Árangursrík vinnustofa um samræmingu lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar

Eins og fram hefur komið er að hefjast vinna við mótun samræmdrar aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga fyrir byggingar á Íslandi, í samræmi við aðgerð 5.1.3. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð. Vegvísirinn kom út í júní 2022 á vegum Byggjum grænni framtíð, samstarfsverkefnis stjórnvalda og hagaðila byggingariðnaðarins um vistvænni mannvirkjagerð (sjá nánar https://byggjumgraenniframtid.is/utgefid-efni/).

Sérstakur stýrihópur hefur verið myndaður um þetta tiltekna verkefni en í honum sitja: Alexandra Kjeld (EFLA og Grænni byggð), Helga María Adólfsdóttir (VSÓ Ráðgjöf,) Ólafur Ögmundarson, (HÍ), Viggó Magnússon (Arkís og HR) og Olga Árnadóttir (HMS).

Af þessu tilefni boðaði HMS til opinnar vinnustofu á Grand hóteli þann 11. ágúst sl. í þeim tilgangi að fá innlegg frá hagaðilum fyrir komandi vinnu.

Á fyrri hluta vinnustofunnar hlýddu þátttakendur á erindi þeirra Hörpu Birgisdóttur, prófessors við Álaborgarháskóla, og Matti Kuittinen, arkitekts og sérfræðings hjá finnska umhverfisráðuneytinu. Glærur þeirra má nálgast hér. Þess má geta að Harpa og Matti eru í fararbroddi hvað varðar þróun og innleiðingu lífsferilsgreininga á Norðurlöndunum. Eftir kaffihlé voru skipulagðar umræður meðal þátttakenda um samræmda aðferðafræði við gerð lífsferilgreinina fyrir byggingar á Íslandi.

Vinnustofan þótti takast mjög vel en rúmlega 50 manns mættu á hana og tóku þátt í líflegum umræðum.

Það efni sem fram kom í umræðum á vinnustofunni mun stýrihópurinn nýta í þeirri vinnu sem fram undan er. Einnig fékk hópurinn góð og gagnleg ráð frá þeim Hörpu og Matti, bæði á vinnustofunni og á sérstökum vinnufundi sem haldinn var að lokinni vinnustofunni.

Miðað er við að stýrihópurinn verði að störfum fram á vor 2023 og að hann muni hafa áframhaldandi samráð og samtal við hagaðila byggingargeirans á meðan verkefninu stendur, m.a. með fleiri vinnustofum sem kynntar verða sérstaklega þegar þar að kemur.

Þau sem vilja fylgjast með þessu tiltekna verkefni stýrihópsins og fá upplýsingar um framgang þess eru eindregið hvött til að skrá sig á póstlista samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð og/eða hafa samband við Olgu Árnadóttur, sérfræðing á nýsköpunarteymi HMS, með tölvupósti á netfangið olga.arnadottir@hms.is.