementsblandan í ýmsa steypta byggingarhluta einungis innihalda 70% sements klinker. Hjá BM Vallá var það leyst með því að skipta út hluta af sements blöndunni fyrir kísilryk í Berglindi Svan. Kísilryk er annað vel rannsakað possólanaefni en það hefur lengi verið blandað með sementi á Íslandi.

Berglind Svan var því kolefnislægsti valkosturinn og er með allt að 40% lægra kolefnisspor en hefðbundin steypa. Engu síður er styrkur steypunnar C25 (sjá Sigmál, fréttabréf Steinsteypufélags Ísland bls. 9-11).

Hringrásartengdar lausnir

Við upphaf byggingu búsetukjarnans Háteigsvegi 59, í samvinnu við hönnuði þess, var farið í að skoða hvaða möguleikar væru til staðar með tilliti til áherslu á hringrásartengdar lausnir.

Í kjölfarið var skoðað  hvort BM Vallá gæti notað eitthvað úr úrgangsstraumum eigin framleiðslu. Eftir kortlagningu var ákveðið að kanna hvort hægt væri að endurnýta ósöluhæfar steyptar hellur.

Hafist var handa við að mylja niður hellur og setja mulninginn í umfangsmikla steinefnagæðaprófun. Efnið stóðst allar prófanir sem steypuefni. Næsta skref var að prófa efnið í prufusteypur.

Niðurstaðan var að um hágæða efni var að ræða sem væri vel til þess fallið að nota til steypugerðar. Berglind Plús var því kynnt til leiks og notuð í nokkra byggingarhluta í Háteigsveg 59.

Steypan í stiga milli hæða að Háteigsvegi 59 og einn innvegg við lyftu var blönduð með muldum ósöluhæfum hellum. Í tröppunum var mulningurinn 5% af heildarrúmmáli trappanna í stað steinefna samhliða en í veggnum var mulningurinn 12% af heildarrúmmáli veggsins í stað steinefna samhliða.  Í báðum tilfellum var styrkur steypunnar C25.

  • Steypan með 5% hellubrotum losaði 170,6 kg CO2e/m(tölur frá BM Vallá).
  • Steypan með 12% hellubrotum losaði 168,8 kg CO2e/m3 (tölur frá BM Vallá).

Umsagnir verktaka og steypuhreiður

Verktökum þótti steypan stíf, í hana vantaði þjálni. Afleiðingin var, að sögn verktaka, sýnileg í nokkrum steypuhreiðrum víðsvegar í búsetukjarnanum. Öll steypuhreiður í útveggjum voru meðhöndluð. Aðallega með ábræddum dúk eða steypufyllingum. Steypuhreiður í innveggjum voru í einhverjum tilfellum, að ósk arkitektsins,  látin standa óbreytt og sýnileg. 

Í útboðslýsingu kom fram að áður en steypt yrði að steypuskilum ætti að hreinsa burt allt hröngl og óþétta steypu og vökva eldri steypu vandlega, varast ætti að pollar stæðu á eða við skilin. Titra þurfti steypuna sérstaklega vel við skilin vegna hættu á hreiðurmyndun, en gæta þess vandlega að titrarinn hristi ekki steypustyrktarstál sem gekk inn í fyrri steypuáfanga. 

Fulltrúi steypuframleiðanda (BM Vallá) skoðaði steypuhreiðrin Háteigsvegi 59. Niðurstaðan var að vanda hefði þurft betur til verka varðandi niðurlögn steypunnar. 

Samkvæmt útboðslýsingu átti að fara með alla galla, sem síðar kunnu að koma í ljós og rekja mátti til rangrar meðhöndlunar steypunnar, sem dulda galla og var verktaki ábyrgur jafnvel þótt verkkaupi hafi áður fallist á aðgerðir til útbóta.

Veðurkápan

Veðurkápan að Háteigsvegi 59 var úr yfirborðsbrenndu timbri (fura og greni). Timbrið kom að mestu frá verktökunum og byggingavöruverslununum Húsasmiðjan og Byko. Frá verktökum kom timbur sem áður hafði verið notað til dæmis í uppslátt. Frá Húsasmiðjunni kom timbur sem flutt hafði verið til landsins sem umbúðir fyrir aðrar vörur og frá Byko kom timbur sem tekið hafði verið úr sölu vegna yfirborðsfúa. Timbrið þurfti að vera þykkara en 18 mm en að hámarki 45 mm.

Talsvert af timbri fellur til hjá byggingavöruverslunum. Sem dæmi kemur panill og vatnsklæðning til landsins í timburbúntum, varin með timburborðum. Þessi borð teljast ekki söluvara og hafa lítið verið endurnýtt. Einnig var vel hægt að nýta timbur sem var eingöngu með yfirborðsfúa.

Timbrið (sem var af ýmsum lengdum, breiddum og þykktum) var ekið að Háteigsvegi 59. Viðurinn var brenndur með sérsmíðuðum gasbrennara sem hannaður var af verktökum að Háteigsvegi og framleiddur í Skipanesi Búvélaverkstæði. Gasbrennarinn var í eigu verktakans, sem sá um brennsluna.  

Timbrinu var rennt í gegnum brennarann borð fyrir borð (loga var haldið í fimm til tíu sekúndur yfir hverju svæði) og þar með myndaðist um þriggja millimetra koluð yfirborðsskán á öllum hliðum. Timbrið var því næst bútað í 60 cm langar lengjur. Allar stærri skemmdir, dauðir kvistir og fleira, var sagaðar frá.  Að lokum voru endar bútanna brenndir til að loka timbrinu að fullu. Eftir stóð viður sem átti að vera eldtefjandi og þola útfjólubláa geisla sólar og ágang rotvera.

Vinnsla timburklæðningarinnar var mikið verk og tímafrekt. Alls þurfti rúma 860 fermetra af brenndri veðurkápu á búsetukjarnann sem þýddi að heildarmagn þess timburs sem var brennt fór vel yfir það magn.

Kostnaður

Kostnaður við klæðinguna var óverulegur þegar upp var staðið. Húsasmiðjan gaf góðan afslátt af verði, en Byko gaf timbur í klæðninguna. Stærsti hluti veggklæðningarinnar kom frá Byko. Vinnan við brennsluna og sjálfur brennarinn kostuðu aukalega, borið saman við kaup og uppsetningu á til dæmis bárujárnsklæðningu. Hins vegar var heildarkostnaðurinn, þegar klæðningin var komin á húsið, mjög lágur. Nýsköpun og þróunarvinna þarf því ekki að kosta meira.

Uppsetning klæðingarinnar

Álvinklar með festingum voru festir með róm og boltum á útveggina. Pappi var settur undir festingarnar til að brjóta kuldabrú. Á álvinklana voru festir lóðréttir álleiðarar með festingum. Milli álvinkla (á steyptan vegginn) var fest 100 mm steinull (veggull). Dúkur var settur utan á einangrunina og leiðarann með festingum sem bjuggu til loftunarbil. Að lokum voru láréttir omega-leiðarar festir á og svo timburklæðningin (sjá mynd: Uppsetning veggklæðningar). Timburklæðningin var lokum skrúfuð á álleiðarana með ryðfríum skrúfum. 

Timbrið var kolað við uppsetningu. Eitthvað af sóti var laust. Það sót var látið skolast af á náttúrulegan hátt.

Uppsetning veggklæðningar

 

Umsagnir verktaka

Framangreind aðferð við gerð veðurkápu hafði að því talið var vitað ekki verið beitt frá grunni hérlendis nema á sumarhúsum og minni byggingum. Hins vegar hafði eitthvað verið um innflutning á brenndri klæðningu. Þar af leiðandi þurfti að leysa tiltekin vandamál sem fólust aðallega í hönnun brennslubúnaðar og að afla hráefnis.

Verkkaupar sömdu við verktakana og Húsasmiðjuna um útvegun timburs. Þegar á reyndi þurfti meira timbur en var tiltækt. Að lokum hljóp Byko undir bagga. 

Verktakar litu á ferlið sem lærdóm þar sem um eitthvað nýtt og framandi var að ræða. Engu síður var óvissan um hráefni nokkur. Fyrirsjáanleiki skiptir miklu í mannvirkjagerð. Þegar að verki kemur þarf til dæmis byggingarvaran að vera komin á verkstað ásamt því að búið er að ákveða vinnsluferlið. Óvissa og bið eftir hráefni getur valdið töfum á verkáætlun og þar með skipulagi. 

Bið verktaka eftir lausnum og hráefni getur hugsanlega valdið auknum kostnaði fyrir verkkaupa.

Yakisugi

Aðferðarfræðin sem lá að baki gerð veðurkápunnar er ekki ný af nálinni. Um er að ræða hefðbundna og aldagamla japanska aðferð sem nefnist Yakisugi (aðferðin er einnig nefnd Shou Sugi Ban). Uppruna aðferðarinnar má rekja til 18. aldar þegar bændur leituðu leiða til að vernda og verja timburhús.

Við bruna verða efnahvörf í timbrinu við súrefni sem mynda koltvíoxíð, vatnsgufu og aðrar aukaafurðir. Það magn af koltvíoxíði sem losnar fer eftir ýmsu, þar á meðal tegund viðarins, rakainnihaldi og sjálfu brennsluferlinu. Til einföldunar má gera ráð fyrir að eitt brunnið tonn af þurrum við losar í kringum tvö tonn af koltvíoxíði. Aðferðin telst því ekki skila beinum umhverfisávinningi. Engu síður er um vistvæna aðferð að ræða. Þar má telja nokkrar ástæður:

  • Aðferðin myndar hlífðarlag sem eykur endingu viðarins. Aukin ending dregur úr heildareftirspurn eftir timbri.
  • Ferlið krefst engra aukaefna á borð við þétti- eða rotvarnarefni.
  • Viðhald á klæðningunni er lítið. Brennslan dregur úr þörf á reglulegri notkun á þéttiefnum eða málningu sem getur innihaldið skaðleg efni.
  • Notaður var viður sem taldist ekki söluvara eða nýtanlegur í mannvirkjagerð.
  • Aðferðin skapar einstaka viðaráferð sem sífellt er vinsælli í nútíma arkitektúr og hönnun.
Hægt er að stýra brunanum eða bursta viðinn eftir brennslu. Þar með er hægt að hafa áhrif á útkomuna. 

Flísar í stétt og sameiginleg innri rými

Veðurkápa Smiðju, skrifstofubygging Alþingis Tjarnargötu 9, samanstendur af sex steintegundum. Þær eru hraungrýti, blágrýti, líparít, gabbró, Grindarvíkurgrágrýti og Reykjavíkurgrágrýti (sem kom úr grunni nýja Landsspítalans).

Afgangi af klæðningunni frá Smiðju var safnað saman og hann fluttur til fyrirtækisins Grafa og grjót til frekari vinnslu. Steinninn var sagaður í 10 mm þykkar skífur/flísar og meðal annars notaður í stétt og í sameiginleg rými innan búsetukjarnans Háteigsvegi 59.

Steinflísarnar voru misstórar að flatarmáli þar sem lögunin var óregluleg. Flísarnar voru flokkaðar eftir stærðum og lagðar þanngi að sem minnst fúga varð á milli. Að lokum voru flísarnar límdar niður án fyrirfram ákveðins mynstur með umhverfisvænni fúgu á milli. Fúgubreidd varð því óregluleg og hafði endanlegt gólf óreglulegt útlit. 

Gætt var að aðgengismálum þar sem flísalögn kom að inngangs- og garðdyrum. Þröskuldar við inngangsdyr/útidyr og svala- og garðdyr máttu sem dæmi ekki vera hærri en 25 mm.

Hitakerfi

Hitalagnir (heitt vatn) i var lagðar undir steinflísarnar bæði úti og inni. Þannig var tryggt að til dæmis enginn klaki eða snjór lægi til langs tíma á útistéttinni með tilheyrandi takmörkunum á aðkomu.

Gluggar og hurðar

Gluggar, svala- og útihurðir komu að stærstum hluta frá byggingarvöruversluninni Byko. Um innfluttar vörur var að ræða (Lettland). Gluggar voru úr timbri með álklæðningu. Millihurðir voru úr timbri eingöngu. Gluggarnir voru CE-merktir og þeim fylgdi yfirlýsing um nothæfi (e. DoP). 

Endurnýttir gluggar

Hluti glugga var endurnýttur. Hjá Gluggagerðinni í Kópavogi fengust 20 gluggar með gleri sem annars hefðu engum nýst. Um ósótta pöntun var að ræða. Af tuttugu gluggum voru sjö nýttir í búsetukjarnann. Sex gluggar voru nýttir í einn samsettan glugga á framhlið búsetukjarnans. Til að gluggarnir gætu nýst þurfti að smíða sjö smærri glugga aukalega.

Sjöundi glugginn var nýttur í glugga við inngang búsetukjarnans.

Hver endurnýttu glugganna var með opnanlegu fagi. Það fag var látið halda sér og engar breytingar voru gerðar á gluggunum sem slíkum. Eina breytingin fólst í því að gluggarnir voru málaðir að nýju, það er með lit sem  passaði betur við heildarútlit búsetukjarnans. 

Samsetning: einn gluggi úr mörgum

Gluggarnir frá Gluggagerðinni voru fluttir endurmálaðir á Háteigsveg 59. Glugginn á framhlið hússins var settur saman á staðnum.  Fyrst var neðsti glugginn festur við veggi gluggaopsins með steinskrúfum og  Adjufix álskrúfum. Því næst var kíttað á samskeyti glugganna. Næsti gluggi var festur ofan á og skrúfaður saman við þann neðri, og þetta ferli endurtekið þar tli allir gluggarnir höfðu verið settir saman.

Rakastig timburs

Margs er að gæta við endurnýtingu byggingarvara. Ef timburgluggar hafa staðið úti svo dögum eða vikum skiptir eru líkur á að rakastigið í timbrinu sé hærra en æskilegt er. 

Tryggja þarf að rakastig timburglugga sé rétt við ísetningu. Sé rakastigið of hátt geta tilteknir eiginleikar tapast, sem dæmi getur það  haft áhrif á viðloðun kíttis.

Hurðir í geymslu

Hverri íbúð í búsetukjarnanum Háteigvegi 59 fylgdi lokuð geymsla. Geymslurnar voru á jarðhæð. Hurðarnar á geymslurnar voru endurnotaðar hurðir í eigu Félagsbústaða.

Milliveggir í geymslunum voru hlaðnir upp með hleðslusteinum úr gifsi. Veggirnir voru múraðir og málaðir og að lokum voru framangreindar hurðar settar upp.

Engir hurðakarmar fylgdu hurðunum. Það var leyst með því að smíða ramma úr 45×95 mm burðarvið. Um var að ræða timbur sem taldist ekki söluvara vegna sveppavaxtar. Til að stoppa myglavöxt hafði timbrið legið inni (í hita) að Hátegisvegi 59 svo vikum skipti.

Varast þarf notkun á mygluðu timbri, sérstaklega innandyra. Sé ekki gætt að geta myglugró dreifst um mannvirkið með ófyrirséðum afleiðingum.

Gólfefni

Gólf í íbúðum búsetukjarnans voru lögð með hitalögnum og flotað yfir. Múrflotið var grunnað, og á það borið tveggja þátta parketlím. Á límið var límdur 3 mm korkdúkur. Ofan á korkdúkinn var tveggja þátta límið borið á að nýju og á það límt 22×129 mm gegnheilt stafaparket úr beyki.  Parketið kom frá danska parketframleiðandanum Junckers í samstarfi við Egil Árnason ehf.

Um endurnýtt parket var að ræða. Búið var að safna endurvinnanlegu parketi, til dæmis úr íþóttahúsum í Danmörku, vinna upp á nýtt og flytja til landsins. Borðin voru öll pússuð og nótuð og varin með svonefndu Ultramat gólflakki.  

Umsagnir verktaka

Verktakarnir sem lögðu parketið höfðu mikla reynslu af lagninu parkets. Sem dæmi höfðu þeir lagt parket í mörg íþróttahús hérlendis. Samkvæmt þeim var gegnheilt beykiparket vandmeðfarið. Viðbúið var að gólfið myndi hreyfast hvað varðar rifur milli parketborða. Gegnheill viður leitar jafnan að jafnvægisraka við umhverfið og því mátti búast við þenslu og samdrætti allt eftir raka- og hitastigi umhverfinu.

Þá þarf að sýna aðgát við hitun gólfs. Þegar parket lagt á upphitað gólf ber að varast að auka gólf- eða lofthita skyndilega. Best er að auka eða draga úr hita á lengri tíma og í hægum skrefum. Miklar og snöggar hitabreytingar geta valdið óæskilegri hreyfingu á parketinu.

Umgengni og flokkun úrgangs

Umgengni á vinnustað átti að vera í samræmi við staðalinn ÍST 30:2012, grein 4.2. Þar segir meðal annars (grein 4.2.1): Verktaki skal sjá um að öll umgengni á vinnustað sé snyrtileg og hreinsa burt allt rusl eftir sig reglulega.

Allur afgangur eða úrgangur sem féll til á verktíma var flokkaður. Spillefni voru flokkuð, og það sem hægt var að nýta aftur var sent í endurvinnslu. Við útboð verksins var gerð krafa um að öllum efnisafgöngum yrði safnað saman innan lóðar á fyrirfram ákveðnu svæði, valið í samráði við verkefnisstjóra verkkaupa.

Opnir og aðgengilegir endurvinnslugámar

Flokkunargámarnir voru flestir opnir og á tímabili staðsettir utan girðingar (sem lokaði af framkvæmdasvæðið). Þekkt er að opnir og aðgengilegir ruslagámar fyllist af sorpi úr nærumhverfinu, og það varð raunin á Háteigsvegi 59. Sem dæmi hentu óviðkomandi aðilar flísum og sundursöguðu baðkari í endurvinnslugámana. Einnig var losað sófasett við framkvæmdasvæðið.

Verktakar áætluðu að á tímabili hafi um einn fjórði hluti heildarúrgangs verið frá nærumhverfinu, þ.e. úrgangur sem nágrannar losuðu sig við án leyfis. Óleyfileg losun getur haft áhrif á flokkun og kostnað við urðun. Sem dæmi getur kílóverð úrgangs fjórfaldast við skil í endurvinnslu ef rangt sorp blandast í gáma.

Aukin vinna sem á rétt á sér

Flokkun úrgangs felur í sér meiri vinnu samanborið við að losa í einn gám. Engu að síður er það mikilvægur þáttur í sjálfbærri mannvirkjagerð. Flokkun stuðlar að virkara hringrásarhagkerfi, betri nýtingu auðlinda og minni losun gróðurhúsalofttegunda.

Verktakinn skráði hjá sér magn úrgangs frá verkstað. Samkvæmt skýrslu um byggingarúrgang sem unnin var af VSÓ ráðgjöf fyrir Grænni byggð var byggingar- og niðurrifsúrgangur um 109 kg/m2 árið 2020. Úrgangur frá verkstað Háteigsvegi var um 76 kg/m2

Umgengni á vinnustað

Hugtakið gæðastjórnun er nátengt mannvirkjagerð. Hugmyndafræði gæðastjórnunar gengur út á að skilgreina og koma upp fastmótuðum vinnuferlum við framleiðslu vöru eða þjónustu. Samhliða er lögð áhersla á úttektir á virkni vinnuferlanna (sjá ritgerð Guðjónu Bjarkar Sigurðardóttur, Gæðastjórnun verktaka í mannvirkjagerð á Íslandi).

Önnur skilgreining á gæðastjórnun er að fyrirtæki komi sér upp stöðugu kerfi til að uppfylla kröfur viðskiptavina varðandi það sem þeir skilgreina sem gæði. Þegar breyta þarf ferlum innan fyrirtækis eða hegðun starfsmanna, er mikilvægt að byggja á stöðugu gæðakerfi. Þar skiptir fræðsla, upplýsingagjöf og samtal við þá sem málið varðar lykilmáli.

Einstaklingur sem keyrir steypu á verkstað veit væntanlega lítið um áætlanir verkkaupa, hönnuðar og verktaka. Sá sem starfar hjá undirverktaka hefur oft takmarkaða innsýn í verkefnið ef ekkert samtal á sér stað.

Umgengni á vinnustað var í einhverjum tilfellum ekki í samræmi við markmið verksins. Sem dæmi var afgangssteypa úr steypubíl tæmd í garðinn, sem stangaðist á við markmið um að varðveita garðinn eins og kostur var. Þá var umgengni um byggingarvörur stundum ábótavant. Einangrun lá óvarin úti, og sömu sögu var að segja um tréglugga og fleiri byggingarefni.

Þessi vinnubrögð eru því miður of algeng í íslenskri mannvirkjagerð og hafa viðgengist lengi. Í ljósi áherslunnar á að draga úr kolefnisspori mannvirkjagerðarinnar, stuðla að hringrásarhagkerfi og endurnýta hráefni, hefði verið hægt að draga þann lærdóm að fræða þyrfti alla sem koma að verkinu. Tryggja hefði þurft að allir skildu verkefnið og tækju virkan þátt, en þar skiptir stöðugt og virkt gæðakerfi sköpum.

Þak með steyptri plötu og torfi

Þakið var klætt með ábræddum tjörudúk. Á hann var lögð XPS-einangrun, drendúkur, jarðvegsdúkur og að lokum tvöfalt lag af úthagaþökum. Neðra lagið var lagt með grashliðina niður. Tilgangurinn var fyrst og fremst að mynda moldarlag fyrir efra þökulagið. Úthagaþökurnar voru skornar af sjálfgrónu valllendi og innihéldu eingöngu íslensk grös og blómplöntur. Þökurnar komu af þurru og sendnu svæði, ekki af moldar- eða mýrlendu landi.

Úthagaþökur þykja henta vel þar sem áhersla er lögð á náttúrulegan frágang sem kallar ekki á viðhald eftir að rætur hafa náð að festa sig. Megin grastegundirnar eru íslenskur ilmreyr, tún- og blávingull, auk há- og týtulíngress. Þar er einnig að finna íslenskan blómgróður, líkt og blóðberg, möðrur og murur. Úthagaþökur henta betur á grasþök húsa en venjulegar gras- eða túnþökur vegna þess að grastegundir í úthagaþökum eru þurrkþolnari og gera minni kröfur um næringu.

Málun

Krafa var gerð um að takmarka notkun á rokgjörnum efnum, á borð við lakk og málningarefni. Engin terpentínuþynnt alkýðolíuefni voru notuð, einungis vatnsþynnanleg efni voru leyfð. Öll efni sem voru notuð þurftu að hafa viðeigandi umhverfisvottun. Ef vottun var ekki til staðar þurfti verktaki að leggja fram tækniblöð sem staðfestu að efnin uppfylltu settar kröfur.

Í votrýmum var gerð krafa um að nota efni sem innihéldu sveppa- og mygludrepandi efni.

Hitakerfi

Engir hitaofnar er að finna í búsetukjarnanum að Háteigsvegi 59. Hitakerfi (heitt vatn) var lagt í öll gólf innandyra (fyrir utan stiga milli hæða), í steypta útiverönd og í steyptan inngang. Múrflot var lagt ofan á hitakerfið innandyra, og á það voru annaðhvort límdar steinhellur eða gegnheilt parket.

Fjölmargir kostir fylgja því að leggja hitakerfið í gólfið. Til dæmis taka hitaofnar pláss sem annars væri hægt að nýta í annað. Að sleppa hitaofnum býður upp á fjölbreyttari möguleika við röðun húsgagna. Auk þess tryggir gólfhiti jafnari hitun í rými, ásamt öðrum kostum.

Hljóð- og varmaeinangrandi mottur úr Marhálmi

Undir steypt þak í íbúðum á þriðju hæð búsetukjarnans Háteigsvegi 59 voru límdar hljóð- og varmaeinangrandi mottur úr graskenndri jurt af marhálmsætt, Marhálmi (da. eelgrass).

Marhálmur vex í sjó á grunnum, leirkenndum botni og er víða að finna, til dæmis við vesturströnd Íslands. Marhálmur hefur stakstæð, dökkgræn, bandlaga, 2-4 mm, beinstrengd blöð, með bylgjóttum jaðri sem eru ávöl í endann.

Motturnar voru framleiddar í Danmörku úr þarlendu hráefni af danska fyrirtækinu Søuld. Fyrirtækið var stofnað árið 2010 og byggir framleiðslan á endurlífgun og uppfærslu á 400 ára gamalli vinnsluaðferð á Marhálmi.

Sould framleiðir mottur ætlaðar fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Motturnar fást í ýmsum þykktum (18, 35, 40 og 70 mm)  Samkvæmt vefsíðu Sould henta vörurnar vel þar sem huga þarf að hljóð-, hita- og rakastjórnun. Fullyrt er að þær innihaldi engin eitruð efni og kolefnisspor þeirra er lítið.

Motturnar sem settar voru  upp að Háteigsvegi 59 voru 35 mm þykkar. Lengd og breidd voru 600 x 1100 mm. Hægt var að fá motturnar sérsniðnar en staðlaðar stærðir voru 600 x 1100 mm, 1500 x 1100 mm og 3000 x 1100 mm.

Á heimsíðu Søuld má finna eftirfarandi upplýsingar: 

Hljóðmottur frá Søuld veita einstaka hljóðeinangrun og eru fjaðrandi en mjúkar viðkomu. Þær bjóða upp á hlýja og áferðarfallega upplifun með fíngerðum sjávarilmi sem minnir á hafið. Náttúruleg fegurð marhálms veitir
rými, ró og tengingu við náttúruna innandyra.

Mjúkar marhálsmtrefjarnar í mottunum innihalda fjölda smárra loftpúða sem hjálpa til við að stöðva og dreifa hljóðbylgjum sem lenda á yfirborði efnisins.

Motturnar eru framleiddar úr kolefnisbindandi trefjum sem hjálpa til við að geyma kolefni yfir líftíma byggingarinnar. Framleiðslan fer fram í Danmörku með ábyrgum hætti og vörurnar eru hannaðar með hringrásarhagkerfið í huga.

Hljóðmottur frá Søuld eru einfaldar og nútímalegar sem gerir þær sérlega sveigjanlegar í notkun. Þær henta jafnt íbúðarhúsnæði sem atvinnuhúsnæði, stórum sem smáum rýmum. Uppsetning þeirra er einföld og fljótleg, og gæðin tryggja varanleg þægindi.

Talið var að íbúðarkjarninn að Háteigsvegi sé fyrsta mannvirkið hérlends þar sem vörur Sould eru notaðar.

Uppsetning

Lím var borið á bakhlið hverrar mottu og þær límdar beint á steypta þakplötuna (innandyra). Ekkert bil var haft á milli aðliggjandi motta. 

Frágangur loftræstisamstæðu

Loftræstisamstæða og stokkar voru fyrir ofan við niðurhengt loft á baðherberjum. Þar af leiðandi var sett klæðning undir samstæðuna. Í flestum tilfellum var um að ræða timburklæðningu (22×120 mm greni) á grind. Í einstaka tilfellum var um að ræða gataða járnamottu.

Í tveimur íbúaðanna var lofthæð í baðherbergjum lægri en 2,50m. Það markaðist meðal annars af því ein íbúðanna lá undir sameiginlegum þaksvölum. Þegar loftræstisamstæða var sett undir lofthæðina 2,5m lækkar lofthæðin enn frekar. Í þeim tilfellum voru járnamottur notaðar. Tilgangurinn með að nota gataða járnamottu var að hækka lofthæðina þar sem hægt var að sjá í steypta plötuna fyrir ofan í gegnum götin.

Loftræsisamstæðan var látin ná út fyrir veðurkápuna, það er loftinntak lá varið utan á timburklæðningu búsetukjarnans.

Innbrot

Því miður eru innbrot í mannvirki á framkvæmdartíma og þjófnaðir á verkfærum veruleiki sem iðnaðarmenn og verktakar þekkja vel. Alltof algengt er að óviðkomandi fari inn á verkstað í óleyfi.

Á framkvæmdartíma voru þrjú innbrot framin að Háteigsvegi 59 þrátt fyrir að vinnusvæðið væri allt girt af og læst með færanlegri járngirðingu (3,5m að lengd og 2m að hæð á steyptum stöplum). Brotist var inn í aðra útigeymsluna, og í tvígang var verkfærum á verkstað stolið.

Engu var stolið úr útigeymslunni, en ummerki bentu til þess að óviðkomandi hafi leitað sér skjóls. Hins vegar var útihurðin spennt upp með grófu verkfæri og læsingin skemmd. Skemmdirnar voru því umtalsverðar.

Verkfæri voru tekin úr læstum verkfæragám, það er verkfæri frá tilteknum framleiðanda, og einnig á verkstað á vinnutíma. Umtalsvert fjárhagslegt tjón hlaust af, bæði fyrir iðnaðarmenn og verktaka.

Þjófnaður á verkfærum felur í sér tvenns konar tjón fyrir iðnaðarmenn og verktaka. Annars vegar eru verkfæri dýr. Verð einnar rafhlöðu í rafmagnsverkfæri getur sem dæmi hlaupið á tugum þúsunda. Hins vegar þýðir þjófnaður á verkfærum kostnaðarsamt vinnutap til skemmri eða lengri tíma. Erfitt er að halda verkum áfram vanti verkfærin. 

Um hvimleiðan og vel þekktan hluta mannvirkjagerðar er að ræða. Séu verkfæri eða verðmætar vörur skildar eftir á verkstað má búast við afleiðingum. Því er mikilvægt fyrir alla sem koma að mannvirkjagerð að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir þjófnað og/eða skemmdir.

Hægt er að grípa til ýmissa varúðarráðstafana, svo sem:

  • Nota öflugt eftirlitskerfi, með fyrirvara um að notkun þess sé í samræmi við persónuverndarlög (sjá nánar á vef Persónuverndar).
  • Kynna sér tryggingar sem geta náð yfir verkfæri og aðrar eignir sem geymdar eru á verkstað.
  • Tryggja að afskriftir verkfæra séu hluti af fjárhagslegum rekstri verktaka.
  • Geyma verkfæri og önnur verðmæti við réttar aðstæður.
  • Íhuga vöktun öryggisstarfsmanna.
  • Virkja nágrannavörslu (sjá nánar á heimasíðu lögreglunnar).

Viðskilnaður á verkstað

Við lok mannvirkjagerðar þarf að fjarlægja vinnuskúra, verkfæri og þær byggingarvörur sem nýtast ekki. Stór hluti mannvirkjagerðarinnar að Háteigsvegi 59 gekk út á endurnýtingu og endurvinnslu efna. Þar af leiðandi hefði hringrásarhagkerfið, til dæmis, átt að taka við afgöngum á borð við aukatimbur, skrúfur, læsingar og bindivír.

Mikilvægt er að huga að framangreindu. Sem dæmi er hægt að semja við birgja um að taka við heilum og/eða ónotuðum vörum. Hægt er að reyna að koma ónýttum byggingarvörum í verð eða nýta þær í önnur verk.

Við lok framkvæmda að Háteigsvegi 59 stóð einn verktakanna frammi fyrir verkefnaleysi. Viðkomandi ákvað að segja upp öllu sínu starfsfólki og leggja fyrirtækið í dvala. Margt af því sem tilheyrði verktakanum, meðal annars húsgögn úr vinnuaðstöðu, fatnaður starfsmanna, ýmsar ónotaðar byggingarvörur, eldhústæki og fleira, endaði í ruslagám við Háteigsveg 59.

Framangreind ákvörðun var tekin af viðkomandi verktaka og er á hans ábyrgð. 

Ákvörðun verktakans er umhugsunarverð þar sem heildarferlið við mannvirkjagerðina að Háteigsvegi gekk meðal annars út á endurnýtingu og endurnotkun efna.

Viðskilnaður á verkstað, til dæmis frágangur þeirra byggingarvara sem verða afgangs, hlýtur að vera hluti af heildarmynd vistvænnar mannvirkjagerðar.

 

Umsagnir verktaka

Breytingum fylgir oft óvissa. Verktakar og aðrir sem koma að mannvirkjagerð byggja starfsemi sína hins vegar á vissunni, á því fyrirséða. Því meira sem er vitað, því betra. Með því er hægt að gera raunhæfar verkáætlanir, skipuleggja tíma starfsmanna, reikna út kostnað og svo framvegis.

Byggingarvörur og lausnir verða að vera tiltækar á réttum tíma

Flestir verktakanna voru almennt áhugasamir um notkun endurnýtra efna. Þeir gerðu sér grein fyrir að ferlið feli í sér nám og þannig útvíkkun á reynslu þeirra. Á móti kom að óvissan um hvaða byggingarefni kæmu, hvenær þau bærust á verkstað og hvernig ætti að vinna þau truflaði ferlið á köflum. Þegar unnið er með hringrásarhagkerfið eða nýjar lausnir er nauðsynlegt að búið sé að svara öllum spurningum og leysa hugsanleg vandamál áður en að verkþætti kemur.

Tryggja þarf að hráefni til mannvirkjagerðar sé tiltækt með góðum fyrirvara. Einnig þarf að liggja fyrir hvernig vinna á með það. Þetta á sérstaklega við um endurnýttar byggingarvörur. Kostnaður við starfsmenn sem skila engri framlegð getur orðið verulegur á skömmum tíma.

Ný nálgun getur þýtt aukinn kostnað

Sé farið aðrar leiðir en þær þekktu og hefðbundnu við mannvirkjagerð er skynsamlegt að gera ráð fyrir auknum framkvæmdakostnaði, þó það eigi ekki alltaf við. Sérhæfðar lausnir geta verið dýrari en stöðluðu lausnirnar. Til dæmis þurfti að hanna og sérsmíða gasbrennara fyrir utanhúsklæðninguna. Kostnaður við gerð brennarans nam um 500.000 krónum (á verðlagi ársins 2024).

Aukakostnaður getur einnig falist í aukinni vinnu við að útvega byggingarefni, þar á meðal bið starfsmanna á launum eftir efni eða undirbúningur hráefnis til vinnslu.

Verkkaupi, hönnuður og verktakar þurfa að gera með sér skýrt samkomulag strax í upphafi verks varðandi hugsanlegan aukakostnað.

Þess ber að geta að þegar horft er til heildarkostnaðar í samhengi við sambærilegt mannvirki, byggt á hefðbundinn hátt, er ekki sjálfgefið að heildarkostnaður verði hærri. Þó að einstakir verkliðir, líkt og umsýsla, séu dýrari getur hráefnið verið það ódýrt að heildarkostnarinn jafnast út.

Heildarkostnaðurinn við byggingu búsetukjarnans að Háteigsvegi var ekki hærri en kostnaður við byggingu sambærilegs húss á hefðbundinn hátt.

Umhverfislegur ávinningur af byggingu Háteigsvegar 59 var hins vegar ótvíræður.

Ný nálgun getur þýtt samstarf um lausnir og hugsanlega málamiðlun

Verkkaupi þarf að gera sér grein fyrir að markaðurinn er ekki alltaf tilbúinn að mæta öllum þörfum og óskum. Tiltekinn sveigjanleiki þarf því að vera til staðar.

Sem dæmi var gripið til þess að nota innflutta steinull á útveggi búsetukjarnans í stað steinullar framleiddrar á Íslandi. Hefði sú leið ekki verið farin hefði verkið getað tafist um ófyrirséðan tíma með tilheyrandi aukakostnaði og óhagræði.