6.2. Efla umræður og fræðslu á samstarfsvettvangi sveitarfélaga um græna fjármögnunarmöguleika sveitarfélaga og hagræna hvata sem þau geta boðið upp á fyrir vistvæna mannvirkjagerð

Sveitarfélög (sem aðilar með stjórnsýslu- og skipulagsvald og eigendur mannvirkja) hafa fjölda tækifæra til að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð með sérstökum hvötum. Flest sveitarfélaganna eru að taka sín fyrstu skref í þessu sambandi og því nauðsynlegt að skapa vettvang þar sem sveitarfélögin geta miðlað og deilt reynslu sinni og þekkingu, og um leið tekið við hugmyndum frá aðilum mannvirkjageirans.

Markmið: Að styrkja sveitarfélögin í uppbyggingu hvata fyrir vistvæna mannvirkjagerð með samtali.

Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga og SI.

Tími: 2022 og áfram.

6.1. Tillaga til fjármálaráðuneytis um opinbera hvata fyrir vistvæna mannvirkjagerð

Hvatarnir gætu verið á formi afslátta, ívilnana, gjaldsetningar og skatta. Tillögurnar byggjast á víðtæku samráði við hagaðila í byggingariðnaðinum og úrvinnslu samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð.

Markmið: Að skapa fjárhagslega og faglega umgjörð sem stuðlar að loftslagsvænni hönnun, byggingu, reksturs og niðurrifs mannvirkja.

Ábyrgð: SI og HMS.

Tími: 2021.

5.3.6. Leiðbeiningar og gagnabanki um loftslagsmiðað skipulag

Unnar verði leiðbeiningar og gagnabanki fyrir loftslagsmiðað skipulag sem styður við samdrátt losunar gróðurhúsaloftegunda frá byggð, samgöngum og landnotkun ásamt aukinni kolefnisbindingu. Hægt verði að leita í leiðbeiningar og gagnabanka á einfaldan hátt.

Markmið: Að auka þekkingu, deila reynslu og nýta mannauð á skilvirkan hátt svo loftslagsmál fái fljótt sess í skipulagsvinnu.

Ábyrgð: Skipulagsstofnun.

Tími: 2022-2023.

5.3.5. Löggjöf um skipulag rýnd m.t.t. til loftslagsmála

Lög og reglugerðir um skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum verði rýnd m.t.t. settra markmiða í loftslagsmálum. Meðal annars verði skoðað hvort setja megi ákvæði í skipulagslög um að við skipulagsvinnu verði kolefnisspor haft að leiðarljósi. Í því sambandi verði til dæmis horft til lífsferilsgreininga og samgöngumats, en einnig til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Skipulagsverkefni sveitarfélaga verði þannig unnin með áherslu á loftslagsvæna byggð og umhverfi.

Markmið: Að löggjöf um skipulag þróist þannig að til staðar verði skýr hvatning og grundvöllur fyrir loftslagsmiðaða skipulagsgerð. Að nýtt séu tækifæri við skipulagsvinnu til að skipuleggja loftslagsvæna byggð og hafa þannig áhrif á losun samfélaga.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og Skipulagsstofnun.

Tími: 2022-2023.

5.3.4. Tillaga að endurskoðaðri landsskipulagsstefnu 2015-2026 lögð fram og samþykkt

Hluti af þeirri tillögu fjallar um loftslagsmiðað skipulag, með markmiðum og aðgerðum sem miða meðal annars að því að skipulag byggðar, samgangna og landnotkunar stuðli að kolefnishlutleysi.

Markmið: Að setja fram stefnu og aðgerðir sem vinna að loftslagsmálum við skipulagsgerð.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og Skipulagsstofnun.

Tími: 2022-2023.

5.3.3. Gefa út handbók um skipulag og hönnun í kringum hringrásarhagkerfið

Handbók fyrir skipulags- og byggingarfulltrúa, hönnuði, arkitekta og aðra ráðgjafa, með lykilupplýsingum um rými og aðgengi í kringum flokkun og skil úrgangs (meðal annars byggingar- og niðurrifsúrgangs) ásamt dæmum um gott skipulag og hönnun. Fjallað verður bæði um flokkun og hirðu við heimili og hjá lögaðilum en líka á grenndarstöðvum og söfnunar- og móttökustöðvum. Slíkar handbækur eru vel þekktar í nágrannalöndunum.

Markmið: Að hið byggða umhverfi hvetji til og styðji við markmið hringrásarhagkerfisins með góðu skipulagi og hönnun í kringum flokkun og skil úrgangs og aðra tengda þætti.

Ábyrgð: Skipulagsstofnun, HMS og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur hafinn.

Tími: 2022-2023.

5.3.2. Gefa út leiðbeiningar um útfærslu 20 mínútna bæja og hverfa

Leiðbeiningar um sjálfbært skipulag þéttbýlis og útfærslu 20 mínútna bæja og hverfa verði unnar og kynntar sveitarfélögum og hönnuðum. Þar verði sjónum meðal annars beint að sterkari nærþjónustu, eflingu vistvænna samgöngumáta, bættri aðstöðu til útivistar og móttöku úrgangs ásamt því að atvinna sé staðsett þannig að dregið sé úr ferðaþörf.

Markmið: Að bæta þekkingu á loftslagsmiðuðu skipulagi sem styður við vistvænan lífsstíl íbúa.

Ábyrgð: Skipulagsstofnun og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021-2022.

5.3.1. Samnýta fyrirliggjandi innviði til að draga úr þörf á mannvirkjagerð í Reykjavík

Það verði gert með áherslum á:
15 mínútna hverfi: Í gegnum hverfisskipulag, þéttingu byggðar, endurnýjun hverfiskjarna og fjárfestingu verði lögð áhersla á að hverfi Reykjavíkurborgar verði gönguvænni og að tryggt verði aðgengi að grænum svæðum, útivist og þjónustu í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri.
Græna borgarþróun: Þróun borgarinnar verði öll innan skilgreindra vaxtarmarka hennar og 80% uppbyggingar íbúðahúsnæðis verði innan áhrifasvæðis Borgarlínu.

Markmið: Að draga úr losun vegna mannvirkja- og innviðagerðar. Að stuðla að grænum lífsstíl borgarbúa.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021 og áfram.

5.2.8. Aðlaga vottunarkerfi að íslenskum aðstæðum

Gerðar verði rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að gera opinberan íslenskan viðauka við BREEAM og til að hægt sé að setja fram séríslenskar kröfur í viðmiðum Svansins.

Markmið: Að vottunarkerfi séu meira aðlaðandi fyrir íslenska framkvæmdaraðila og að þau gefi raunverulegan umhverfisávinning hérlendis.

Ábyrgð: Grænni byggð og Umhverfisstofnun.

Tími: 2023.

5.2.7. Fræðsla til birgja um mismunandi vottanir, ávinning þeirra og rétta markaðssetningu á vottuðum vörum

Upplýsingaátak meðal birgja sem selja byggingarvörur til að auka þekkingu á mismunandi merkjum og þýðingu þeirra.

Markmið: Að birgjar geti stutt betur við sína viðskiptavini og gefið haldbærar upplýsingar um vottanir.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun og fleiri viðeigandi aðilar.

Tími: 2022-2023.