Search
Close this search box.

Reglugerðardrög um lífsferilsgreiningar komin í samráð

Við gleðjumst nú yfir því að í Samráðsgátt hafa verð birt drög að breytingum á byggingarreglugerð sem fela í sér innleiðingu ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja, í samræmi við aðgerð 5.1.3. í aðgerðaáætlun Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð. Gert er ráð fyrir því að HMS gefi út leiðbeiningar um samræmda aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga og að þær verði unnar á grunni þeirra tillagna sem eru til umsagnar með drögunum að reglugerðarbreytingunni.

Breytingatillögurnar felast í stuttu máli í eftirfarandi:

  • Frá og með 1. september 2025 verði gerð krafa um gerð og skil lífsferilsgreininga fyrir öll ný mannvirki í umfangsflokkum 2 og 3, skv. 1.3.2. gr. byggingarreglugerðar.

  • Lagt er upp með að eigandi (eða fulltrúi hans) skili lífsferilsgreiningum í rafræna skilagátt á vegum HMS bæði á hönnunarstigi (fyrir umsókn um byggingarleyfi) og á lokastigi (fyrir lokaúttekt).

  • HMS sendi eiganda (eða fulltrúa hans) til baka staðfestingu á móttöku lífsferilsgreininganna. Frá og með 1. september 2025 verði sú staðfesting hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir svo byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi eða að fari í lokaúttekt.

  • Eftirliti verði háttað með því að HMS velji lífsferilsgreiningar með slembivali til sérstakrar yfirferðar.

  • Ekki verði gerð krafa um að þeir aðilar sem geri lífsferilsgreiningar þurfi að hafa lokið tilteknu námi eða hafi sérstök réttindi. Hins vegar er lagt til að notaður verði hugbúnaður fyrir LCA greiningar til að tryggja gæði gagna, rekjanleika og einfalda LCA sérfræðingum og hönnuðum vinnuna. Ekki verði gerð krafa um notkun á ákveðnum hugbúnaði umfram annan en ýmsar hugbúnaðarlausnir eru á markaði sem þegar eru nýttar á Íslandi, bæði fríar (eins og danska lausnin LCAbyg) og sem greitt er fyrir.

  • Aðlögunartími verður frá mars 2024 til ágúst 2025. Þ.e. lagt er upp með að opnað verði fyrir ferlið í mars 2024, þannig að við getum öll byrjað að æfa okkur í því áður en til gildistöku kemur; hvort sem það eru hönnuðir, verktakar, byggingarfulltrúar, HMS eða aðrir. Á tímabilinu verði unnið eftir sérstakri fræðsluáætlun til að stuðla að því að hagaðilar fái reynslu við gerð og skil lífsferilsgreininga og að þeir fái vettvang til að skiptast á þekkingu og reynslu í því sambandi áður en krafan tekur gildi.

Þess má geta að tilgangur þess að skila greiningum á hönnunarstigi stuðla að því að greiningar séu gerðar snemma, en því fyrr sem upplýsingar um áætlað kolefnisspor mannvirkja liggja fyrir, því auðveldara er að taka upplýstar ákvarðanir sem eru til þess fallnar að draga úr losun. Það að skila einnig á lokastigi er til að tryggja að hægt verði að taka saman upplýsingar um raunlosun við íslenska mannvirkjagerð svo hægt sé að reikna út losunarviðmið með góðu móti og fylgjast með þróun losunar.

Drögin að reglugerðarbreytingunum, tillögur að samræmdri aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga og frekari upplýsingar um þá vinnu má nálgast á vef Samráðsgáttar.

Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur málið og senda inn umsögn eftir atvikum. Umsagnartíminn er 7.-28. febrúar 2024.

Elín Þórólfsdóttir elin.thorolfsdottir@hms.is og Elísabet Vilmarsdóttir elisabet.vilmarsdottir@hms.is munu hafa umsjón með þessari innleiðingu af hálfu HMS og veita frekari upplýsingar.

Ekki hika við að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna vegna þessa.