4.10. Gefa út leiðbeiningar um ábyrgt niðurrif

Upplýsingar um aðgerð skv. II. hluta Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð, útg. í júní 2022:

Unnar verði leiðbeiningar á grundvelli reynslu íslenskra hagaðila og erlendis frá, um hvernig rífa megi niður mannvirki þannig að sem mest verðmæti haldist í byggingarefnum. Fundnar verði leiðir þannig að verðmæti rýrni ekki, efnin séu nýtt þar sem þau eru verðmætust og förgun sé í lágmarki. Byggt verði meðal annars á rannsóknarverkefnum Grænni byggðar um byggingarúrgang og leiðbeiningum heilbrigðiseftirlitsins um niðurrif húsa og annarra bygginga. Skoða hvort hægt sé að setja kröfu um skil á ástandi húss sem fyrirhugað er að rífa, fyrir útgáfu leyfis um niðurrif. Þannig verði metið hvort ástand hússins kalli á niðurrif. Einnig skoða kröfu um að áætlun um endurnotkun byggingarefna fylgi með.

Markmið: Að stuðla að því að við niðurrif og undirbúning þeirra sé ávallt tekið tillit til hringrásarhagkerfisins, það er endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar á þeim byggingarefnum og byggingarhlutum sem falla til.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Samstarfsaðilar: HMS, hönnuðir, byggingarverktakar, móttökuaðilar úrgangs, endurvinnslufyrirtæki, menntastofnanir.

Tími: 2023-2024.

Staðan febrúar 2024

Aðgerð lokið.

Þessar leiðbeiningar voru unnar í tengslum við aðgerð 4.10 í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð, sem gefinn var út í júní 2022. Aðgerðin kveður á um mikilvægi þess að meðhöndla byggingar- og niðurrifsúrgang með áherslu á úrgangsforvarnir, endurnotkun og endurvinnslu. Leiðbeiningarnar byggja á reynslu innlendra og erlendra aðila og eru settar fram sem tæki til að styðja við hringrásarhagkerfið í byggingariðnaði.

Markmið: Að tryggja að ákvarðanir um uppistandandi byggingar, hvort sem þær fela í sér endurbætur eða niðurrif, taki mið af sjálfbærri meðhöndlun efna. Þetta felur í sér skipulagningu sem miðar að því að draga úr úrgangi, hámarka endurnotkun og stuðla að hringrás byggingarefna.

Efni leiðbeininganna:

  1. Forskoðanir fyrir endurbætur, endurbyggingu eða niðurrif (“úrgangsúttektir”): Þessar skoðanir hjálpa til við að meta möguleika á endurnotkun og endurvinnslu áður en framkvæmdir hefjast. Þær snúast um að safna gögnum um byggingarvörur og efni, meta skaðleg efni og útbúa áætlanir fyrir örugga meðhöndlun.
  2. Sértækt niðurrif: Nákvæmar aðferðir til að fjarlægja efni og vörur til að hámarka nýtingu þeirra og draga úr úrgangi. Lögð er áhersla á að greina efni sem hægt er að endurnýta og tryggja rétta flokkun og meðhöndlun.

Leiðbeiningarnar veita einnig hagnýtar upplýsingar um bestu starfsvenjur, almenn skref í forskoðun og sértæku niðurrifi, og dæmi um útfærslur í öðrum löndum. Þær eru verkfæri fyrir hönnuði, verktaka og aðra hagsmunaaðila sem vilja taka skref í átt að vistvænni framkvæmdum.

Leiðbeiningarnar verða birtar á vefsíðunni Hringvangur á næstu dögum og verða aðgengilegar bæði á íslensku og ensku.

Lokaafurð aðgerðar

Annað tengt efni

Askur – mannvirkjarannsóknasjóður, úthlutun ársins 2023 (sjá Fleygrúnir hringrásar mannvirkja, síður 38-39).

Tengiliður

Elín Þórólfsdóttir, HMS, elin.thorolfsdottir@hms.is
Katarzyna Anna Jagodzińska, Grænni byggð, kjag@graennibyggd.is
Ragnar Ómarsson, sérfræðingur hjá Verkís, rom@verkis.is