Greiningar

Lífsferilsgreining (LCA)

Frá og með 1. september 2025 verður gerð krafa um lífsferilsgreiningu fyrir öll ný byggingarleyfisskyld mannvirki í umfangsflokkum 2. og 3., sbr. 1.3.2. grein í byggingarreglugerð. Jafnframt verður gerð krafa um að skila niðurstöðunum í gegnum rafræna skilagátt á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, bæði á hönnunarstigi áður en sótt er um byggingarleyfi og á lokastigi áður en lokaúttekt fer fram. 

Vistvænni mannvirkjagerð er einkar mikilvæg þar sem talið er að 30-40% af losun á koltvíoxíði á heimsvísi stafi frá mannvirkjagerð og notkun.

Hvað er lífsferilsgreining?

Lífsferilsgreining (e. Life Cycle analysis eða LCA) er viðurkennd aðferð sem er notuð til að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru eða þjónustu yfir alla virðiskeðjuna. Þannig er meðal annars tekið tillit til öflunar hráefna, framleiðslu, notkunar og förgunar.

Lykilatriði er að ef ekki er hægt að mæla það þá er ekki hægt að bæta það.

Fyrsta afurð nýrrar byggingarreglugerðar

Krafa um lífsferilsgreiningar er fyrsta afurð vinnu við heildarendurskoðun á byggingarreglugerð. Engu síður kemur krafan um gerð lífsferilsgreiningar í gegnum breytingar á núverandi byggingarreglugerð, en ekki með gerð nýrrar reglugerðar.

Lífsferilsgreining – niðurstöður

Kolefnisspor Háteigsvegar 59 var um 160 tonn eða 307 kg CO2-íg/m2. Byggingin hafði því 53% lægra kolefnispor en viðmiðunarhús HMS (sjá Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030, I. hluta, Byggjum grænni framtíð).

Samhliða hönnunarvinnu arkitekts framkvæmdi VSÓ Ráðgjöf lífsferilsgreiningu og samanburð við sérstakt viðmiðunarhús sem byggir á hefðbundinni hönnun fyrir Háteigsveg 59. Miðað við það viðmiðunarhús er kolefnissparnaður 34%.

Kennistærðir lífsferilsgreiningar Háteigsvegar 59

  • Kolefnisspor byggingar: 160 tonn CO2-íg
  • Kolefnisspor á m2: 307 CO2-íg/m2 (53% lægra en viðmiðunarbygg HMS, 34% lægra en viðmiðunarbygging VSÓ)
  • Kolefnissparnaður: 180 tonn CO2-íg (viðmiðunarb. HMS)/90 tonn CO2-íg (viðmiðunarb. VSÓ)
  • Kolefnissamanburður einkunn: A-hæsta einkunn (samanburður við íbúðarhúsnæði á Norðurlöndum 2023)
  • Þyngd byggingarefna: Heildarþyngd byggingarefna 1390 tonn/þyngd endurnýttra byggingarefna 233 tonn
  • Hlutfall endurnýttra efna í byggingunni: 17%

Frá upphafi verkefnisins var litið til umhverfisáhrifa byggingarinnar samhliða hönnun. Sérstaklega var miðað við að endurnota byggingarefni alls staðar þar sem það var hægt. Gólfefnið í byggingunni samanstendur af endurnotuðu parketi frá Danmörku og endurnotuðum flísum. Utan á byggingunni var sett endurnotuð og endingargóð brennd timburklæðningu. Að auki er um þriðjungur glugga og hurða endurnýtt. Endurnýtt byggingarefni er 17% af þyngd alls byggingarefnis sem notað var í byggingunni.

Byggingarefni standa að jafnaði að baki 45% kolefnisspors íslenskra bygginga og eru þar af leiðandi áhrifamesti þáttur í kolefnisspori bygginganna. Með því að velja endurnotuð og umhverfisvæn byggingarefni er hægt að draga verulega úr umhverfisáhrifum mannvirkja og Háteigsvegur 59 er gott dæmi um það.

 

Sjá má kolefnissamanburð endurnotaðra byggingarhluta í eftirfarandi töflu: 

Lesa má nánar um gerð lífsferilsgreiningar og þjónustu VSÓ á vefsíðu VSÓ.

Líftímakostnaðargreining

Líftímakostnaðargreining (e. Life Cycle Cost eða LCC) er notuð til að meta heildarkostnað sem fellur til við byggingu eða rekstur mannvirkis frá upphafi til enda eða við allan lífsferil vöru og/eða þjónustu. Þar er meðtalinn stofn-, rekstrar-, viðhalds- og förgunarkostnaður.

LCC greining sem gerð er samhliða lífsferilsgreiningu (LCA) auðveldar til dæmis verkkaupa að halda utan um það að eiga fasteign með tilliti til umhverfis- og kostnaðarsjónarmiða.

Líftímakostnaðargreining – niðurstöður

Líftímakostnaðargreining var mikilvægur hluti af hönnunarferlinu, en hún var unnin af VSÓ Ráðgjöf. Hún gaf möguleika á að meta valkosti og upplýsti efnisval, rétt eins og lífsferilsgreining. Fyrir marga byggingarhluta voru nokkur byggingarefni skoðuð og borin saman m.t.t. heildarkostnaðar yfir líftíma mannvirkisins. Með því að taka tillit til þátta eins og viðgerðar- og rekstrarkostnaðar ásamt fleiru, var hægt að velja það efni sem raunverulega var hagkvæmast. Niðurstaða líftímakostnaðar- og lífsferilsgreininga var metin samhliða fyrir byggingarefni svo hægt væri að gera bygginguna bæði hagkvæmari og umhverfisvænni. Mikilvægt var að vinna þessar greiningar samhliða því umhverfisvænasti kosturinn er ekki alltaf sá ódýrasti.

Greining á gluggakerfum sýndi fram á að timburgluggar væru dýrari en álgluggar til 60 ára þó stofnkostnaður væri minni. Þegar líftímakostnaðar- og lífsferilsgreining voru metnar saman var fallist á ál-timburglugga.

Ódýrasta byggingarefnið er þó það efni sem er nú þegar til. Með því að endurnota byggingarefni má lækka stofnkostnað verulega og þar af leiðandi líftímakostnað. Með framtaki arkitekts fengust ál-timburgluggar sem voru vitlaust framleiddir og því á leið í urðun. Endurnýttu gluggarnir reyndust vera bæði hagkvæmasti og umhverfisvænasti kosturinn.

Lesa má nánar um gerð líftímakostnaðargreininga og þjónustu VSÓ á vefsíðu VSÓ.