Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og frumkvöðull í sjálfbærri mannvirkjagerð, hefur hlotið Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þverfaglega nálgun sína og áherslu á að draga úr kolefnislosun í byggingariðnaði og endurnotkun byggingarvara.
Dómnefnd verðlaunanna lofar Arnhildi fyrir hennar framlag til sjálfbærni, hvort sem það er í borgarskipulagi, hönnun einstakra bygginga eða framkvæmdarferli. Hún hefur sett skýran fókus á hringrásarhagkerfið, kolefnishlutleysi og vistvænan lífsstíl með áherslu á almenningssamgöngur og deilihagkerfi.
Auk þess að stýra eigin fyrirtæki, s.ap arkitektar, hefur Arnhildur tekið við stjórn Lendager á Íslandi, danska fyrirtækis sem sérhæfir sig í hringrásarhugsun. Hún vinnur einnig að nýstárlegri rannsókn á notkun hrauns í byggingar, sem hún mun kynna á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025.
Nánar má lesa um verðlaunin hér. : https://www.norden.org/is/nominee/handhafi-umhverfisverdlauna-nordurlandarads-2024