5.1.12. Uppfæra og lækka gunnviðmið fyrir kolefnisspor allra verkefna

Reikna út og uppfæra grunnviðmið fyrir kolefnisspor ólíkra mannvirkjaflokka og verkefna; bæði fyrir opinber verkefni og á almennum markaði. Byggt meðal annars á gagnagreiningu frá aðgerðum 5.1.10. og 5.1.11.

Markmið: Að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að mannvirkjageirinn taki virkan þátt í samdrætti á losun. Að auka aðhald varðandi losun. Að losunarviðmið haldist í hendur við framfarir og aðgengi á almennum markaði varðandi loftslagsvænar lausnir.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2030.

5.1.11. Krafa gerð um að kolefnisspor almennra verkefna sé 30% lægra en grunnviðmið

Aðgerðin byggir á að innleiða kröfu um að útreiknuð losun skv. lífsferilsgreiningu, í skilgreindum mannvirkjaflokkum/verkefnum á almennum markaði, verði 30% lægri en grunnviðmið skilgreind í aðgerð 5.1.8.

Markmið: Að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að mannvirkjageirinn taki virkan þátt í samdrætti á losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2028.

5.1.10. Krafa gerð um að kolefnisspor opinberra verkefna sé 30% lægra en grunnviðmið

Aðgerðin byggir á að innleiða kröfu um að útreiknuð losun skv. lífsferilsgreiningu, í skilgreindum mannvirkjaflokkum/verkefnum hjá hinu opinbera, verði 30% lægri en grunnviðmið skilgreind í aðgerð 5.1.8.

Markmið: Að Ísland standi við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum og að mannvirkjageirinn taki virkan þátt í samdrætti á losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2027.

5.1.9. Innleiða skilyrði fyrir útreikninga á kolefnisspori mannvirkja á almennum markaði

Innleitt verði ákvæði í byggingarlöggjöf sem setur skilyrði um útreikninga á kolefnislosun með lífsferilsgreiningu, í tilteknum mannvirkjaflokkum/verkefnum á almennum markaði.
Greinargerð með útreikningum um fyrirhugað kolefnisspor fylgi aðaluppdráttum við umsókn byggingarleyfa og uppfærð greining við lokaúttekt.

Markmið: Að auka þekkingu á losun frá mannvirkjaframkvæmdum. Að auka almennt aðhald varðandi losun og auðvelda markmiðasetningu varðandi samdrátt í losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2025.

5.1.8. Uppfæra grunnviðmið fyrir kolefnisspor mismunandi mannvirkjaflokka

Viðmiðin verði byggð á uppfærðri gagnagreiningu frá aðgerðum 5.1.5. og 5.1.6. og öðrum aðgengilegum lífsferilsgreiningum á mannvirkjum á Íslandi.

Markmið: Að auðvelda markmiðasetningu um samdrátt í losun og innleiðingu á kröfum um markvissan samdrátt í losun.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2025.

5.1.7. Skilgreina kolefnishlutlausa byggingu fyrir íslenskar aðstæður

Skilgreining á kolefnishlutlausri byggingu (e. zero emission building) ætti að byggjast á aðlögun á erlendum skilgreiningum fyrir íslenskar aðstæður, lífsferilsgreiningum og stöðluðum aðferðum til kolefnisjöfnunar.

Markmið: Að aðlaga erlendar skilgreiningar að íslenskum aðstæðum. Að setja fram hvetjandi leið fyrir vistvæna mannvirkjagerð.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2023.

5.1.6. Skilgreina mannvirkjaflokka, mannvirkjaverkefni og grunnviðmið fyrir kolefnisspor þeirra

Í fyrstu verði viðmiðin byggð á gagnaöflun úr íslenskum og erlendum greiningum.

Markmið: Að auka þekkingu á loftslagsvænum verkefnum og lausnum. Að auðvelda markmiðasetningu um samdrátt í losun í verkefnum.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2023.

5.1.5. Innleiða skilyrði fyrir útreikninga á kolefnisspori opinberra verkefna

Innleitt verði ákvæði í byggingarlöggjöf sem setur skilyrði um útreikninga á kolefnislosun með lífsferilsgreiningu, í tilteknum opinberum mannvirkjaverkefnum.
Greinargerð með útreikningum um fyrirhugað kolefnisspor fylgi aðaluppdráttum við umsókn byggingarleyfa og uppfærð greining með lokaúttekt.

Markmið: Að auka aðhald í losun í opinberum mannvirkjaframkvæmdum, auðvelda markmiðasetningu um samdrátt í losun, auka almenna þekkingu á losun og þekkingu á loftslagsvænum lausnum. Að hið opinbera sé fyrirmynd í innleiðingu á lífsferilsgreiningum.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2023.

5.1.4. Gefa út fræðsluefni um lífsferilsgreiningar

Fræðsluefni um lífsferilsgreiningar fyrir byggingarefni og mannvirki unnið og gefið út. Í kjölfarið sett af stað fræðsluátak um kolefnisspor mannvirkja fyrir alla aðila í virðiskeðju mannvirkjagerðar.

Markmið: Að auka þekkingu á lífsferilsgreiningum og hvernig hægt sé að nýta þær til að draga úr losun og bæta yfirsýn.

Ábyrgð: HMS og Grænni byggð í samstarfi við viðeigandi menntastofnanir.

Tími: 2023.

5.1.3. Samræma aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga bygginga

Aðferðafræði um lífsferilsútreikninga fyrir íslenskar byggingar verði samræmd; hægt væri að líta til dæmis til Noregs og Danmerkur í því sambandi. Þrjár tegundir af greiningum skilgreindar: Skönnuð (e. screening) LCA, einföld LCA og heildstæð LCA. Sameiginlegur farvegur skilgreindur fyrir skráningu á niðurstöðum lífsferilsgreininga.

Markmið: Að tryggja að forsendur og afmörkun í íslenskum lífsferilsgreiningum sé sú sama. Að tryggja að hægt sé að bera saman lífsferilsgreiningar og lífsferilsfasa bygginga. Að auka trúverðugleika greininga. Að afla gagna um losun frá byggingum svo hægt sé að meta betur heildarlosun íslenska byggingariðnaðarins.

Ábyrgð: HMS.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur á aðgerð hafinn.

Tími: 2022.