Hluti af kolefnisspori mannvirkjagerðar stafar af bruna jarðefnaeldsneytis í vinnuvélum og almennri orkunotkun við byggingarframkvæmdir. Flytja þarf byggingarvörur á framkvæmdastað og vinna þær frekar svo þær henti áætlaðri notkun.
Ef horft er til orkugjafa í mannvirkjagerð, eru þeir að stærstum hluta þrenns konar: jarðefnaeldsneyti, rafmagn og varmi.
Á framkvæmdartíma var lögð áhersla á að minnka kolefnisspor tækja, véla og verkfæra. Reynt var að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis þar sem það átti við. Byggingarkrani á verkstað var rafmagnsknúinn, og vinnuvélar og verkfæri voru nýlegar gerðir sem nota minni orku og gefa frá sér minni útblástur en eldri tæki. Í sumum tilfellum voru byggingarvörur sendar á verkstað með rafmagnsbílum. Lausagangur véla var lágmarkaður, og gerð var krafa um ábyrg og meðvituð vinnubrögð verktaka. Að auki var lögð áhersla á notkun staðbundinna og endurunninna byggingarefna, og efni eins og timbur voru endurnotuð þar sem mögulegt var.
Orkusparandi vinnubrögð voru einnig nýtt, til dæmis með notkun steypufleka við uppslátt og með geymslu byggingarvara í nálægð við framkvæmdastað.
Tækniframfarir hafa aukið möguleika á betri orkunýtingu. Í dag er hægt að flytja steypu með rafmagnsknúnum steypubílum, rafmagnsflutningabílar eru algengari, og flest verkfæri eru rafmagnsknúin.
Ýmsar aðferðir geta dregið úr orkunotkun, svo sem notkun sparpera, að slökkva á rafmagnstækjum þegar þau eru ekki í notkun, velja hljóð- og varmaeinangrandi efni og stytta baðtíma. Þó þessar aðgerðir virðist smávægilegar, geta þær samanlagt haft veruleg áhrif ef þær eru innleiddar í mörgum mannvirkjum (sjá nánar í lokaritgerð Ragnheiðar Ásbjarnardóttur frá 2010: Orkunotkun heimila á Íslandi og mögulegur sparnaður).
Vegna hitamunar milli inni- og útihita tapar hús orku. Orkutapið má að mestu rekja til leiðni og loftskipta, en einnig verður smávægilegt tap vegna frárennslis vökva. Til að halda stöðugum hita innandyra þarf húsið að taka inn orku. Hluti hennar kemur frá íbúum, sólinni, raforku og hitakerfi hússins (sjá nánar Rb-blaðið Orkunotkun húsa – ástandskönnun 2005). Orkuþörf til húshitunar ræðst bæði af gæðum hússins og venjum íbúanna.
Við notkun mannvirkja er hægt að spara orku með ýmsum aðgerðum, eins og að tímastilla hreyfiskynjara svo ljós kvikni aðeins þegar þörf er á, nota LED-ljós, bæta þéttingu og einangrun húsa og spara heitt vatn.
Á Háteigsvegi 59 voru gerðar ýmsar ráðstafanir til að draga úr orkunotkun. Til dæmis voru uppsett marhálsmottur í loftin sem bæði veita hljóð- og varmaeinangrun. Húsið var einangrað að utan með steinull, og inngangshurð var varin þannig að varmatap væri í lágmarki.