5.1.6. Skilgreina mannvirkjaflokka, mannvirkjaverkefni og grunnviðmið fyrir kolefnisspor þeirra

Í fyrstu verði viðmiðin byggð á gagnaöflun úr íslenskum og erlendum greiningum.

Markmið: Að auka þekkingu á loftslagsvænum verkefnum og lausnum. Að auðvelda markmiðasetningu um samdrátt í losun í verkefnum.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2023.

5.1.5. Innleiða skilyrði fyrir útreikninga á kolefnisspori opinberra verkefna

Innleitt verði ákvæði í byggingarlöggjöf sem setur skilyrði um útreikninga á kolefnislosun með lífsferilsgreiningu, í tilteknum opinberum mannvirkjaverkefnum.
Greinargerð með útreikningum um fyrirhugað kolefnisspor fylgi aðaluppdráttum við umsókn byggingarleyfa og uppfærð greining með lokaúttekt.

Markmið: Að auka aðhald í losun í opinberum mannvirkjaframkvæmdum, auðvelda markmiðasetningu um samdrátt í losun, auka almenna þekkingu á losun og þekkingu á loftslagsvænum lausnum. Að hið opinbera sé fyrirmynd í innleiðingu á lífsferilsgreiningum.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti og HMS.

Tími: 2023.

5.1.4. Gefa út fræðsluefni um lífsferilsgreiningar

Fræðsluefni um lífsferilsgreiningar fyrir byggingarefni og mannvirki unnið og gefið út. Í kjölfarið sett af stað fræðsluátak um kolefnisspor mannvirkja fyrir alla aðila í virðiskeðju mannvirkjagerðar.

Markmið: Að auka þekkingu á lífsferilsgreiningum og hvernig hægt sé að nýta þær til að draga úr losun og bæta yfirsýn.

Ábyrgð: HMS og Grænni byggð í samstarfi við viðeigandi menntastofnanir.

Tími: 2023.

5.1.3. Samræma aðferðafræði við gerð lífsferilsgreininga bygginga

Aðferðafræði um lífsferilsútreikninga fyrir íslenskar byggingar verði samræmd; hægt væri að líta til dæmis til Noregs og Danmerkur í því sambandi. Þrjár tegundir af greiningum skilgreindar: Skönnuð (e. screening) LCA, einföld LCA og heildstæð LCA. Sameiginlegur farvegur skilgreindur fyrir skráningu á niðurstöðum lífsferilsgreininga.

Markmið: Að tryggja að forsendur og afmörkun í íslenskum lífsferilsgreiningum sé sú sama. Að tryggja að hægt sé að bera saman lífsferilsgreiningar og lífsferilsfasa bygginga. Að auka trúverðugleika greininga. Að afla gagna um losun frá byggingum svo hægt sé að meta betur heildarlosun íslenska byggingariðnaðarins.

Ábyrgð: HMS.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur á aðgerð hafinn.

Tími: 2022.

5.1.2. Gera lífsferilsgreiningar á öllum BREEAM-vottuðum nýbyggingum Reykjavíkurborgar

Þar á meðal verður losun vegna byggingarefna metin, í samræmi við aðgerðir um vistvæn mannvirki í loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025.

Markmið: Að meta og draga úr losun vegna mannvirkja í kolefnisspori Reykjavíkurborgar.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg.

Tími: 2022 og áfram.

5.1.1. Meta losun framkvæmda Vegagerðarinnar með uppsprettugreiningu

Aðlöguð útgáfa af uppsprettugreiningarmódelum frá Norðurlöndunum. Uppsprettugreiningin verður notuð til að gera líkan til að meta losun gróðurhúsalofttegunda mismunandi hönnunar mannvirkja og veglína og við mat á umhverfisáhrifum. Þegar framkvæmd er lokið verður raunlosun metin og uppsprettugreiningin uppfærð.

Markmið: Að meta losun frá framkvæmdum Vegagerðarinnar, svo hægt sé að skilgreina markvissar aðgerðir til að draga úr losun þeirra.

Ábyrgð: Vegagerðin.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021-2023.

4.11. Áhersla lögð á byggingastarfsemi í úrgangsforvarnastefnunni Saman gegn sóun

Saman gegn sóun er almenn stefna umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir sem gildir frá árinu 2016 til 2027. Í stefnunni er lögð áhersla á nægjusemi, betri nýtni og minni sóun ásamt því að auka fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs. Níu áhersluflokkar eru í brennidepli, þar af verða byggingar og byggingastarfsemi sérstakur áhersluflokkur 2024-2025. Sjá nánari upplýsingar á samangegnsoun.is.

Markmið: Að draga úr myndun úrgangs. Að draga úr losun. Að bæta nýtingu auðlinda. Að draga úr hráefnisnotkun. Að minnka dreifingu á efnum sem eru skaðleg heilsu og umhverfi.

Ábyrgð: Umhverfisstofnun.

Tími: 2024-2025.

4.10. Gefa út leiðbeiningar um ábyrgt niðurrif

Unnar verði leiðbeiningar á grundvelli reynslu íslenskra hagaðila og erlendis frá, um hvernig rífa megi niður mannvirki þannig að sem mest verðmæti haldist í byggingarefnum. Fundnar verði leiðir þannig að verðmæti rýrni ekki, efnin séu nýtt þar sem þau eru verðmætust og förgun sé í lágmarki. Byggt verði meðal annars á rannsóknarverkefnum Grænni byggðar um byggingarúrgang og leiðbeiningum heilbrigðiseftirlitsins um niðurrif húsa og annarra bygginga. Skoða hvort hægt sé að setja kröfu um skil á ástandi húss sem fyrirhugað er að rífa, fyrir útgáfu leyfis um niðurrif. Þannig verði metið hvort ástand hússins kalli á niðurrif. Einnig skoða kröfu um að áætlun um endurnotkun byggingarefna fylgi með.

Markmið: Að stuðla að því að við niðurrif og undirbúning þeirra sé ávallt tekið tillit til hringrásarhagkerfisins, það er endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar á þeim byggingarefnum og byggingarhlutum sem falla til.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Samstarfsaðilar: HMS, hönnuðir, byggingarverktakar, móttökuaðilar úrgangs, endurvinnslufyrirtæki, menntastofnanir.

Tími: 2023-2024.

4.9. Gefa út leiðbeiningar um úrgangsforvarnir, undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og aðra endurnýtingu byggingarefna við hönnun nýrra mannvirkja og á endurbótum

Á grundvelli niðurstaðna úr aðgerð 4.2., reynslu innlendra hagaðila og erlendis frá, verði unnar leiðbeiningar um endurnýtingu byggingarefna við hönnun nýrra mannvirkja og við endurbætur þeirra.
Hönnun þarf að taka mið af niðurrifi, endurbótum eða breytingum mannvirkja, þannig að byggingar geti til dæmis tekið ný hlutverk á æviskeiðinu.

Markmið: Að stuðla að því að við hönnun endurbóta og nýrra mannvirkja sé ávallt tekið tillit til hringrásarhagkerfisins og loka líftíma mannvirkja, þ.e. til niðurrifs, undirbúnings endurnotkunar, endurvinnslu og annarrar endurnýtingar.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Tími: 2023-2024.

4.8. Greina hvort og hvaða ákvæði í lögum um byggingarvörur og byggingarreglugerð væri hægt að endurskoða til að stuðla að aukinni virkni hringrásarhagkerfisins, án þess að það komi niður á öryggi og gæðum

Ýmis ákvæði í Evrópulöggjöf og íslenskri byggingarlöggjöf hindra endurnotkun margra byggingarefna, vegna krafna um CE-merkingar, öryggi og lágmarksgæði. Þau ættu þó ekki að hindra úrgangsmeðhöndlun ofar í úrgangsþríhyrningnum, það er endurvinnslu eða aðra endurnýtingu. Greina þarf hvort og hvernig væri hægt að endurskoða lög og reglugerðir til eflingar hringrásarhagkerfisins, í samræmi við kröfur um öryggi og gæði. Meðal annars væri hægt að byggja á CIRCON-verkefninu (hringarásarverkefni sem er verkefnastýrt af Grænni byggð) og norræna samstarfsverkefninu Nordic Network for Circular Construction.

Markmið: Að finna leiðir til að ryðja úr vegi ákvæðum sem hindra virkni hringrásarhagkerfisins, án þess að afsláttur sé gefinn á öryggi og gæði mannvirkja. Að finna leiðir fyrir ný ákvæði sem stuðla að aukinni virkni hringrásarhagkerfisins.

Ábyrgð: Innviðaráðuneyti, HMS.

Tími: 2022-2023.