6.10. Koma á fót átaksverkefni um vistvæn skref innan byggingariðnaðarins

Farið verði í átaksverkefni sem hvetur og aðstoðar fyrirtæki innan mannvirkjageirans til að taka vistvæn skref. Fyrirtæki sem taka þátt setji sér markmið og skuldbindi sig til að uppfylla ákveðinn fjölda af valkvæðum kröfum (t.d. innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfi, flokkun úrgangs á verkstað skv. lögum, notkun vistvænna vinnuvéla, mælingar á losun á framkvæmdasvæði o.s.frv.). Samhliða verði keyrð öflug fræðsluáætlun og stuðningur veittur fyrir árangursríka innleiðingu. Við þróun verkefnisins er til dæmis hægt að fá andagift frá World Green Building Council (The Net Zero Carbon Buildings Commitment), Danmörku (Frivillig bæredygtihedsklasse) og verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta.

Markmið: Að efla meðvitund, þekkingu, metnað og samstöðu byggingargeirans um vistvæna mannvirkjagerð og styðja við fyrirtæki innan hans til að grípa til skilvirkra aðgerða.

Ábyrgð: Óljóst.

Staðan í maí 2022: Undirbúningur hafinn.

Tími: 2022.

6.9. Koma á fót hvatningarverðlaunum fyrir vistvæna mannvirkjagerð (Græna skóflan)

Árlega verði verkefni sem ber af hvað varðar vistvæna mannvirkjagerð sæmt Grænu skóflunni. Horft verði til byggingarefna, orku, úrgangs, landnotkunar, hringrásarhagkerfisins, bundins kolefnis o.fl. Lagt upp með að verðlaunin verði einföld til að byrja með en hægt að fjölga viðurkenningum í framhaldinu, til dæmis fyrir umhverfisvænt framtak innan geirans.

Markmið: Að heiðra framúrskarandi verkefni á sviði vistvænnar mannvirkjagerðar og vekja athygli á þeim, til hvatningar fyrir allan byggingargeirann.

Ábyrgð: Grænni byggð.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin. Haustið 2021 fór fram hönnunarsamkeppni á verðlaunagrip meðal nemenda hjá LHÍ. Stefnt að fyrstu verðlaunaafhendingu á Degi Grænni byggðar haustið 2022.

Tími: 2021-2022.

6.8. Stofna samkeppnissjóð fyrir byggingariðnaðinn

Sjóðurinn veiti a.m.k. árlega styrki til rannsókna og nýsköpunar innan byggingargeirans, meðal annars til þróunar í umhverfismálum. Þannig væri unnt að örva framleiðslu á innlendum, vistvænum byggingarefnum, auka rannsóknir á endurnýtingu byggingar- og niðurrifsúrgangs m.t.t. gæða og íslenskra aðstæðna, bæta orkunýtingu o.s.frv.

Markmið: Að efla rannsóknir og nýsköpun innan mannvirkjageirans, meðal annars í tengslum við vistvæna mannvirkjagerð.

Ábyrgð: Innviðaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og HMS.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd lokið með stofnun Asks – mannvirkjarannsóknarsjóðs.

Tími: 2021

6.7. Skoða hvort gefa þurfi út samræmd viðmið fyrir græna fjármögnun og sjálfbærar fjárfestingar í mannvirkjagerð

Skoða þarf hvers konar viðmið það gætu verið (umhverfisvottanir, niðurstöður lífsferilsgreininga, orkunýting o.s.frv.) og hvers konar verkefni falli þar undir. Hægt væri að byggja m.a. á viðmiðum í nágrannalöndum.

Markmið: Að stuðla að auknu framboði og eftirspurn á fjármögnun fyrir vistvæna mannvirkjagerð.

Ábyrgð: Óljóst.

Tími: 2022

6.6. Tryggja framboð á lánum frá opinberum fjármálastofnunum til vistvænnar mannvirkjagerðar, endurbóta og viðhalds, í samræmi við starfsemi viðkomandi aðila

Stofnanir á borð við HMS, Byggðastofnun og Lánasjóð sveitarfélaga skoði leiðir til að tryggja lánaframboð til umhverfisvænnar mannvirkjagerðar, með fjölbreyttum hætti og á hagstæðum lánakjörum.

Markmið: Að fjölga leiðum til grænnar fjármögnunar innan mannvirkjageirans.

Ábyrgð: HMS, Lánasjóður sveitarfélaga, Byggðastofnun.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021 og áfram.

6.4. Gefa út leiðbeiningar um vistvæn innkaup fyrir mannvirkjagerð og sýnidæmi um umhverfisvænar hæfiskröfur og valforsendur fyrir mannvirkjaframkvæmdir

Einfaldar leiðbeiningar um hvernig má í opinberum innkaupum stuðla að vistvænni mannvirkjagerð og viðhaldi (bæði í útboðum og verðfyrirspurnum). Auk þess verða tekin saman sýnidæmi um skilyrði, hæfiskröfur og valforsendur um umhverfismál í útboðum fyrir mannvirkjaframkvæmdir.

Markmið: Að auðvelda opinberum verkkaupum öll vistvæn innkaup fyrir mannvirkjaframkvæmdir.

Ábyrgð: Ríkiskaup.

Staðan í maí 2022: Aðgerð fjármögnuð af URN. Framkvæmd hafin.

Tími: 2021-2022.

6.3. Stuðla að vistvænni húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík með verkefninu Grænt húsnæði framtíðarinnar

Reykjavíkurborg hefur sett af stað verkefnið Grænt húsnæði framtíðarinnar . Með því og öðrum tengdum verkefnum, eins og Reinventing Cities (C40), er ætlunin að styðja við og gera húsnæðisuppbyggingu í Reykjavík sjálfbærari. Í verkefninu úthlutar Reykjavíkurborg fimm lóðum sem á að þróa með vistvænum hætti í samstarfi við byggingariðnaðinn. Borgin mun í framhaldinu draga lærdóm af verkefnunum og þróa áfram hvernig vinna megi með grænar áherslur í húsnæðisuppbyggingu í borginni til lengri tíma litið.

Markmið: Að hvetja og styðja við þróun og uppbyggingu á vistvænni mannvirkja í Reykjavík.

Ábyrgð: Reykjavíkurborg.

Staðan í maí 2022: Framkvæmd hafin.

Tími: 2021-2024.

6.2. Efla umræður og fræðslu á samstarfsvettvangi sveitarfélaga um græna fjármögnunarmöguleika sveitarfélaga og hagræna hvata sem þau geta boðið upp á fyrir vistvæna mannvirkjagerð

Sveitarfélög (sem aðilar með stjórnsýslu- og skipulagsvald og eigendur mannvirkja) hafa fjölda tækifæra til að stuðla að vistvænni mannvirkjagerð með sérstökum hvötum. Flest sveitarfélaganna eru að taka sín fyrstu skref í þessu sambandi og því nauðsynlegt að skapa vettvang þar sem sveitarfélögin geta miðlað og deilt reynslu sinni og þekkingu, og um leið tekið við hugmyndum frá aðilum mannvirkjageirans.

Markmið: Að styrkja sveitarfélögin í uppbyggingu hvata fyrir vistvæna mannvirkjagerð með samtali.

Ábyrgð: Samband íslenskra sveitarfélaga og SI.

Tími: 2022 og áfram.

6.1. Tillaga til fjármálaráðuneytis um opinbera hvata fyrir vistvæna mannvirkjagerð

Hvatarnir gætu verið á formi afslátta, ívilnana, gjaldsetningar og skatta. Tillögurnar byggjast á víðtæku samráði við hagaðila í byggingariðnaðinum og úrvinnslu samstarfsverkefnisins Byggjum grænni framtíð.

Markmið: Að skapa fjárhagslega og faglega umgjörð sem stuðlar að loftslagsvænni hönnun, byggingu, reksturs og niðurrifs mannvirkja.

Ábyrgð: SI og HMS.

Tími: 2021.