3.12. Virkja Handbók hússins og skrá fleiri upplýsingar í hana
Lagðar eru til breytingar á kafla 16.1 í byggingarreglugerð, og afleiddum ákvæðum, ásamt uppfærslu á leiðbeiningum með 16.1.1. gr. byggingarreglugerðar, sem verði á þá leið að handbók mannvirkis (stundum líka nefnd Handbók hússins) verði virkjuð og tryggt að hún geymi upplýsingar um hönnun, útreikninga, prófanir, efnisnotkun ásamt niðurstöðum orkuútreikninga og loftþéttileikaprófs. Eigendur hafi greiðan aðgang að handbókinni yfir allan líftíma mannvirkis, til dæmis í gegnum Mannvirkjaskrá , og að þeim sé gert auðvelt að skrá og uppfæra framkvæmdasögu (s.s. efnisval, umfang og framkvæmdaraðila) viðkomandi mannvirkis, m.t.t. viðhalds og endurbóta. Um leið þarf að gæta að því að handbókin verði ekki of flókin eða íþyngjandi.
Markmið: Að tengja saman í einu gagni hönnunar- og framkvæmdaforsendur og líftímanotkun byggingarinnar, sem hvetur framkvæmdaaðila til að huga að líftímanotkun. Notendur hafi vitneskju sem nauðsynleg er til að taka skynsamar og vistvænar ákvarðanir varðandi viðhald og rekstur á grunni hönnunar byggingarinnar.
Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.
Tími: 2023-2025.