Nú fer að síga á seinni hlutann í þessum fasa samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð og ekki úr vegi að fara yfir þróun mála að undanförnu:
- Í lok apríl skiluðu fimm hópar spennandi tillögum að 75 aðgerðum sem stuðla eiga að vistvænni mannvirkjagerð fyrir 2030 (sjá nánar um hópskiptinguna á Byggjumgraenniframtid.is). Hátt í 200 sérfræðingar víðsvegar að úr virðiskeðju byggingariðnaðarins komu að þeirri vinnu með einum eða öðrum hætti, og er þeim öllum þakkað kærlega fyrir þeirra verðmæta innlegg. Í framhaldinu skipaði verkefnastjórn BGF eftirfarandi einstaklinga í ritstjórn, til að vinna úr tillögunum og setja saman heildrænan aðgerðapakka í Vegvísi í átt að vistvænni mannvirkjagerð 2030: Birgittu Stefánsdóttur (Umhverfisstofnun), Bryndísi Skúladóttur (VSÓ, f.h. SI), Þóru Margréti Þorgeirsdóttur (HMS) og Þórhildi Fjólu Kristjánsdóttur (Grænni byggð).
- Meðfram þeirri vinnu hefur ritstjórnin verið í samskiptum við hátt í 30 hagaðila, til að kanna áhuga þeirra á koma að framkvæmd þeirra aðgerða sem lagðar verða fram í Vegvísinum. Undirtektirnar hafa í öllum tilfellum verið jákvæðar. Verkefnastjórnin ákvað að verja góðum tíma í slíkt samtal og samráð áður en Vegvísirinn yrði lagður fram opinberlega til umsagnar. Það hefur leitt til þess að hann fer ekki í umsagnarferli fyrr en í seinni hluta ágúst, í stað júní eins og ráðgert var í upphafi. Frekari upplýsingar um það skref verða settar fram á þessum vettvangi þegar nær dregur. Stefnt er að því að gefa svo Vegvísinn formlega út í september.
- Samhliða þessari vinnu hefur hópur 6 unnið að mati á losun byggingariðnaðarins. Þann 1. júní sl. var haldin opin málstofa á Teams þar sem fulltrúar hópsins kynntu niðurstöður sínar og þá aðferðarfræði sem þau beittu við verkefnið. Í framhaldinu fóru fram umræður meðal fundargesta. Upptöku af viðburðinum má nálgast meðal annars hér. Niðurstöður hópsins verða að sjálfsögðu kynntar sérstaklega í Vegvísinum þegar hann kemur út.
- Að lokum má benda á að auglýst er eftir sérfræðingi í vistvænni mannvirkjagerð, til að fylgja aðgerðum BGF úr hlaði þegar Vegvísirinn hefur verið gefinn út. Allir áhugasamir eru hvattir til að sækja um en hér má nálgast auglýsinguna: Stjórnarráðið | Sérfræðingur í vistvænni mannvirkjagerð (stjornarradid.is)