Tímalína

Segja má að ferlið við byggingu búsetukjarnans, Háteigsvegi 59, hafi formlega hafist 23. apríl 2021. Þann dag var auglýst eftir arkitektum til að hanna búsetukjarnann. 

Húsið var formlega tekið í notkun í árslok ársins 2024.

Að undirbúningstímabili loknu var sett fram tímaáætlun varðandi einstaka verkþætti. 

Tímaáætlun

Góð tímaáætlun skiptir mjög miklu máli í mannvirkjagerð. Um er að ræða skiplagt og skjalfest ferli sem felur í sér greiningu og tímaramma fyrir mismunandi verkþætti sem vinna þarf. Tímaáætlun er mikilvægur hluti af verkefnastjórnun í byggingariðnaði og þjónar sem verkfæri til að tryggja að verkefni verði kláruð á tilsettum tíma, innan kostnaðaráætlunar og í samræmi við framsettar grunnkröfur í byggingarreglugerð, lögum um byggingarvörur (sjá viðauki 1, Grunnkröfur um mannvirki) og gæðakröfum verkkaupa.

Hlutverk og tilgangur tímaáætlunar

  • Skipulagning: Hjálpar til við að kortleggja alla verkþætti og raða þeim í rökrétta tímaröð.
  • Framvinda: Veitir yfirlit yfir framvindu verkefnisins og auðveldar stjórnun og eftirfylgni.
  • Samskipti: Tryggir að allir sem koma að verkinu hafi skýra mynd af tímasetningum og ábyrgð.
  • Áhættuvarnir: Gerir kleift að bera kennsl á hugsanlegar tafir og grípa inn í til að lágmarka áhrif þeirra.
  • Kostnaðareftirlit: Lækkar líkur á aukakostnaði sem stafar af óvæntum töfum.

Hvað inniheldur tímaáætlun?

  1. Verkþáttagreining: Öll verkefni, stór og smá, eru skráð og skilgreind.
  2. Tímasetningar: Áætlaður tími fyrir hvern verkþátt.
  3. Röðun verkefna: Hvernig verkþættir tengjast, til dæmis hvaða verkefni þarf að klára áður en önnur geta hafist.
  4. Auðlindastjórnun: Hvaða vinnuafl, tæki og hráefni þarf til að klára hvern verkþátt á tilsettum tíma.
  5. Áfanga- og lokadagsetningar: Tímasett markmið sem þarf að ná til að tryggja heildarframgang verksins.

Mikilvægi tímaáætlunar

Góð tímaáætlun getur aukið skilvirkni, komið í veg fyrir óþarfar tafir, lækkað kostnað og stuðlað að betri samvinnu allra aðila sem koma að mannvirkjagerð. Hún er þannig lykilatriði í því að ná árangri í byggingarframkvæmdum.

Háteigsvegur 59

Verkþættir voru skilgreindir í tíu hluta. Verkþættirnir voru (í réttri tímaröð): aðstöðusköpun, jarðvinna, uppsláttur, lagnir, gluggar, klæðning, þak, frágangur innanhúss, frágangur utanhúss og lóð.

Gert var ráð fyrir að framkvæmdir hæfust í viku 19 árið 2023 og að verkinu lyki í lok viku 34 árið 2024.

Áætlunin stóðst ekki. Framkvæmdir tóku lengri tíma en stefnt var að. Ástæður þess voru ýmsar. Sem dæmi lá vinna að stærstum hluta niðri yfir áramótin 2023-2024. Mannvirkjagerð á Íslandi var á þessum tíma að stórum hluta borin upp af erlendu vinnuafli sem að stórum hluta fór til síns heimalands yfir jól og áramót. Framangreint hafði sem dæmi áhrif á framgang verksins. Einnig varð töf á öflun hráefna í einhverjum tilfellum, stundum voru gerðar breytingar á hönnun svo dæmi séu tekin.

Vika 34 var í lok ágúst. Þann tíma var enn verið að vinna í frágangi innan- og utanhúss. Lítil sem engin vinna hafði átt sér stað varðandi lóðina.