Search
Close this search box.

Vegvísir: Byggingariðnaðurinn setur sér markmið um að draga úr losun um 43% fyrir 2030

Byggingariðnaðurinn, í samvinnu við stjórnvöld, hefur sett sér þau markmið að dregið verði úr árlegri kolefnislosun bygginga á Íslandi um 43% fyrir árið 2030, miðað við núverandi losun. Markmiðin eru sett fram í nýjum vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð sem gefinn var út 9. júní 2022 á vegum samstarfsvettvangsins Byggjum grænni framtíð (BGF). Í vegvísinum er losun íslenskra bygginga metin, markmið sett um að draga úr losun fyrir 2030 og aðgerðir skilgreindar til að ná þeim markmiðum.

Vegvísinn má nálgast hér: byggjumgraenniframtid/utgefid-efni/

Upptöku af útgáfuviðburðinum má nálgast hér: Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð 2030 on Vimeo

Þetta er í fyrsta sinn sem losun, markmið og aðgerðir fyrir vistvæna mannvirkjagerð á Íslandi eru skilgreind með þessum hætti. Hátt í 200 einstaklingar innan allrar virðiskeðju mannvirkjageirans tóku þátt í gerð vegvísisins. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur utan um samstarfsvettvanginn Byggjum grænni framtíð.

74 aðgerðir og margar komnar af stað

Aðgerðirnar sem kynntar eru í vegvísinum eru 74 talsins. Þar af eru 23 aðgerðir ýmist komnar á undirbúnings-/framkvæmdastig eða þeim lokið. Um 50 aðilar úr ýmsum áttum eiga aðild að því að koma aðgerðunum í framkvæmd með einum eða öðrum hætti. 

„Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þessu öfluga samstarfi um vistvæna mannvirkjagerð, þar sem stjórnvöld og byggingargeirinn hafa unnið saman að því að búa til markvisst og mjög metnaðarfullt aðgerðaplan. Ég hef mikla trú á að þessum markmiðum verði náð,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS.

„Byggingariðnaðurinn mun með þessum áfanga stíga stórt skref í átt að vistvænni uppbyggingu. Náið samstarf atvinnulífs og stjórnvalda um eftirfylgni aðgerðanna verður þó áfram lykillinn að árangri þar sem stjórnvöld  móta umgjörðina og atvinnulífið innleiðir nýja hugsun, nýsköpun og aðferðafræði,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Mikið kolefnisspor frá íslenskum byggingum

Heildarlosun frá íslenskum byggingum var metin í fyrsta sinn á vegum verkefnisins og birt í I. hluta Vegvísisins, sem gefinn var út í febrúar 2022. Þar kom fram að 45% af kolefnisspori íslenskra bygginga kemur frá byggingarefnum, einkum steypu. Losun vegna orkunýtingar mannvirkja ber ábyrgð á 30% af kolefnissporinu.

Helstu aðgerðir

Aðgerðirnar sem tilgreindar eru í vegvísinum eru fjölbreyttar, en meðal þeirra áhrifaríkustu eru:

  • Samræmd aðferðafræði við útreikninga á kolefnisspori bygginga
  • Vistvænni steypa
  • Efling hringrásarhagkerfisins
  • Samræmd aðferðafræði við orkuútreikninga og orkuflokkun bygginga
  • Umhverfisskilyrði í útboð opinberra verkkaupa
  • Greining á fjárhagslegum og umhverfislegum ávinningi umhverfisvottana
  • Sameiginlegt sölutorg, Mölundur, um jarðveg og jarðefni
  • Rekstur Asks – mannvirkjarannsóknarsjóðs

Síðast en ekki síst eru kynntar fjölmargar aðgerðir sem einstaka hagaðilar innan virðiskeðjunnar geta gripið til.

Nánar um samstarfsvettvanginn Byggjum grænni framtíð

Byggjum grænni framtíð er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð. Hann á rót sína að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og er mikilvægur í ljósi þess að mannvirkjageirinn ber ábyrgð á 30-40% af losun á heimsvísu. Hlutfallsleg auðlindanotkun og orkunýting hans er á svipuðum skala.

Í verkefnastjórn Byggjum grænni framtíð sitja:

  • Jóhanna Klara Stefánsdóttir, Samtök iðnaðarins
  • Lárus M. K. Ólafsson, Samtök iðnaðarins
  • Áróra Árnadóttir, Grænni byggð
  • Ragnar Ómarsson, Grænni byggð
  • Eygerður Margrétardóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga
  • Páll Valdimar Kolka, Vegagerðin
  • Erna Bára Hreinsdóttir, Vegagerðin
  • Sigrún Dögg Kvaran, innviðaráðuneytið
  • Olga Árnadóttir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
  • Birgitta Stefánsdóttir, Umhverfisstofnun
  • Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (verkefnastjóri)

Innleiðing á aðgerðaáætlun

Við útgáfu vegvísisins hefst nýr innleiðingafasi hjá samstarfsvettvangnum Byggjum grænni framtíð. Ný verkefnastjórn undir forystu HMS verður skipuð sem fær það hlutverk að fylgja innleiðingu verkefnisins eftir og tryggja framkvæmd aðgerðaáætlunar. Vegvísirinn verður settur í opið samráð þar sem allir hagaðilar hafa tækifæri til að koma með ábendingar og veita umsagnir. Í framhaldinu verður unnið úr innsendum umsögnum og tillit tekið til þeirra við innleiðinguna.

Stefnt er að því að losun mannvirkjageirans verði metin á ný fyrir lok ársins 2024, og að markmið og aðgerðaáætlunin verði í framhaldinu endurskoðuð í samræmi við reynslu og nýjar upplýsingar varðandi vistvæna mannvirkjagerð.