4.11. Áhersla lögð á byggingastarfsemi í úrgangsforvarnastefnunni Saman gegn sóun

Saman gegn sóun er almenn stefna umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir sem gildir frá árinu 2016 til 2027. Í stefnunni er lögð áhersla á nægjusemi, betri nýtni og minni sóun ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Níu áhersluflokkar eru í brennidepli, þar af verða byggingar og byggingastarfsemi sérstakur áhersluflokkur 2024-2025. Sjá nánari upplýsingar á samangegnsoun.is.

Markmið: Að draga úr myndun úrgangs. Að draga úr losun. Að bæta nýtingu auðlinda. Að draga úr hráefnisnotkun. Að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun.

Tími: 2024-2025.

4.10. Gefa út leiðbeiningar um ábyrgt niðurrif

Unnar verði leiðbeiningar á grundvelli reynslu íslenskra hagaðila og erlendis frá, um hvernig rífa megi niður mannvirki þannig að sem mest verðmæti haldist í byggingarefnum. Fundnar verði leiðir þannig að verðmæti rýrni ekki, efnin séu nýtt þar sem þau eru verðmætust og förgun sé í lágmarki. Byggt verði meðal annars á rannsóknarverkefnum Grænni byggðar um byggingarúrgang og leiðbeiningum heilbrigðiseftirlitsins um niðurrif húsa og annarra bygginga. Skoða hvort hægt sé að setja kröfu um skil á ástandi húss sem fyrirhugað er að rífa, fyrir útgáfu leyfis um niðurrif. Þannig verði metið hvort ástand hússins kalli á niðurrif. Einnig skoða kröfu um að áætlun um endurnotkun byggingarefna fylgi með.

Markmið: Að stuðla að því að við niðurrif og undirbúning þeirra sé ávallt tekið tillit til hringrásarhagkerfisins, það er endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar á þeim byggingarefnum og byggingarhlutum sem falla til.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Samstarfsaðilar: HMS, hönnuðir, byggingarverktakar, móttökuaðilar úrgangs, endurvinnslufyrirtæki, menntastofnanir.

Tími: 2023-2024.

4.9. Gefa út leiðbeiningar um úrgangsforvarnir, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu byggingarefna við hönnun nýrra mannvirkja og á endurbótum

Á grundvelli niðurstaðna úr aðgerð 4.2., reynslu innlendra hagaðila og erlendis frá, verði unnar leiðbeiningar um endurnýtingu byggingarefna við hönnun nýrra mannvirkja og við endurbætur þeirra.
Hönnun þarf að taka mið af niðurrifi, endurbótum eða breytingum mannvirkja, þannig að byggingar geti til dæmis tekið ný hlutverk á æviskeiðinu.

Markmið: Að stuðla að því að við hönnun endurbóta og nýrra mannvirkja sé ávallt tekið tillit til hringrásarhagkerfisins og loka líftíma mannvirkja, þ.e. til niðurrifs, undirbúnings endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2023-2024.

4.8. Greina hvort og hvaða ákvæði í lögum um byggingarvörur og byggingarreglugerð væri hægt að endurskoða til að stuðla að aukinni virkni hringrásarhagkerfisins, án þess að það komi niður á öryggi og gæðum

Ýmis ákvæði í Evrópulöggjöf og íslenskri byggingarlöggjöf hindra endurnotkun margra byggingarefna, vegna krafna um CE-merkingar, öryggi og lágmarksgæði. Þau ættu þó ekki að hindra úrgangsmeðhöndlun ofar í úrgangsþríhyrningnum, það er endurvinnslu eða aðra endurnýtingu. Greina þarf hvort og hvernig væri hægt að endurskoða lög og reglugerðir til eflingar hringrásarhagkerfisins, í samræmi við kröfur um öryggi og gæði. Meðal annars væri hægt að byggja á CIRCON-verkefninu (hringarásarverkefni sem er verkefnastýrt af Grænni byggð) og norræna samstarfsverkefninu Nordic Network for Circular Construction.

Markmið: Að finna leiðir til að ryðja úr vegi ákvæðum sem hindra virkni hringrásarhagkerfisins, án þess að afsláttur sé gefinn á öryggi og gæði mannvirkja. Að finna leiðir fyrir ný ákvæði sem stuðla að aukinni virkni hringrásarhagkerfisins.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti, HMS.

Tími: 2022-2023.

4.7. Koma á skýrri kröfu um skil á rauntölum um magn úrgangs og virkja eftirfylgni

Í samstarfi við Umhverfisstofnun og viðeigandi hagaðila, útfæra verkferla þannig að skráningar á úrgangi sem fellur til við mannvirkjaframkvæmdir verði samræmdar, rafrænar og einungis þurfi að skila á einn stað. Samræma þarf söfnun upplýsinga svo að þær stangist ekki á. Byggingarverktakar ættu að geta nálgast þessar upplýsingar með auðveldum hætti hjá þeim fyrirtækjum sem annast meðhöndlun á úrgangi þeirra. Styðjast við fyrirmyndir frá Norðurlöndum.
Hægt væri að ganga lengra og tengja við kerfið tölur um losun gróðurhúsalofttegunda og kostnað þannig að þau sem fylla út skjalið rafrænt fái upplýsingar um þessa þætti.

Markmið: Að magn, uppruni og örlög alls byggingarúrgangs á Íslandi verði þekkt árið 2030.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti, HMS.

Tími: 2023-2024.

4.6. Skrá í Mannvirkjaskrá þær byggingar sem hafa fengið leyfi til niðurrifs

Í uppbyggingu Mannvirkjaskrár HMS verður gert ráð fyrir því að skráð verði sérstaklega þegar leyfi hefur verið gefið til niðurrifs byggingar.

Markmið: Að fá yfirsýn yfir hvaða byggingar hafa fengið leyfi til niðurrifs og hvenær, svo hönnuðir, byggingaraðilar o.fl. fái betra tækifæri til að kanna hvar, hvenær og hvers konar byggingarefni mun falla til við niðurrif til mögulegrar notkunar í önnur verkefni.

Ábyrgð: HMS.

Tími: 2022-2023.

4.5. Bæta við kröfu í byggingarreglugerð um að greinargerð hönnuða innihaldi upplýsingar um hámarksnýtingu byggingarefna

Breytingar verði gerðar á 4.5.3 gr. í byggingarreglugerð, varðandi greinargerð hönnuða, þ.e. bætt verði við lið (j) um hámarksnýtingu byggingarefna. Samkvæmt þeim lið verði fjallað um hvernig hönnun taki mið af hámarksnýtingu byggingarefna, lágmarksrýrnun efna, endurvinnslu eða aðra endurnýtingu efna, magntöku byggingarefna, lágmörkun byggingarúrgangs og niðurrifi. Um leið verði leiðbeiningar HMS um greinargerð hönnuða uppfærðar til samræmis.

Markmið: Að myndun byggingarúrgangs verði lágmörkuð á hönnunarstigi. Að auka meðvitund um ábyrgt val og nýtingu á byggingarefnum við mannvirkjagerð. Að allur efniviður mannvirkis verði þekktur á hönnunarstigi.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2022-2023.

4.4. Hefja samtal og hvetja ríki eða sveitarfélög til að bjóða upp á ákjósanleg svæði þar sem hægt er e.a. að gefa, selja, nálgast og kaupa byggingarefni sem fallið hefur til

Í framhaldinu væri hægt að bjóða rekstur viðkomandi svæða út. Ef enginn áhugi er fyrir hendi gæti ríki eða sveitarfélög annast reksturinn á þeim.
Starfshópur um Græna húsnæðisuppbyggingu í Reykjavíkurborg mun skoða gerð auðlindagarðs fyrir endurnýtingu efnis frá byggingasvæðum, í samstarfi við Sorpu.

Markmið: Að auðvelda aðgengi að notuðu byggingarefni af ýmsum toga sem hægt er að nýta í önnur verkefni.

Ábyrgð: HMS, Grænni byggð, SI, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.

Tími: 2022-2023.

4.3. Kynningarátak um nýjar flokkunarkröfur á byggingar- og niðurrifsúrgangi hjá rekstraraðilum

Kynningar- og fræðsluátak um nýjar kröfur sem taka gildi 1. janúar 2023, um að rekstraraðilum beri að flokka allan byggingar- og niðurrifsúrgang í a.m.k. eftirfarandi flokka: Spilliefni, timbur, steinefni, málm, gler, plast og gifs. Aðstaða til flokkunar þarf að vera á staðnum auk þess sem koma þarf hinum flokkaða úrgangi á móttökustöð, sem að sama skapi þarf að geta tekið við öllum flokkunum.

Markmið: Að stuðla að árangursríkri innleiðingu á nýjum flokkunarkröfum byggingar- og niðurrifsúrgangs. Að stuðla að betri flokkun og öflugra hringrásarhagkerfi.

Ábyrgð: Óljóst.

Tími: 2022-2023.

4.2. Kortleggja og gera leiðbeiningar um nýtingarmöguleika mismunandi byggingarúrgangs

Unnin verði kortlagning mismunandi strauma byggingarúrgangs þar sem skoðað er hvaða efni eru almennt hæf til áframhaldandi notkunar, hvað má fara í endurvinnslu og hvaða efnum þarf að farga sökum efnainnihalds, til dæmis sem spilliefni.
Leiðbeiningar gerðar um endurnotkunar- eða endurnýtingarfarvegi fyrir annars vegar þrjá stærstu byggingarúrgangsstraumana og hins vegar þá strauma úrgangs sem valda mestu kolefnisspori.
Byggt verði meðal annars á nýlegum rannsóknarverkefnum Grænni byggðar um byggingarúrgang.

Markmið: Að stuðla að notkun jarðvegs og jarðefnis sem næst upprunastað. Að lágmarka miðlæga geymslu jarðvegs og jarðefnis. Að hámarka endurnýtingu á á jarðveg og jarðefni.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Staðan í maí 2022: Aðgerð fjármögnuð af URN og vinna hafin.

Tími: 2022.